Rivetto Langhe Nebbiolo 2019

 

 

Vínotek segir;

Piedmont í norðvesturhluta Ítalíu er eitt besta víngerðarsvæði landsins, að margra mati hið besta. Aðstæður minna að mörgu leyti á Búrgund, annars vegar vegna þess hversu svæðið hefur verið nákvæmlega skilgreint niður í smæstu ekrur og hins vegar vegna þess að ein þrúga hefur lagað sig nær fullkomlega að aðstæðum, Pinot Noir í Búrgund og Nebbiolo í Piedmont. Þessar þrúgur eru þó að öðru leyti fremur ólíkar og er Nebbiolo yfirleitt jafnt tannískari og sýrumeiri en Pinot.

Þetta Nebbiolo-vín frá Rivetto-fjölskyldunni er frá Langhe sem er þekktasta hérað Piedmont þegar vín eru annars vegar, innan þess má finna jafnt Barolo sem Barbaresco. Langhe er fleirtölmyndin af orðinu „langi“ sem þýðir hæðir og er heitið lýsandi fyrir hið stórkostlega landslag Piedmont.

Vínið er með meðaldjúpan múrsteinsrauðan lit, í nefinu eru beisk kirsuber, möndlukaramellur og vottur af anís, það er ágætlega þétt, ferskt og sýrumikið. Svolítið stíft í fyrstu en mýkist hratt þegar fer að lofta um það. 3.899 krónur Frábær kaup. Með ítölskum kjúkling, t.d. elduðum með tómötum og kryddjurtum.

Post Tags
Share Post