Rémy Martin – yfirburðakoníak í 300 ár
Það er ekki út í bláinn að koníak er það sem flestir sjá fyrir sér þegar talið berst að ljúfum drykk ásamt öndvegiskaffi að lokinni dýrindis máltíð. Að sama eru vistarverurnar þar sem heldri menn og konur njóta góðra stunda með drykk, til að slappa af og fara yfir málin, undantekningarlítið kallaðar „koníaksstofur“. Ástæðan er einfaldlega sú að hátíðlegri drykkur er naumast til en flauelsmjúka og gullitaða berjabrandý sem kennt er við landsvæðið Cognac [lesist konjak] sem er að finna í Bordeaux-héraði á Vesturströnd Frakklands. Allir tengja koníak við betri stundir og betri stofur, góðar stundir við hátíðleg tilefni, og þess vegna er upplagt að beina kastljósinu að Rémy Martin, líklega þekktasta öndvegiskoníaki heims, þegar hátíðlegasti tími ársins gengur í garð.
Samfelld sigurganga í þrjár aldir
Fyrirtækið utan um hina goðsagnakenndu koníaksgerð var stofnað af sjálfum Rémy Martin, á því herrans ári 1724. Fyrirtækið fagnar því þrjú hundruð ára afmæli eftir aðeins fimm ár. Það er skondið til þess að hugsa að allnokkrar líkur eru á því að koníaksgerð hafi orðið til fyrir hálfgerða tilviljun, einhvers staðar í nágrenni við borgina Cognac endur fyrir löngu. Þannig háttar nefnilega til að þrúgan sem er almennt notuð við gerð koníaks nefnist Ugni Blanc (sú hin sama og Ítalir kalla Trebbiano) og hún er svo yfirmáta þurr á bragðið og sýrurík að flestum þykir hún eiginlega öllu ódrekkandi sem léttvín. Aftur á móti geri eiginleikar þessir þrúguna bráðheppilega til eimunar og þroskast hún aukinheldur afbragðsvel á eikartunnum. Hver veit nema forðum daga hafi víngerðarmenn hreinlega gefist upp á að reyna að búa til drykkjarhæft hvítvín úr þrúgunni og prófað þess í stað að eima gerjað vínið og geyma það á tunnu. Niðurstaðan var það sem í dag er hátíðardrykkurinn koníak.
Eigum við að nördast svolítið?
Já, því ekki það? Því meiri gæði, því ríkari ástæða til að nördast aðeins með viðfangsefnið.
Byrjum á skilgreininunni á koníaki. Hér að framan var talað um berjabrandý – sem er alveg rétt, koníak er brandý úr ljósum vínberjum – en þó allt koníak sé í reynd tegund af brandý er ekki að sama skapi hægt að segja að allt brandý sé koníak. Því fer fjarri. „Brandý“ er einfaldlega samheiti yfir sterka áfenga drykki sem eimaðir eru úr margs konar mismunandi vínum. Grunnhráefnið getur til að mynda verið epli (þekktasta eplabrandýið er Calvados og heitir eftir samnefndu héraði í Frakklandi), en einnig er til plómubrandý, ferskjubrandý og kirsuberjabrandý svo fátt eitt sé nefnt. Sé brandýið hins vegar framleitt í einum af sex héruðum Cognac-svæðisins, samsett úr hvítu þrúgunum Ugni Blanc, Folle Blanche og Colombard að minnst 90%, tvíeimað á koparkötlum og látið loks þroskast á eikartunnum frá frönsku héruðunum Limousin eða Tronçais, þá er skilyrðunum fullnægt. Brandýið má heita „koníak“. Þess má að lokum geta að íslenska tökuorðið „brandý“ komið frá enska orðinu brandywine, sem aftur á sinn uppruna í hollenska orðinu brandewijn, sem merkir einfaldlega brennt vín.
Jarðvegur sem gerir gæfumuninn
Höldum okkur aðeins við nördaskap. Sérstaðan – sem engin önnur koníaksgerð býr að og skapar hið margslungna bragð sem hrifið hefur þá sem heillast hafa af Rémy Martin í tæp 300 ár – er að margra mati fólgin í jarðveginum þar sem hinn ljósi vínviður koníaksins er ræktaður. Rémy Martin notar eingöngu þrúgur frá virtustu svæðunum í Cognac, sem nefnast Grande Champagne og Petite Champagne. Þar er nefnilega að finna einstakan og kalkríkan jarðveg, svo ljósan að hann endurvarpar sólarljósinu og þroskar þannig þrúgurnar til algerrar fullkomnunar. Koníak Rémy Martin sem verður til í framhaldinu frá þessum afmörkuðu svæðum hafa til að bera margslungið bragð sem hvergi annars staðar er gerlegt að búa til og á því hvergi sinn líka.
Hvernig er svo best að bera sig að?
Sögulega séð hefur öndvegiskoníak á borð við Rémy Martin verið eftirlæti aðalsfólks og því miklar hefðir og siðir til staðar varðandi það hvernig best er að njóta þess. Algengast er að njóta koníaks í belgvíðum glösum, sem kallast á ensku „snifter“, sem yfirleitt eru á fæti þó nútímalegri hönnun á koníaksglösum sé einstaka sinnum án fótar. Best fer á því að halda með flötum lófa undir botninn á glasinu og sé fótur á því er hann hafður milli löngutangar og baugfingurs. Þannig hitar lófinn vökvann gegnum glerið og veldur örlítilli uppgufun sem safnast fyrir í belgnum á glasinu. Þannig má vel finna ilminn af koníakinu og fá þannig ljúfan forsmekk áður en dreypt er á hinum dýrðlegu veigum. Þetta kalla Frakkar „déguster“ eða „að bragða“ á koníaki.
En engu að síður eru 300 ár langur tími og talsvert vatn hefur runnið til sjávar á þessum tíma hvað neyslu koníaks áhrærir. Þó yfirbragð Rémy Martin sé alltaf hátíðlegt nýtur fólk þess í auknum mæli sömuleiðis við aflsappaðri tilefni – það er engin nauðsyn að bregða sér í smóking eða síðkjól þó meiningin sé að fá sér dreitil í glas. Að sama skapi má nefna að hér á árum og áratugum áður hefði ekki hvarflað ekki að nokkrum heilvita manni að hella neinu saman við þetta sparilega úrvalsáfengi, en í dag eru alvanalegt að hanastél séu blöndið úr koníaki og þykir jafn eðlilegt eins og að drekka það úr óblandað í snifter með svörtu kaffi eftir matinn.