Muga Rosado 2020
Víngarðurinn segir;
Mörg undanfarin ár hefur rósavínið frá Muga verið eitt það besta sem við höfum reglulega aðgang að og nú er sem betur fer kominn nýr og sprikklandi ferskur árgangur af þessu vandaða rósavíni. Það er því full ástæða til að verða sér útum nokkur gler til að gæða sér á næstu mánuðina.
Ég hef nokkrum sinnum bent á að, alla jafna, þá séu rósavín langbest um leið og þeim er tappað á flöskuna og síðan haldi þau ferskleikanum í nokkra mánuði áður en leið þeirra liggur (stundum mjög hratt) niður á við. Sum rósavín eru reyndar undrafljót að tapa þeim sjarma sem maður sækist eftir og því ættu neytendur alltaf að velja nýjasta árganginn sem í boði er og innflytjendur ættu að sama skapi að sjá sóma sinn í því að bjóða ekki uppá tveggja eða þriggja ára gömul rósavín, einsog maður hefur reglulega fundið fyrir. Einstaka vönduð rósavín halda samt sem áður ferskleikanum í allt að tvö ár eftir uppskeru og Muga Rosado er eitt slíkt vín.
Það er blandað úr þrúgunum Tempranillo, Garnacha og Viura en sú síðastnefnda er auðvitað hvít þrúga, enda er rósavínið frá Muga fjarri því að vera í hinum „hefðbundna“, spænska rósavínsstíl. Hefðbundin rósavín frá Spáni eru nefnilega mjög litmikil að jafnaði (sum nánast einsog þétt Pinot Noir) og oftast gerð úr „feitum“ þrúgum líktog Garnacha á heitum svæðum einsog Navarra (sem til skamms tíma var nánast bara þekkt fyrir að framleiða rósavín fyrir spænskan sumarhita). Hinsvegar er Muga Rosado ansi ólíkt þessu, með ljós-laxableikan lit og nokkuð opna og sætkennda angan þar sem finna má jarðarber, hindberjasultu, melónu, þroskaða peru, kokteilber og rifsber. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, þurrt, ferskt og sýruríkt með frábært jafnvægi og töluvert langt bragð. Þarna eru hindber, fersk kirsuber, jarðarber, sæt sítróna, pera, melóna, rautt greipaldin og rifsber. Virkilega fínlegt og flott rósavín með kjarnmikinn ávöxt en þó svo léttleikandi að það er ekkert mál að hafa það eitt og sér á undan matnum. En þetta er fyrst og fremst vín til að hafa með mat. Prófið það með bragðmiklum forréttum, tapas, puttamat, ljósu fuglakjöti, léttu pasta eða salötum. Þetta vín þolir býsna kryddaðan mat.
Verð kr. 2.899.- Frábær kaup