Fischer Gruner Veltliner 2017
Vínótek segir;
Thermenregion er tiltölulega ungt víngerðarhérað, það var formlega skilgreint í núverandi mynd árið 1985. Vínrækt á sér hins vegar aðeins lengri sögu á þessum slóðum, svona um það bil tvö þúsund ára lengri eða frá því að Rómverjar gróðursettu þarna fyrst vínvið. Héraðið nær til svæðisins suður af Vín og meðfram hæðunum sem teygja sig niður til bæjarins Baden. Hann, rétt eins og víngerðarhéraðið Thermenregion dregur einmitt nafn sitt af fornum baðhúsum Rómverja, Therme Pannonicae.
Weingut Fischer er líklega það vínhús svæðisins sem Íslendingar þekkja hvað best, vínin þaðan hafa verið fáanleg hér í um áratug eða svo. Hvítvínið úr Gruner Veltliner-þrúgunni er nú komið í útgáfu árgangsins 2017, það er ljósgult á lit, fölgrænir tónar, þroskuð gul epli, perur, mildur sítrus í nefi, milt og þægilegt, ágæt sýra og vínið hefur smá „pipraða“ áferð í munni eins og einkennir oft þessa skemmtilegu þrúgu, Gruner Veltliner.
1.999 krónur. Frábær kaup. Fínt pallavín fyrir sumarið.