CUNE Imperial Reserva 2016

 

 

Víngarðurinn segir;

Það er alltaf jafn gaman að fá í hendurnar þessi frábæru rauðvín á Rioja og það virðist einu gilda hvort vínin eru í nýja, túttí-frúttí-stílnum eða gamla fínlega og þroskaða stílnum, þau eru alltaf jafn gefandi og ljúffeng. Einstaka árgangar geta verið örlítið slakari (síðasta áratuginn er það aðallega 2013 sem virðist hafa verið heldur slakari hjá flestum framleiðendum á þessum slóðum) en heilt yfir þá eru síðustu tíu árgangar alveg sérlega góðir. CUNE Imperial Reserva er gamall kunningi hérna í Víngarðinum og sem betur fer hafa Íslendingar tekið þessum vínum vel og þau er tiltölulega auðfinnanleg.

Imperial Reservan frá CUNE er að stærstum hluta til úr þrúgunni Tempranillo, rétt einsog flest rauðvínin í nýja stílnum, en samt ekki eingöngu (og hefur það sameiginlegt með vínunum í gamla stílnum) og það er þroskað í nýjum, eða nýlegum, eikartunnum í eitt ár. Þetta eru bæði franskar og bandarískar eikartunnur svo það má segja að Imperial Reservan fari bil beggja stíla. Það hefur þéttan fjólurauðan lit og ilmur þess dæmigerður og meðalopinn. Þarna má rekast á sultuð dökk ber, kirsuber, toffí, þurrkaða ávexti, kókos og krydd einsog múskat eða kólahnetu. Tunnan er tiltölulega framarlega, sérstaklega í upphafi (einsog hún jafnan er) en það er nú einusinni hluti af hinum dæmigerða Rioja-stíl.

Það er svo þurrt og þétt með góða sýru og vænan skammt af tannínum úr tunnu og ávexti en þau eru sem betur fer mjúk og sæt. Þarna eru svo sultuð krækiber, sultuð brómber, kirsuber, toffí, kókos, kakó, vanilla og krydd. Einsog í nefinu er tunnan dálítið framarlega en það verður að hafa það í huga að vínið er ungt og á eftir að skorða sig, en það mun gerast á næstu mánuðum. Það er því ekki slæm hugmynd að umhella því um þessar mundir einhverjum tíma fyrir neyslu og hafa það með allskonar betri mat. Klassískt að hafa það með lambi og nauti en mín reynsla er sú að Rioja, eða vín úr Tempranillo yfir höfuð, séu mjög fjölhæf og þoli allskonar mat allt frá fiski og uppí villibráð.

Verð kr. 4.399.- Mjög góð kaup.

Post Tags
Share Post