Alphart Ried Hausberg Neuburger 2018

 

 

Vinotek segir;

„Þrúgan Neuburger er sjaldgæf þrúga, blendingur úr Roter Veltliner og Sylvaner og vín úr þessari þrúgu koma oft skemmtilega á óvart.Weingut. Alphart hefur getið sér orð sem einhver athyglisverðasti hvítvínsframleiðandi Austurríkis en vínhúsið á um 20 hektara af ekrum í Thermenregion suður af Vín.

Fölgult á lit, í nefi eplaveisla, þarna eru þroskuð epli, gul og græn, perur, eplamauk út í smá sætan síder, sítróna og ristaðar hnetur, ferskt svolítið feitt, grösugt í lokinn.2.999 krónur. Frábær kaup. Með bleikju, laxi og mildum ostum.“

 

Víngarðurinn segir;

„Neuburger er ekki þekktasta þrúga heimsins, svo mikið er víst og þótt hún hafi verið fimmta mest ræktaða hvíta þrúgan í heimalandi sínu Austurríki fyrir þrjátíu árum hafa vinsældir hennar heldur dvínað á þessari öld og þar fyrir utan finnst hún varla utan landamæra þess. Það er því ekki skrýtið að hér á landi skulum við ekki hafa fengið margar tegundir af Neuburger-vínum í hillurnar.

Neuburger er, samkvæmt nýjustu erfðafræðirannsóknum, blendingur af Roter Veltliner (hinu rauða afbrigði af helstu hvítvínsþrúgu Austurríkis, Grüner Veltliner) og Sylvaner og finnst eitthvað af þessum vínvið á flestum skilgreindum vínræktarsvæðum landsins, nema helst þá í Steiermark. Það er því fengur í því að geta smakkað á þessari þrúgu hér og forvitnilegt fyrir alla alvöru vínáhugamenn, þótt vínin úr henni komist tæplega að hlið Grüner Veltliner í gæðum.

Það býr yfir ljós-gylltum lit og meðalopnum ilmi af sítrusávöxtum, steinaávöxtum, melónu, rifsberjum, kertavaxi, blautu mjöli og steinefnum sem minna í upphafi á eldspýtur. Það er svo ferskt og meðalbragðmikið með lifandi og fína sýru og áberandi steinefni. Þarna eru sítrónur, læm, melóna, steinaávextir, rifsber, greipaldin og auðvitað þessir söltu jarðartónar. Það hefur fínan ilm og ferska og jarðbundna ásjónu en það raknar full snemma upp til að komast í úrvalsdeildina. Passið samt að ber það ekki fram of kalt, ávöxturinn batnar mikið við að hitna. Hafið með allskonar fiskmeti, léttum pastaréttum, bökum og salötum. Verð kr. 2.999.- Ágæt kaup.“

Post Tags
Share Post