Muga Reserva 2016
Víngarðurinn segir;
Eitt af jólavínunum í desember síðastliðnum var Muga Selección Especial 2015 (****1/2) sem sannarlega er mikið og beinlíniss hættulega gott Rioja-vín. Það er að sumu leiti örlítið nútímalegra en Reservan sem, amk enn sem komið er, tilheyrir gamla, góða Rioja-stílnum og fyrir mitt leiti á ég erfitt með að gera upp á milli þeirra, svona gæðalega séð, þetta eru einfaldlega ólík vín en bæði framúrskarandi á sinn hátt.
Innihaldið er til að mynda annað í Reservunni. Hún samanstendur auðvitað að stærstum hluta úr Tempranillo en í stað Graciano og Mazuelo (eins og í Selección Especial) er þarna 20% af Garnacha (sem flest vín í nútímastílnum sneiða hjá) og svo restin örlítið af fyrrnefndu þrúgunum tveimur. Þetta skilar sér í örlítið opnara og snemmþroskaðra víni en þetta vín er líka þroskað ögn skemur á tunnunni.
Það býr yfir vel þéttum og plómurauðum lit og nokkuð opinn angan sem er ansi Rioja-leg, svo ekki sé meira sagt, þar sem greina má sultuð bláber, hindber, kirsuber, plómu, kaffi, toffí, kókos, píputóbak, balsam og feitan snyrtivöruilm sem minnir á varalit. Tunnan er vel áberandi og mjög framarlega sem skilar kremuðum vanillutónum. Það er svo nokkuð kröftugt og sýruríkt með mjúk og sæt tannín og heilmikla lengd. Það er ennþá býsna ungt í framsetningu svo ég á ekki vona á öðru en það eigi áhyggjulausa lífdaga næstu fimm árin, og jafnvel lengur. Þarna má rekast á dökk og sultuð ber, rauð ber, kaffi, balsam, vanillu, plómur, kókos og leirkennda jarðvegstóna. Virkilega flott og glæsilegt vín sem ég hef grun um að flestir Íslendingar elska. Engin furða, svosem. Hafið þetta með góðum steikum og þetta vín þolir grillmat og bragðmikið meðlæti.