Michel Lynch Réserve Médoc 2014
3,5star
mlreserve

Víngarðurinn Vín og Fleira segir; 3 ½ stjarna

Nú hafa þau snúið aftur í hillurnar, vínin frá Michel Lynch sem voru hér til sölu á árum áður en Michel Lynch er vörumerki fjölskyldufyrirtækis Jean-Michel Cazes sem frægast er væntanlega fyrir Chateau Lynch-Bages og Chateau Les Ormes du Pez. Tvö frábær vín frá Paulliac og St. Éstephe. Þetta rauðvín er blandað úr þrúgum frá Médoc, væntanlega bæði Cabernet Sauvignon og Merlot og hugsanlega fleirum en liturinn er ríflega meðaldjúpur pló…murauður með þéttan kannt. Það er dæmigert og býsna flott í nefi með meðalopinn ilm þar sem greina má mokkasúkkulaði (frá Lindu), plómu, sólberjahlaup, kakó, krækiber og jörð. Í munni er það meðalbragðmikið, þétt og þurrt með góða sýru en dálítið græn og hrjúf tannín og hefur ekki alveg úthaldið sem maður ætlast til af slíku víni. Þarna má greina plómu, sólber, krækiberjahrat, mokkasúkkulaði og jörð. Dæmigert og fínt og það er ekki útilokað að það batni á næstu mánuðum (þetta er frekar ungt vín) og fái þá hálfu stjörnuna í viðbót, því stutt er í hana. Hafið með lambi og öðru rauðu kjöti. Verð kr. 2499.- Mjög góð kaup.

 

Vinotek segir; 3 ½ stjarna

Michel Lynch eru vín sem framleidd eru af Cazes-fjölskyldunni sem er ein af rótgrónu vínfjölskyldunum í Bordeaux. Þekktasta vínhús þeirra er Chateau Lynch Bages á Bages-hæðinni í Pauillac sem einnig er kennt við Thomas-MIchel Lynch, sem stofnaði vínhúsið á nítjándu öld ásamt vínhúsum sem í dag eru þekkt undir nöfnunum Lynch-Moussas og Dauzac. Þetta er byrjunarvínið í línunni, vel gert og  traust Bordeau-vín, blanda úr Cabernet og Merlot. Það er Merlot sem er ríkjandi í blöndunni, dökkrauður ávöxtur, rifs út í sólber, stífur strúktúr, tannískt og Bordeaux-legt. 2.299 krónur. Mjög góð kaup.

Share Post