Michel Lynch Merlot-Cabernet Sauvignon 2014

Vingarðurinn Vín og Fleira segir;

Öll vínin frá Mychel Lynch eru hreint afbragðsgóð, hvort sem það eru litlu vínin einsog þetta hér og þau tvö sem ég hef fjallað um fyrir stuttu, Sauvignon Blanc og Réserve, og svo auðvitað stóru vínin einsog Lynch-Bages eða Les Ormes-du-Pez og fyrir þá sem kunna vel að meta rauðvínin frá Bordeaux þá eru þetta upprunaleg og fín vín. Þetta vín hefur meðaldjúpan, rúbínrauðan lit og dæmigerðan, meðalopinn ilm af plómu, eikartunnu, sultuðum sólberjum, hindberjum, lakkrís og bleki. Þetta er ungleg og skemmtileg angan með þessa jarðbundnu og breiðleitu tóna sem einkenna Bordeaux. Í munni er það meðalbragðmikið og þurrt með góða sýru og fíngerð, mjúk tannín og keim af plómu, sólberjum, kirsuberjum, kaffi, lakkrís og steinefnnum. Ekki neitt sérstaklega flókið né langvarandi vín en hefur skýr upprunaeinkenni og fer afar vel með mat einsog flest Bordó-vín. Hafið með lambi, svínakjöti og ýmsum, frekar hörðum ostum. Verð kr. 2.199.- Frábær kaup.

 

 

Share Post