Dievole Novecento Chianti Classico Riserva 2014
Víngarðurinn segir;
„Vínin sem flokkuð eru sem Chianti Classico Riserva uppfylla fjögur skilyrði. Í fyrsta lagi þurfa þau að koma frá besta hluta Chianti (Chianti Classico). Í öðru lagi verða þau að vera að lágmarki 75% úr þrúgunni Sangiovese. Í þriðja lagi verður að þroska vínið í amk tvö ár áður en það er sett á markað og í fjórða lagi verður það að innihalda amk 12.5% alkóhól.
Novecento frá Dievole er reyndar 100% úr þrúgunni Sangiovese en uppfyllir auðvitað öll hin skilyrðin og býr yfir ríflega meðaldjúpum en þéttum, kirsuberjarauðum lit. Það hefur ríflega meðalopna og flókna angan sem er afar dæmigerð fyrir Chianti-vín þar sem blandast saman kirsuber, beiskar möndlur, dökkt súkkulaði, leðurjakki, lakkrís, Mon Chéri-molar, heyrúlla, eikartunna og leirkenndir jarðartónar. Það rétt ríflega meðalbragðmikið, ungt og sýruríkt með helling af fínpóleruðum tannínum og mikla lengd. Þarna má svo finna kirsuber, krækiber, lakkrís, Mon Chéri-mola, beiskar möndlur, dökkt súkkulaði, tóbak og steinefni. Verulega gott og glæsilegt rauðvín sem gæti hæglega bætt við sig hálfri stjörnu næstu mánuði. Hafið með bestu steikinni ykkar, villibráð og þetta er ekta vín til að hafa á borðum yfir jól og áramót. Verð kr. 5.499.- Mjög góð kaup. “