Lealtanza Crianza 2016
Víngarðurinn segir;
„Fyrir nokkrum færslum var hér dómur um hið frábæra Lealtanza Reserva 2012 sem fékk fullt hús hjá mér (það fyrsta á þessu ári), og óhætt er að mæla með, enda er það framúrskarandi rauðvín á frábæru verði. Crianzan er vissulega ekki alveg í sama flokki, enda bæði yngri, minna þroskuð og inniheldur sjálfsagt kjarnminni þrúgur en er samt sem áður engu síðri kaup og bara spurning um tilefnið, hvort vínið maður myndi frekar velja.
Það er rétt einsog Reservan eingöngu út þrúgunni Tempranillo og er þroskað í eitt ár í frönskum eikartunnum og er lítill hluti þeirra nýr, enda er eikin vel ofin inní ávöxtin og skyggir engan veginn á hann. Það býr yfir meðaldjúpum, kirsuberjarauðum lit og dæmigerðan ilm af rauðum berjum (þá helst kirsuberjum, hindberjum og jarðarberjasultu), lakkrís, plómusultu, balsam, brenndum sykri, dökku súkkulaði, vanillu og einhverju þurrkuðu sem minnir á píputóbak. Þetta er nokkuð gefandi og opið vín í nefinu sem eykur vel á ánægjuna við að neyta þess.
Það er svo meðalbragðmikið, þurrt og þétt með góða og lifandi sýru, mjúk tannín og býsna mikla lengd sé miðað við meðal-Criönzur frá Rioja. Þarna eru dökku berin meira áberandi, krækiber og brómber en einnig kirsuber, hindber, plóma, lakkrís, brenndur sykur, balsam og kremaðir vanillutónar úr eikinni. Það er nokkuð flókið af svona ódýru víni að vera en ferskt og lifandi og gengur með nánast öllum mat, allt frá fiski og uppí grillmat en ætli ég myndi sjálfur ekki helst hafa það með potréttum, saltfisk, lambi og svíni.
Verð kr. 2.499.- Frábær kaup. „