Willm Crémant d’Alsace Brut Rosé

 

 

Víngarðurinn segir;

 

Í gær var alþjóðlegi rósavínsdagurinn og hjá Víngarðinum hefur reyndar öll síðasta vika verið rósavínsvikan, enda sumarið tíminn til að hafa rósavín í glasinu. Sum rósavín koma einnig með loftbólum og þetta er eitt þeirra og hreint ekki það versta sem í boði er. Þvert á móti, þetta vín sameinar á skemmtilegan hátt bæði bleikan lit og búbblur!

Ég var svo með á dögunum umfjöllun um „venjulega“ rósavínið frá Willm, sem er unnið úr Pinot Noir og það er þetta freyðandi rósavín líka, þótt þau séu ekki alveg eins, enda bætir seinni gerjunin við flækjustigi sem kolsýrulaus vín búa ekki yfir.

Það er jarðarberjableikt að lit og hefur meðalopna angan af ferskum jarðarberjum, kirsuberjum, rauðu greipaldin, hindberjum, apríkósum, sveskjusteinum og gerjunartónum sem minna á bakarí og rjómabollur. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, þurrt og ferskt með nokkuð langan bragðprófíl og afbragðsgott jafnvægi. Bólurnar eru í meðallagi fínlegar og fara sérlega vel með þessum ljósbleika vökva. Þarna má svo finna jarðarber, hindber, greipaldin, apríkósur, smjördeig og laktíska tóna. Verulega gott og freyðandi rósavín sem er frábært sem fordrykkur og þolir vel allskonar forrétti, puttamat og fiskrétti.

Verð kr. 2.999.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post