Víngarðurinn segir;
„Undanfarin áratug, eða ríflega það reyndar, hafa verið hér til sölu, af og til, vínin frá hinni frábæru víngerð Fonterutoli í Toskana. Hið kunnasta er án vafa það „venjulega“ Chianti Classico en margir muna einnig eftir Castello di Fonterutoli (sem er ansi gott) og reyndar fleiri vínum sem hafa verið reynda á íslenskum neytendum einsog tildæmis Badiola
Nú er það komið aftur til sölu og það er satt best að segja prýðilegt. Það er ekki skilgreint sem Chianti, jafnvel þótt það sé ræktað innan skilgreindra marka þess ágæta vínræktarsvæðis, heldur er það svokallað IGT Toskana enda er hlutfallið af Merlot í víninu meira en Chianti leyfir. Það er þó að stærstum hluta Sangiovese einsog glöggt má finna.
Það er rétt ríflega meðaldjúpt, plómurautt að lit og hefur dæmigerða angan af nútímalegu Toskana-víni. Þarna eru tildæmis kirsuber, plómusulta, bláber, negull, kanill, vanilla, vax og sveitalegir tónar sem minna á sveittan hest. Það er svo sýruríkt, þurrt og meðalbragðmikið með afar gott jafnvægi þótt það sé fjarri því að vera þungt. Þarna má finna kirsuber, bláber, krydd, plómur, krækiber, vax og leirkennda jörð. Það hefur vel poleruð tannín og er ekta matarvín. Hafið með allskyns betri kjötréttum og þeir mega gjarna vera ættaðir frá Ítalíu. Verð kr. 2.799.- Frábær kaup. “