Víngarðurinn segir;
„Í nokkur ár hefur okkur staðið til boða að versla verulega góð vín frá víngerðinni Dievole í Toskana og í haust fjallaði ég einmitt um hið frábæra Novocento Chianti Classico 2014 (****1/2). En svo gerir Alejandro Bulgheroni-fjölskyldan einnig vín í Montalcino og þar kallast víngerðin Podere Brizio. Niður við ströndina, í Bolgheri er svo ein víngerðin enn undir þessum sama hatti, sem nefnist Tenuta Meraviglia og þaðan er þessi stórskemmtilegi Vermentino.
Vermentino er hvít þrúga sem er útbreidd víða á strandlengju Miðjarðarhafsins frá Provence í Frakklandi (þar kallast hún Rolle) og niður til Toskana en einnig má finna vín úr henni á Sardiníu. Hún hefur að mörgu leiti svipaðan bragðprófíl og Malvasia/Malvoise, en sú hvíta ættkvísl er ein sú elsta sem menn hafa greint og er án alls vafa grísk að uppruna og hefur borist með verslunarleiðum þeirra víða um Miðjarðahafið löngu fyrir kristsburð.
Þetta vín er ljós-strágult að lit með rétt ríflega meðalopinn ilm þar sem finna má ferska peru, mandarínur, hvít blóm, steinaávexti, eplakjarna, melónu, sítrónur og steinefni. Það er svo meðalbragðmikið, ferskt og sýruríkt með búttaða og steinefnaríka áru sem skilar sér í afar matarvænu hvítvíni. Þarna eru sítrónur, mandarínur, steinaávextir, greipaldin, pera og kryddjurtir. Það endar með allt að því sjávarsöltum steinefnum og hefur fína endingu. Verulega gott, ferskt og matarvænt hvítvín sem fer vel með bragðmiklum og feitum forréttum, pasta og fiskréttum.
Verð kr. 2.999.- Mjög góð kaup“.