Laurent Miquel – Fjölskylduvíngerð í meira en 200 ár

Það er segin saga að þegar talið berst að frönskum öndvegisvínum eru margir sem einblína á Búrgúnd og Bordeaux héruðin og sjá vart ástæðu til að gefa öðrum svæðum Frakklands gaum. Það er auðvitað rétt, ekki síst í sögulegu tilliti, að í áðurnefndum tveimur héruðum er að finna marga framleiðendur í allra hæsta gæðaflokki, en með því að skauta alfarið framhjá öðrum víngerðum er mikils farið á mis því vítt og breitt um Frakkland er að finna margverðlaunaða og framúrskarandi góða vínframleiðendur. Þeirra á meðal er Laurent Miquel en þá víngerð er að finna í suðurhluta Frakklands, nánar tiltekið í Languedoc-Roussillon héraði. Þar á bæ er hefð fyrir því að hreppa verðlaun fyrir frábær vín enda stendur framleiðslan á meira en 200 ára gamalli hefð innan Miquel-fjölskyldunnar.

Frá tímum Rómverja til nútímans

Reyndar er hefðin fyrir víngerð á svæðinu miklu lengri því til eru skráðar heimildir fyrir umfangsmikilli víngerð Rómverja á skikanum þar sem Miquel fjölskyldan ræktar sitt vín í dag. Landareignin sú nefnist „Cazal Viel“ sem dregið er af rómverska heitinu Cazevieille sem merkir „gamla húsið“ og þar er staðfest að Rómverjar ræktuðu þrúgur og unnu úr þeim vín. Á miðöldum tóku munkar við keflinu – sem víða annars staðar í Evrópu bæði hvað víngerð og bjórbruggun varðaði – og ræktuðu jörðina til víngerðar. Það er svo árið 1791 sem Miquel-fjölskyldan eignast landareignina Cazal Viel og þar hefur vín verið ræktað allar götur síðan. Það er hinsvegar á síðasta aldarfjórðungi sem velgengni Miquel-víngerðarinnar hefur virkilega farið á flug.

 

Viognier-þrúgan slær í gegn

Þar á núverandi stjórnandi víngerðarinnar, Laurent Miquel, ekki sístan þátt en hann er 8. kynslóð víngerðarmanna af Miquel-ættinni. Undir hans stjórn hefur víngerðin blómstrað, bætt við sig vínekrum fyrir aukna framleiðslu og vínin hafa um leið sópað að sér ýmsum virtum verðlaunum. Þar á meðal má nefna mikla velgengni hvítvína hússins úr þrúgunni Viognier. Miquel-víngerðin gróðursetti fyrst vínvið af þeim stofni árið 1992 og uppskar fyrst Viognier-þrúgur til víngerðar árið 1995. Vínið sló hins vegar þegar í stað í gegn og ákveðið var að auka rækilega við framleiðsluna um leið og fleiri víngerðir fengu aukna trú og áhuga á þrúgunni. Árið 2010 hreppti svo Verité Viognier hvítvínið tvenn verðlaun á International Wine Challenge í London. Þar mat alþjóðlegur hópur dómara sem svo að ekki einasta væri hér um að ræða besta hvítvínið frá Languedoc Roussillon, heldur um leið besta Viognier vínið í veröldinni.

„Allt náttúrunni og jarðnæðinu að þakka“

Laurent Miquel sjálfur er hógværðin uppmáluð yfir velgengninni og hefur látið hafa eftir sér að galdurinn við gerð framúrskarandi vína hússins sé ekki endilega fólginn í kunnáttu hans eða meintri snilli heldur sé ástæðan ekki síst sú að bera virðingu fyrir framleiðsluaðferðum þeim sem borist hafa mann fram af manni gegnum kynslóðir víngerðarmanna af Miquel-ættinni. Um leið hefur hann tröllatrú á að takmarka inngrip í framleiðsluna; vandaður vínviður og gjöfult jarðnæði (það sem Frakkar kalla „terroir“ og er samnefnari yfir jarðveg, loftslag og birtuskilyrði) sé allt sem þurfi til. Engum sem til þekkir dylst þó að val hans á viðarámum til að þroska vínið og mat hans á því hve lengi ber að þroska hvert afbrigði uns það hefur náð bestu gæðum hafa sömuleiðis haft úrslitaáhrif á hve vel hefur tekist til. Framleiðslan er sjálfbær og hámarks virðing borin fyrir náttúrunni og umhverfinu í hvívetna. Þá hefur Miquel-ættin löngum haft að leiðarljósi að takmarka magn framleiðslunnar og hafa þess í stað hámörkun gæða að leiðarljósi.

Bókaðu heimsókn til Laurent Miquel!

Öllu þessu hyggjast þau hjónin, Laurent Miquel og kona hans Neata, koma áleiðis til sonar þeirra, Sean, sem þeim fæddist árið 2011; þar er semsé komin 9. kynslóð Miquel-ættarinnar sem mun vafalaust láta til sín taka við víngerðina þegar fram líða stundir. Í millitíðinni býður Laurent Miquel áhugasömum að kíkja í heimsókn til víngerðarinnar og upplifa bestu vínin frá Laurent Miquel, ýmis eins og sér í smökkun eða pöruð með mat. Þá er sérstaklega mælt með sérsniðnum heimsóknum sem í boði eru, svo sem Bestu hvítvínin með sjávarfangi þar sem framúrskarandi hvítvín (ýmist úr þrúgunum Viognier, Chardonnay, Albarino eða Sauvignon Blanc) eru pöruð með besta fáanlega sjávarfangi. Slík sælkeraupplifun gleymist engum sem reynt hefur. Upplýsingar um heimsóknir og vínin frá Laurent Miquel er að finna á heimasíðunni www.laurent-miquel.com

 

 

Hvernig væri að prófa?

 

Laurent Miquel Solas Chardonnay 2015 2.199 kr.

Sítrónugult. Þétt meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Suðrænn ávöxtur, sítrus, eik, vanilla.

Sjá víndóm um vínið hér

 

Laurent Miquel Pas de Geant 2015 2.299 kr.

Kirsuberjarautt. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra, miðlungstannín. Dökk ber, plóma, laufkrydd.

Sjá víndóm um vínið hér

 

Laurent Miquel Albarino 2015 2.499 kr.

Ljóssítrónugult. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Sítróna, epli, melóna.

Sjá víndóm um vínið hér

 

Laurent Miquel Nord Sud Viogner 2015 2.499 kr.

Sítrónugult. Þétt meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Ferskja, ferskjusteinn, sítrus, hunang.

Sjá víndóm um vínið hér

Share Post