Vínin með Villibráðinni
Íslendingar eru upp til hópa sólgnir í villibráð og er það lítt að undra; hér er nóg af villtri náttúru og veiðidýrin sem um ræðir bera með sér keim af ósnortnu landslagi, lyngi og öðru sem þau kunna að leggja sér til munns í heiðanna ró. Hér er hreinleikinn og rekjanleiki fæðunnar með allra mesta móti, ekki fyrir aukaefnum eða einhvers konar mengun að fara og í ofanálag gefur villibráðin af sér einstaklega magurt og eftir því hollt kjöt. Íslensk villibráð þykir enda lostæti og því við hæfi að velja vel vínin með hinum villta veislumat; það er jú búið að hafa nóg fyrir því að eltast við matinn og ekki nema rétt og eðlilegt að gera úr sem veglegasta veisluna
Hér eru nokkur góð vín sem við mælum með Villibráðinni;
CERRO ANON GRAN RESERVA
Víngarðurinn segir;
Það er alveg mögulegt að Gran Reservur muni einn daginn heyra sögunni til, svona miðað við að fleiri og fleiri víngerðir (núna þegar þriðji áratugur 21. aldarinnar er að ganga í garð) kjósa að færa framleiðslu sína til nútímans og þá er gamaldags stíll einsog Gran Reserva ekki efst á forgangslistanum. Bæði er kostnaðurinn mun meiri við að gera Gran Reservur og svo er eftirspurnin eftir sprikklandi ungum og sætkenndum vínum sem hafa verið þroskuð í nýjum frönskum eikartunnum, mun meiri. En, sem betur fer, þá eru enn nokkrir framleiðendur sem halda gömlum víngerðarstílum í heiðri og einn af þeim er Bodegas Olarra. Besta vínið sem frá þeim kemur er þetta, Cerro Añon Gran Reserva sem hægt er að versla hérna og er sennilega einhver best prísaða Gran Reserva sem hægt er að fá núna, miðað við gæði.
Einsog hefðbundið er í Rioja er þetta vín blandað úr þremur þrúgum (vínin í nútímastílnum eru með fáum undantekningum 100% Tempranillo) því auk Tempranillo eru þarna Graciano og Mazuelo. Árgangurinn 2011 hefur lengi verið talinn einn sá besti og því er fengur af þessu víni á íslenska markaðinn. Það hefur dimm-fjólurauðan lit og ríflega meðalopna angan sem er flókin og margbreytileg. Þarna má meða annars rekast á kirsuber, hindber, sultuð skógarber, dökkt súkkulaði, þurrkaðan appelsínubörk, balsam, kókos, kryddbrauð, vanilluskyr, þurrkaða ávexti og kaffi. Eikin er vissulega framarlega en hún er vel ofinn inní ávöxtinn og flýtur ekki ofaná einsog títt er um nútímavín sem hefur verið dúndrað í nýjar eikartunnur og þurfa þverfaglega áfallastreytumeðferð til að hægt sé að drekka þau.
Það er svo rétt ríflega meðalbragðmikið, þurrt, sýruríkt og þétt með talsvert magn af póleruðum tannínum sem skilar langvarandi og fínlegum prófíl. Þarna er gamli Rioja-stíllinn uppá sitt besta og við megum eiga von á að finna kirsuber, hindber, sultuð krækiber, þurrkaðan appelsínubörk, Bounty, balsam, kaffi og rykug steinefni. Verulega flott og fínleg Gran Reserva sem munar engu að fái fullt hús og á þessu verði hlýtur það að teljast með því besta sem í boði er. Hafið það með lambi, nauti eða krónhirti.
EMILIANA COYAM
Vinotek segir;
Coyam er eitt af toppvínum Emiliana í Chile sem sérhæfir sig í ræktun lífrænna og lífefldra vína. Það er víngerðarmaðurinn Alvaro Espinoza sem á heiðurinn af þessu víni og þrúgurnar, sem eru í þessum árgangi fyrst og fremst Syrah og Carmenere eða tæp áttatíu prósent blöndunnar. Resitin mynda þrúgurnar Cabernet Sauvignon, Mourvedre, Petit Verdot, Malbec og Tempranillo. Þrúgurnar eru ræktaðar í hæðum Colchagua-dalsins og vínið látið liggja á bæði franskri og amerískri eik. Loftslagið í Colchagua minnir um margt á loftslag Miðjarðarhafsins nema hvað hér er það Kyrrahafið sem temprar loftslagið.
Vínið er dimmfjólublátt á lit, út í svart, liturinn þéttur og djúpur. Nefið er enn ungt með ríkjandi dökkum ávexti, sólberjum og kirsuberjum, bláberjasafa, eikin framarlega með vanillu og dökkristuðum kaffibaunum. Í munni er vínið fágað, tannín póleruð og fínleg, langt og þurrt. Vín sem má vel geyma en er príma núna, ekki síst ef vínið fær tíma til að opna sig, t.d. með umhellingu. Þetta er vín fyrir nautasteikurnar en má líka bera fram með öllu bragðmiklu, rauðu kjöti, jafnvel villibráð.
EMILIANA SALVAJE
Víngarðurinn segir;
Í fyrra kom 2018 árgangurinn af þessu sama víni inn á borð Víngarðsins og sá hlaut fullt hús. Þessi árgangur er ekki langt frá því að ná uppí sama flokk og skortir bara herslumunin. Engu að síður er þetta vín sem allt áhugafólk ætti að vera búið að smakka fyrir löngu enda eitt fárra súlfítlausra vína sem er drekkandi. Það er sem fyrr blandað úr hinum frönsku Rónar-þrúgum Syrah og Rousanne en sú síðarnefnda er hvít og sá siður að blanda mjúkum, hvítum þrúgum út í þéttofnar og tannískar rauðar þrúgur er ekki nýr. Hann hefur verið stundaður öldum saman en þekktustu dæmin á síðari tímum eru frá Côte Rôtie og Hermitage. Það er svo víngerðin Emiliana í Chile sem lengi hefur verið í fararbroddi með lífræn vín á þeim slóðum sem gerir þetta sérstæða og skemmtilega vín sem telja má til náttúruvína þótt það sé mun betra en flest það sem verið er að snobba fyrir um þessar mundir. Það er dimmfjólurautt að lit og algerlega ógagnsætt með villta og meðalopna angan af rjúpufóarni, bláberjasultu, lyngi, pipar, leirríkum steinefnum, krækiberjasaft og meðalakenndum tónum sem minna á hálstöflur, kamfóru eða mentól. Það er svo ríflega meðalbragðmikið með töluverða sýru, mjúk tannín og langvarandi þétt bragð. Það er mjög þurrt og þarna má finna allskonar hluti, svosem krækiberjasaft, bláberjasultu, lyng, svart te, lakkrís, pipar, ítalska bittera og kryddjurtir. Verulega gott og mikið vín sem minnir á íslenskar lyngheiðar. Árgangurinn 2018 af Salvaje var besta vín sem ég hef nokkurntíman fengið með íslenskri rjúpu að öðrum ólöstuðum. Þetta vín er aðeins öðruvísi og dálítið þurrara en ég er viss um að það er fullkomið með bragðmikilli villibráð einsog villigæs og rjúpu.
CHATEAU GOUMIN BORDEAUX
Vinotek segir;
Chateau Goumin er eitt af mörgum vínhúsum André heitins Lurtons. Rétt eins og heimili Lurtons Chateau Bonnet er það staðsett á Entre-deux-Mers svæðinu og rauðvínið er blanda til helminga af Cabernet Sauvignon og Merlot. Flestir tengja Bordeaux við tignarleg og rándýr vín en eftir sem áður er megnið af vínum sem koma frá Bordeaux ódýr og aðgengileg. Goumin er á einstaklega góðu verði miðað við Bordeaux og það er afbragðsgott að auki. Liturinn er unglegur, út í fjólublátt og angan vínsins er björt, sætar plómur, krækiber og sólber, örlítið kryddað. Komið í munninn er það mjúkt og þægilegt, mild tannín og þægilegur, þykkur berjaávöxtur. Frábær kaup. Virkilega nettur og fínn Bordeaux. Vín sem fellur vel að flestum mat.
M.CHAPOTIER B. COTES DU RHONE
Víngarðurinn segir;
Ár eftir ár eru vínin frá Chapoutier að skora hátt hjá mér. Ekki bara stóru og snobbuðu vínin frá Norður-Rón einsog Hermitage, og Crozes Hermitage, eða þá St. Joseph, heldur einnig einfaldari og auðfengnari vín einsog þetta Côtes du Rhône. Það er amk erfitt fyrir mig að dást ekki að byggingunni, mýktinni og flækjustiginu sem þetta „einfalda“ vín býr yfir og gleðjast um leið yfir því að það er vel prísað og auðvelt að verða sér útum.
Það er samkvæmt venju að mestu blandað úr þrúgunum Grenache og Syrah og býr núna yfir djúpu, fjólurauðum lit. Það er svo meðalopið í nefinu þar sem sultuð dökk berin eru mesta áberandi en einnig kirsuberjalíkjör, lakkrís, leirkenndur jarðvegur, timjan, tóbak og gráfíkjur. Það er svo meðalbragðmikið með afar frísklega sýru, mjúk tannín og langan bragðprófíl. Þarna rauðu berin örlítið meira áberandi en í nefinu, þá sérstaklega sprittlegin kirsuber, hindber, sultuð krækiber, lakkrís, málmur, pipar, bláber og leirkenndir steinefnatónar. Virkilega flott og stórt vín sem er ákaflega alhliða og gengur með allskonar réttum bæði grófari hversdagsmat en líka fínni grillsteikum og jafnvel villibráð. Ég geri mér grein fyrir að fjórar og hálf stjarna er dálítið há einkunn (uþb 92 punktar) en vínið er bara svo ómótstæðilegt að ég á ekki annars úrkosta.
ROQUETTE & CAZES
Víngarðurinn segir;
Það eru tvö vínhús sem standa á bakvið þetta portúgalska rauðvín, annarsvegar fjölskyldan sem á Quinta do Crasto og svo fjölskyldan sem hefur rekið Chateau Lynch Bages í Bordeaux. Vínið er hinsvegar blandað úr þrúgunum Touriga National, Touriga Franca og Tinta Roriz, sem fleiri þekkja líklega sem Tempranillo. Þetta er einungis sjöundi árgangurinn af þessu víni sem kemur á markað, hafi ég reiknað rétt og það hefur um þessar mundir mjög djúpan fjólurauðan lit.
Það er svo ríflega meðalopið í nefinu með ilm sem minnir á sultuð aðalbláber, Mon Chéri-mola, plómur (eða jafnvel sveskjur með auknum þroska), heyrúllur, balsam, dökkt súkkulaði, vanilla, reykingarkofa og steinefni. Þetta er þéttur, dökkur og þungur ilmur enda er greinilegt að hérna er töluvert vín á ferðinni. Það er svo ríflega meðalbragðmikið með afar góða sýru og talsvert magn af mjúkum og póleruðum tannínum sem gefa þessu víni fína byggingu og töluverða lengd. Það er að byrja að fá á sig áru af þroskuðu víni, enda að verða fimm ár síðan að það var gerjað. Þarna má greina dökk og sultuð ber og þá helst bláber og aðalbláber, kirsuber, kakó, sveskjur, balsam, vanillu og jarðarlega steinefnatóna. Það borgar sig (rétt einsog með flest rauðvín, svo það sé ítrekað) að kæla þetta vín lítillega þá verður það bæði rauðara og frísklegra. Munar sáralitlu að það fái fjóra og hálfa stjörnu. Hafið með bragðmeiri Miðjarðarhafsmat, rauðu kjöti, grillmat og flottum steikum.