Emiliana Coyam 2019
Vínsíðurnar segja;
Hér erum við með eitt að topp vínum Emiliana víngerðarinnar í Chile sem hefur náð ansi góðri fótfestu á Íslandi. Blandan er ansi áhugaverð og allt annað en hefðbundin því að hún samanstendur af Syrah (38%), Carmenere (33%), Cabernet Sauvignon (8%), Carignan (5%), Malbec (4%), Garnacha (4%), Tempranillo (3%), Petit Verdot (3%) og Mourvedre (2%). Manni líður svolítið eins og að það hafi verið einhver “tökum til í ísskápnum” fílingur hjá þeim þegar maður les þetta en staðreyndin er að hér er verið að blanda saman bestu þrúgunum frá bestu ekrum víngerðarinnar. Vínið fær svo að þroskast í 18 mánuði og er stærstur hluti vínsins látin þroskast á frönskum 225 lítra eikartunnum en fjórðungur fær að þroskast á risastórum 5000 lítra vínámum sem og steinsteyptum “eggjum”.
Vínið er dimmrautt með léttum fjólubláum blæ. Það er frekar opið í byrjun og þarf smá tíma í glasinu til að sýna sitt rétta andlit. Ristuð eikin er þó áberandi fyrst en eftir góða stund kemur fram gríðarlega safaríkur og ferskur ávöxtur á borð við jarðarber, hindber og kirsuber en einnig er að finna vanillu, ristað brauð, fjólur, lavender, lakkrís og hvítan pipar. Gríðarlega margslunginn ilmur sem þarf tíma til brjótast út. Það er nokkuð kraftmikið í munni en glettilega ferskt á sama tíma sem kemur skemmtilega á óvart og gefa hraustleg tannín því gott bit. Bjartur rauður ávöxtur ræður ríkjum ásamt góðri tunnu og krydd. Langt eftirbragð. Umhelltu þessu meðan þú eldar villibráðina á jólunum og þú ert með kláran sigurvegara.
Okkar álit: Margslungið og pínu feimið en þegar þú kynnist því er ekki aftur snúið. Áhugavert og ljúffengt vín.