Cune Gran Reserva 2013
Vinotek segir;
„Árið 2013 var töluverð áskorun fyrir vínhúsin í Rioja og vínhús á borð við Cune tóku þá ákvörðun að framleiða ekki tiltekin vín, Imperial í tilviki Cune. Þess í stað fóru allar bestu þrúgurnar í Gran Reserva-vínið til að tryggja gæði þess. Gran Reserva er toppurinn á stiganum í gæðakerfi Rioja og þó svo að tæknilega segi Gran Reserva fyrst og fremst til um hversu lengi að lágmarki vínið hefur verið látið liggja á tunnum og flösku áður en það er sett á markað þá liggur það í hlutarins eðli að það eru besti vínin sem fá það hlutskipti að verða Gran Reserva þegar að þau eru orðin stór. Það spillir líka ekki fyrir að Spánverjarnir taka ómakið af okkur við að geyma vínin þar til þau ná þroska. Cune Gran Reserva var þannig geymt í tvö ár á tunnu og 3 ár á flösku áður en það var tilbúið.
Þetta er fínleg og elegant Gran Reserva, liturinn er dimmrauður með örlitlum byrjandi þroska, dökk kirsuber í nefinu, töluverð jörð og krydd, eikin sæt og fínleg, bætir við vindlakassa í ilmkörfuna. Strúkturinn er mjúkur, tannín fínleg, vínið þurrt og þétt. 3.499 krónur. Mjög góð kaup. Með nautalund. “