Coyam 2017
Víngarðurinn segir;
„Nú er kominn nýr árgangur af þessu frábæra, lífræna víni en þeir sem muna einhver ár aftur í tímann geta rifjað upp að hér hafa verið dæmdir árgangarnir 2012 (****1/2) og 2013 (*****) Og þetta vín heldur bara áfram að sækja í sig veðrið. Einsog venjulega er það flókin blanda af þrúgum, en uppistaðan í því eru þó Syrah og Carmenére en þarna eru líka Cabernet Sauvignon, Mourvédre, Petit Verdot, Malbec, Garnacha, Tempranillo og Carignan. Sannarlega ekki hefðbundin blanda. Það kemur frá Colchagua í Chile og gert af víngerðinni Emiliana, en margir eiga að þekkja hin fínu Adobe-vín sem frá þessari víngerð kemur. Þetta rauðvín býr svo yfir dimm-fjólurauðum lit og hefur ríflega meðalopinn ilm þar sem blandast saman sæt hindber, plómur, sólberjalíkjör, jarðarber, krækiberjahlaup, lakkrís, karamella, píputóbak, dökkt súkkulaði og sprittlegnir ávextir. Þarna er einnig nýleg eik og með henni koma ristaðir tónar og vanilla. Það er svo vel bragðmikið í munni, þétt og sýruríkt en einnig fínpússað, mjúkt og langt og er merkilega glæsilegt þrátt fyrir alla stærðina. Það hefur flókinn en ferskan keim af sætum rauðum berjum, sultuðum dökkum berjum, krydduðum og ristuðum tónum ásamt súkkulaði og steinefnum. Þetta er vín fyrir þá sem vilja mikil vín frá Nýjaheiminum án þess að fórna glæsileikanum. Gengur vel með bragðmikilli íslenskri villlibráð, rjúpu og gæs en einnig með öllu hinum hátíðarkjötinu. Verð kr. 3.699.- Frábær kaup“.