Purato: 100% umhverfisvæn hágæðavín frá Sikiley

 

Sífellt fleiri vínframleiðendur bjóða upp á lífrænt framleidd vín á meðan önnur eru með vegan vottun. Þá færist í vöxt að ræktun og framleiðsla vína sé kolefnisjöfnuð. Þeir eru hins vegar ekki margir, framleiðendurnir sem tikka í hvert einasta box umhverfisvænnar framleiðslu. Ítalska vínhúsið Purato á Sikiley er í þessum fámenna hópi framleiðenda sem eru grænir alla leið; 100% sjálfbær framleiðsla, kolefnisjöfnuð, vegan-vottuð og allar umbúðir eingöngu úr endurunnum og endurvinnanlegum hráefnum. En umfram allt eru vínin frá Purato hágæðavín á góðu verði.

Hið hreina bragð Sikileyjar

Nafnið Purato er dregið af „puro“ sem er ítalska orðið yfir „hreint“ og það kjarnar í raun alla þá stefnu sem fyrirtækið starfar eftir. Hún er á þá leið að vín er náttúruafurð þar sem gæðin ráðast af þrúgunum sem ræktaðar eru til víngerðarinnar. Þess vegna hafi Purato ákveðið að rækta allt sitt vín með lífrænum hætti – ekkert skordýraeitur eða önnur kemísk efni eru notuð við ræktunina né bætt við þegar að sjálfri víngerðinni kemur. Í nýlegri viðtalsgrein við vefritið Vegan Trade Journal segir Stefano Girelli, forstjóri fyrirtækisins, að gæðavín þurfi engar dýraafurðir til framleiðslunnar og þar af leiðandi komi þær hvergi nærri. „Markmið okkar er að standa vörð um það sem Móðir Jörð gaf okkur, fjarlægja ekkert af afurðinni né heldur bæta við hana. Hið hreina bragð Sikileyjar!“

Það er vel að orði komist því á Sikiley er að finna kjöraðstæður til að rækta þrúgur með lífrænum hætti; gnægð sólarljóss, lítil úrkoma og svalandi vindgola af hafi. Þar af leiðandi er þörfin fyrir kemískan áburð og aðra slíka hvata ekki til staðar, hinar náttúrulegu aðstæður er allt sem þarf til að rækta upp framúrskarandi þrúgur og í framhaldinu, frábær vín.

 

Suðrænt og lystaukandi hvítvín 

Burtséð frá hinni hreinu nálgun á framleiðsluna þá eru vínin frá Purato í senn áhugaverð og aðgengileg. Þar má fyrst nefna hvítvínið Purato Cataratto Pinot Grigio þar sem sjaldséð, sikileysk þrúga mætir hinni alþekktu og Norður-ítölsku Pinot Grigio svo úr verður svalandi og ljúffengt vín, frábært borið fram kælt og hentar einstaklega vel sem lystaukandi fordrykkur eða með hvers kyns salati. Vínið er með suðræna ávexti áberandi í nefi, og þeir mæta frískandi sýrni til að skapa afbragðs jafnvægi í munni.

Flauelsmjúk og margslungin rauðvín

Áðurnefnd þrúga er líka í aðalhlutverki í rauðvíninu Purato Nero d‘Avola, sem er einkar þétt um leið og áferðin er silkimjúk, í takt við dásamlegt bragðið þar sem sólríkir, dökkir ávextir eru í aðalhlutverki. Sérlega aðgengilegt og fjölhæft matvín, ekki síst með ítalskri klassík á borð við pastarétti og pítsur, en líka frábært eitt og sér. 

Frískandi og ávaxtaríkt rósavín

Purato Rosé ekta rósavín sem hittir í mark þegar það er borið fram kælt og svalandi um kvöld. Vínið er að langmestu leyti búið til úr algengustu þrúgu Sikileyjar, Nero d‘Avola, með dálítið af öðrum rauðvínsþrúgum af svæðinu í bland. Vínið er þurrt og einkar frískandi, með bragðtóna af sætum sumarávöxtum, ekki síst jarðarberjum og kirsuberjum, í bland við steinefnakeim. Frábært með léttum og bragðmiklum mat, svo sem grilluðu grænmeti. Rósavínið frá Purato er væntanlegt í sölu Vínbúðanna næsta sumar.

 

Bragðgóður kostur – og umhverfisvænn

Vínáhugafólk sem lætur sig umhverfið varða, og eru grænkerar eða vegan, geta treyst því að vínin frá Purato eru ekki aðeins bragðmikil og ljúffeng heldur eru þetta líka vín með hreina samvisku, ef svo má að orði komast. Hugsjón Purato nær nefnilega ekki bara til framleiðslunnar og vörunnar sjálfrar heldur líka til allra umbúða. Allur pappi og pappír er 100% endurunninn, allt glerið minnst 80% endurunnið. Auk þess hefur framleiðslan verið vottun upp á kolefnisjöfnun síðan árið 2016, og lífræna vottunin nær aftur til ársins 2011.