Cointreau: frá sætum bitum í sætan sopa

Engum blöðum er um það að fletta að franski appelsínulíkjörinn Cointreau er einn sá vinsælasti sem framleiddur er í heiminum. Ekki einasta er hann vinsæll einn og sér, ellegar drukkinn út á ís, heldur er hann með allra vinsælustu íblöndunardrykkjum fyrir kokteila af öllu tagi. Cointreau er meðal annars opinberlega einn af drykkjunum sem nota skal þegar blandaður er alvöru Cosmopolitan, samkvæmt alþjóðasamtökum barþjóna (IBA – International Association of Bartenders). Íslendingar hafa líka löngum haft mikið dálæti á þessum ljúfa en um leið kraftmikla drykk og því ekki seinna vænna en að þeir læri að bera nafnið fram rétt; það er ekki kon-tru heldur kwen-tró. Segið það með mér: kwen-tró.

 

Sætabrauðsbræður söðla um

Árið er 1849 í bænum Angers í Leirudalnum í Vestur-Frakklandi. Bræðurnir Adolphe og Edouard-Jean Cointreau eru í þungum þönkum yfir framtíð og rekstri sætabrauðs- og sælgætisverslunar þeirra. Kökur og konfekt eru ekki að gefa nóg af sér og þeir eru að hugsa sér til hreyfings hvað fjölskyldufyrirtækið varðar. Ekki er vitað með vissu hvor bræðranna átti hugmyndina en snilldargóð var hún: að hætta í sætindum og sætabrauði en nota aðföngin eftir sem áður til að búa til áfenga drykki, en sætt, sterkt áfengi var gríðarlega vinsælt um þær mundir um leið og framboðið var ákaflega takmarkað. Með þessu móti þurfti hvorki að kasta lagerbirgðum frá fyrri rekstri né heldur koma á fætur nýjum viðskiptasamböndum. Það eina sem breyttist var varan sem þeir framleiddu.

Að smakka sig áfram, alla leið

Engu að síður var það meira en að segja það, að slá í gegn á drykkjavörumarkaðnum. Þeir Cointreau-bræður prófuðu sig áfram með mismunandi ávexti og varð kirsuberjalíkjörinn Guignolet talsvert vinsæll. Fyrirtækið gekk þokkalega en ekkert meira en það. Árið 1870 gekk svo Edouard yngri, sonur Edouard-Jean, til liðs við fjölskyldufyrirtækið með það fyrir augum að verða yfir-víngerðarmaður (e. master distiller) í fyllingu tímans. Hann tók þegar til við að prófa sig áfram með ýmsa ávexti, án þess að hitta á neina gullæð fyrstu árin. En þegar hann tók eftir síauknum vinsældum appelsínunnar meðal almennings fór hann að hugsa, og blanda. Að endingu datt hann niður á drykk þar sem börkur af sætum bæði og beiskum appelsínum fléttaðist saman í bragð sem honum fannst virka. Fleiri voru greinilega á sömu skoðun því drykkurinn sló samstundis í gegn og hann kom á markað árið 1875.

 

Vinsæll um allan heim

Síðan hefur mikill appelsínulíkjör runnið til sjávar, ef svo má að orði komast, og í dag eru næstum 14 milljón flöskur seldar á hverju ári. Vinsældirnar eru síður en svo staðbundnar því um 90% af framleiðslunni er flutt út og neytt um heim allan. Eins og framar greindi eru vinsældirnar ekki síst tilkomnar af því drykkurinn er með ólíkindum fjölhæfur þegar kemur að gerð hanastéla og Cointreau er með öllu ómissandi þegar sígildir kokteilar á borð við Sidecar, Ritz Cocktail og að sjálfsögðu Cosmopolitan eru galdraðir fram. Um leið er líkjörinn lykilatriði í hanastélum eins og Ginger Mint Margarita, Cointreau Bramble og hinn óviðjafnanlega sumarlega Cointreau Fizz, þar sem appelsínulíkjörinn ásamt sódavatni, lime og fullt af klökum hressa bragðlaukana svo um munar. Hér getur þú fundið þrjár skemmtilegar Cointreau Fizz uppskriftir. Á heimasíðunni Cointreau.com er svo að finna fjölmargar spennandi uppskriftir að margs konar mergjuðum kokteilum og gráupplagt að hrista fram eitthvað elegant nú þegar sumarið er í þann mund að bresta á fyrir alvöru.

Skál og gleðilegt sumar!

Share Post