Melini Riserva Chianti 2013
Víngarðurinn segir;
Til upprifjunar þá var hér til umfjöllunar Governo All’uso-vínið 2013 frá Melini í fyrra (****) og þessi meira hefðbundni Chianti Riserva er ekki langt undan þótt ég verði að viðurkenna að mér finnst hitt vínið aðeins betra og Governo-stíllinn fara betur með svona hversdagsvínum.
Það hefur meðaldjúpan kirsuberjarauðan lit og meðalopna angan af kirsuberjum, krækiberjasultu, rykugum steinefnum, leðursófa, beiskum möndlum og einhverri hreinlætislykt sem minnir smá á sjampó, þótt skömm sé frá að segja.
Í munni er það meðalbragðmikið með fína sýru og dæmigert toskanskan bragðprófíl þar sem finna má kirsuber, krækiber, lakkrís, rykuga jörð og möndlumassa. Frekar fínlegt og þurrt með mjúk tannín en er dáldið einfalt og hverfur fljótt. Hafið með allskonar einfaldari hverrsdagsmat, pasta, pottréttum og ljósu kjöti.
Verð kr. 2.499.- Ágæt kaup.