Cune – fyrstir Spánverja á toppinn
Companiá Vinícola del Norte de España (CVNE) er heitið á einu merkasta vínframleiðslufyrirtæki Rioja, og um leið á gervöllum Spáni. Þetta hlemmstóra nafn merkir einfaldlega “Norður-Spánska Vínfyrirtækið,“ svo sem augljóst er. Hitt blasir ekki eins við, hvers vegna skammstöfunin CVNE þróaðist út í heitið “Cune” (lesist kú-nei) en það skiptir ekki öllu; líklega varð nafnið til einhvern tímann í fyrndinni til styttingar og auk þess eru það vínin sem eru aðalatriðið í þessu samhengi.
Stórveldið sem spratt upp úr slappleika
Miðað við hversu öflugt Cune er í dag má merkilegt heita að fyrirtækið varð til árið 1879, beint og óbeint upp úr veikindum manns að nafni Eusebio Real de Asúa. Hann var heilsuveill, meðal annars vegna asma, og þegar fjölskyldulæknirinn ráðlagði honum að breyta um umhverfi, flytja frá heimili sínu í Bilbao á Norðurströnd Spánar og halda til þurrara loftslags ákvað Eusebio ásamt bróður sínum, Raimundo, að hlýða því. Þeir héldu lóðbeint suður á bóginn og ákváðu að setjast að í bænum Haro í Rioja-héraði. Svæðið er staðsett á hásléttu og í skjóli Cantabria-fjalla í austri. Aðstæður voru því hagfelldar hinum heilsuveila Eusebio, og það sem meira var, annars konar pest átti einnig eftir að koma þeim bræðrum til góða.
Sú pest var reyndar ekkert gamanmál heldur var þar á ferð rótarlúsin skelfilega (sem alþjóðlega kallast phylloxera) sem lagði vínframleiðslu Frakklands nánast í algera rúst á seinni hluta 19. aldar. Það þýddi að það var lag að koma inn á markaðinn, meðan Frakkland barðist fyrir lífi sínu sem vínframleiðandi. Eusebio hafði nefnilega lært í Bordeaux og þegar hann hafði þrek til afréðu bræðurnir að hella sér út í vínbransann. Restin – eins og gjarna er sagt – er orðinn kafli í vínsögunni.
Undir stjórn 5. kynslóðarinnar
Sagan lifir líka góðu lífi enn þann dag í dag hjá Cune því núverandi eigendur eru beinir afkomendur Eusebio Real de Asúa. Systkinin Victor og Maria Urrutia eru fimmta kynslóð fjölskyldunnar til að stýra fyrirtækinu. Ættarnafninu er haldið á lofti með flaggskipi Cune af rauðvínunum, Real de Asúa. Það hefur verið framleitt óslitið frá 1994 og er sérvalið úr bestu Tempranillo-þrúgunum hverju sinni og forstjórinn Victor segir einu gilda hvaða afbrigði er notað – svo fremi sem aðeins það allra besta sé notað til þessarar tilteknu framleiðslu. Fyrir bragðið eru ekki framleiddar nema 5000 flöskur af Real de Asúa á hverju ári.
Þrotlaus vinna í þágu síaukinna gæða hefur líka skilað Cune mýmörgum verðlaunum í gegnum tíðina, sem of langt mál væri að telja upp, medalíu fyrir medalíu. En árið 2013 hlaut Cune aftur á móti verðlaun sem vert er að telja upp því í því fólust ákveðin tímamót, ekki fyrir fyrir fyrirtækið sjálft heldur Rioja sömuleiðis og allan Spán. Í fyrsta skipti í sögunni vermdi vín frá Spáni toppsætið á lista Wine Spectator yfir 100 bestu vín ársins. Það var semsé Cune Imperial Gran Reserva, árgerð 2004, sem hlaut þennan gríðarlega eftirsótta titil, fyrst allra vína frá Spáni.
Gæðavín og gott fyrir umhverfið
Vegferð Cune miðar hins vegar ekki bara að því að vinna verðlaun fyrir hágæða framleiðslu heldur hefur mikil vinna verið lögð í að kolefnisjafna framleiðsluna og fara eins sparlega með vatn við ræktunina og hægt er. Cune hófu fyrir um áratug að reikna út kolefnisspor sem og vatnsspor einnar vínekrunnar, Cune Crianza, til að átta sig á því hvert framlagið þyrfti að vera til umhverfisins til að jafna fótsporin út. Afraksturinn er sá að árið 2013 hlaut Cune Crianza hina eftirsóttu tvöföldu umhverfisvottun sem kennd er við Kolefnissporið og Vatnssporið, fyrst vínframleiðenda á Spáni. Þar fyrir utan er framleiðslan ISO vottuð, bæði samkvæmt 9001 og 140001 stöðlunum.
Velkomin í heimsókn til Cune
Fyrir áhugasama er gaman að geta þess að Cune leggur mikið upp úr gestrisni og alls konar heimsóknir eru í boði fyrir þá sem langar að skoða sig um, allt frá skoðunarferðum til námskeiða. Á meðan er kjörið að skrá börnin í skapandi vinnustofur á staðnum meðan hinir fullorðnu drekka í sig fróðleik bæði og framúrskarandi vín. Hægt er að leita frekari upplýsinga og skrá sig á vefsvæði Cune þar sem fjallað er um heimsóknirnar: http://www.visitascvne.com/en/
Hvernig væri að prófa?
Cune Rioja Crianza 2012
Vinotek segir;
Crianza-vínið frá Cune kemur nú með skrúfuðum tappa í fyrsta skipti, sem er ekki óvitlaust fyrir vín sem þessi þar sem við viljum halda í ferskleika ávaxtarins. Rauð ber, rifsber og trönuber, mild eik, vel uppbyggt, mjúk tannín.
Þægilegt og flott. 2.299 krónur. Mjög góð kaup.
Cune Ribera del Duero Roble 2015
Vinotek segir;
Spænska vínhúsið Cune hefur löngum verið eitt það fyrirferðarmesta og mikilvægasta í Rioja en hefur á síðustu árum eins og mörg vínhús þar fært aðeins út kvíarnar með framleiðslu vína frá öðrum þekktum svæðum. Þetta rauðvín er þannig frá Ribera del Duero þar sem Tempranillo-þrúgan er notuð, rétt eins og í Rioja. Flokkun vínanna í Ribera er aðeins öðruvísi en í Rioja. Yngstu vínin eru yfirleitt nefnd Joven (ung) eða Roble (eik) eða jafnvel Joven Roble en það gefur til kynna að vínið hafi verið að minnsta kosti í ár á tunnu áður en því var átappað. Vínið er því enn mjög ungt sem sést vel á lit þess sem er dökkrauður og djúpur. Angan vínsins einkennist af rauðum berjum, kirsuberjum, smá reykur og vanilla, þétt og öflugt, tannín kröftug en mild, vín sem mun þroskast vel næstu 2-3 árin.
2.499 krónur. Frábær kaup. Vín með grilluðu kjöti, ekki síst nautakjöti eða lambalæri.
Cune Rioja Reserva 2011
Vinotek segir;
Cune er eitt af þremur vínhúsum innan CVNE (Compania Vinicola del Norte de Espana). Hin tvö heita Vina Real og Contino og öll þrjú hafa sína sérstöðu í Rioja og eru í hópi þeirra bestu í sínum flokki. Klassískt Rioja. Dökk ber, skógarber, sólber, krækiber, nokkuð eikað, þarna er ristað kaffi, reykur og vanilla, smá leður. vel balanserað, þykkt, þétt og flott.
Frábært kjötvín. 2.999 krónur. Frábær kaup.
Cune Gran Reserva 2008
Vinotek segir;
Gran Reserva er toppurinn á stiganum í gæðakerfi Rioja og þó svo að tæknilega segi Gran Reserva fyrst og fremst til um hversu lengi að lágmarki vínið hefur verið látið liggja á tunnum og flösku áður en það er sett á markað þá liggur það í hlutarins eðli að það eru besti vínin sem fá það hlutskipti að verða Gran Reserva þegar að þau eru orðin stór. Það spillir líka ekki fyrir að Spánverjarnir taka ómakið af okkur við að geyma vínin og hér eins og í þessu tilviki eigum við kost á að fá fullþroskað, nær tíu ára vín í toppklassa fyrir tiltölulega lítinn pening.Liturinn farinn að þróast úr svarrauðu yfir ljósari rauðan lit með smá brúnleitum tónum en þó enn þétt á lit, ávextir enn til staðar í nefi, svört ber en tóbakslauf, vindlakassi og krydd farin að taka yfir ilmkörfuna, vínið er langt og þétt í munni, kröftugt með mjúkum tannínum og á greinilega enn mörg góð ár eftir.
3.499 krónur, frábær kaup á þessu verði og einkunn tekur mið af því. Frábært vín með grilluðu nauti og lambi.
Cune Imperial Reserva 2012
Vinotek segir;
Það er rétt tæp öld frá því að vínhúsið Cune setti fyrsta Imperial-vínið á markað en nafnið má rekja til þess að flöskustærðin sem vínið var tappað á fyrir Bretlandsmarkað var af stærðinni „Imperial Pint“. Imperial hefur alla tíð síðan verið eitt af helstu vínum Rioja og það viðmið sem önnur vínhús horfa gjarnan til. Imperial-vínin koma af 28 hektara ekrum Cune á svæðinu Rioja Alta og þess má geta að Gran Reserva 2004 af Imperial var valið vín ársins af timaritinu Wine Spectator árið 2013. 2012-árgangurinn af Imperial Reserva stendur algjörlega fyrir sínu, vínið hefur enn ungt yfirbragð, mjög dökkt á lit, svartur ávöxturinn kröftugur og ágengur, krækiber í nefi, sólber, ávöxturinn allt að því þurrkaður, kyrddað með vanillu, vott af lakkrís og mokkakafffi. Í munni öflugt, tannín kröftug og mikil, langt og þykkt. Vín sem þolir geymslu vel, undantekningarlaust mælt með því að umhella víninu.
3.999 krónur. Frábær kaup, magnað vín, með nautakjöti og villibráð.