Geyser Peak Zinfandel 2015

Víngarðurinn Vín og fleira segir:

Kannski er Zinfandel eina þrúgan sem Bandarískir víngerðarmenn geta eignað sér með einhverju ráði, jafnvel þótt hún sé ættuð frá Balkanskaganum og Suður-Ítalíu. Hún hefur nefnilega náð bæði útbreiðslu og vinsældum í Kaliforníu og þótt mikið sé auðvitað gert af verulega hversdagslegum vínum úr henni þar, þá eru inn á milli perlur (td Dry Creek og Louis Martini) sem sýna ágætlega þá möguleika sem hún býr yfir. Þetta vín hefur meðaldjúpan, plómurauðan lit og meðalopna angan sem er sæt og krydduð. Þar má greina plómur, kirsuberjasultu, kanil, bláberjaböku, vanillu og lakkrískonfekt. Það er meðalbragðmikið í munni með ágæta sýru og mjúk tannín. Ávöxturinn er býsna sætkenndur og þarna eru plómur, kirsuber, lakkrís, kanill og krydd. Það er svolítið stutt eftir miðjuna, sem dregur niður annars ágætt vín en það er þó best með einhverjum bragðmeiri hversdagsmat og þar sem krydd og tómatar koma við sögu.Verð kr. 2.199.- Góð kaup.

Share Post