Cune Gran Reserva 2015
Víngarðurinn segir;
Einsog ég nefndi fyrir rúmu ári, þegar ég fjallaði um Gran Reserva 2013 frá Cune, þá fækkar þeim heldur, framleiðendunum sem nenna að leggja á sig að gera Gran Reserva-vín samkvæmt löglegum skilgreiningum. Það er bæði pláss- og tímafrekt og vínin eru samt sem áður ódýrari en mörg hraðsoðin verksmiðjuvín. En ég er afar glaður að einhverjir leggi þetta á sig þótt stíllinn sé reyndar yfirhöfuð að færast nær nútímastílnum í Rioja. Gran Reservan frá Cune er svona mitt á milli hins hefðbundna stíls og hins nútímalega, enda er hluti af henni þroskaður í bandarískum eikartunnum (hefðbundi stíllinn) og hluti í frönskum eikartunnum (nýji stíllinn) í tvö ár.
Það er heldur þéttara á að líta en td 2013 árgangurinn og býr yfir djúpum plómurauðum lit. Það er svo töluvert eikað í nefinu, amk svona við fyrstu kynni, og það er ekki út vegi að umhella því nokkru fyrir neyslu til að auka flækjustigið í nefinu. Þá má rekast á sultuð dökk ber, plómur, kirsuberjalíkjör, þurrkaðan appelsínubörk, brenndan sykur, sveskjur, kókos, súkkulaði og örlitla málmtóna. Það er svo ríflega meðalbragðmikið og með þetta fínlega, hefðbundna Rioja-yfirbragð sem samanstendur af ríkulegri sýru og miklum, en afar póleruðum tannínum í bland við þroskaða eikartóna. Þarna eru sultuð bláber, krækiberjahlaup, kirsuber í spritti, dökkt súkkulaði, kókos, þurrkaður appelsínubörkur, muscovado-sykur og þurrkaðir ávextir. Þetta er ögn kjarnmeira og jafnframt nútímalegra en 2013 og ætti að fara vel með öllum hefðbundnum kjötréttum, bragðmiklum steikum þó sérstaklega.
Verð kr. 3.599.- Frábær kaup.