Hess Select North Coast Cabernet Sauvignon 2018

 

 

Víngarðurinn segir;

Ég tel víst að langflestir áhangendur Víngarðsins séu vel kunnugir vínunum frá Donald Hess og víngerðarteymi hans, enda hafa þessi vín verið nokkuð lengi í boði hér á landi og mörg þeirra hafa einmitt verið tekin fyrir hér á þessari síðu. Núna síðast árgangarnir 2014 og 2016 af einmitt þessu sama víni, sem fengu báðir sömu einkunn, fjórar stjörnur en þessi nýjast árgangur tekur þeim báðum fram að mínu mati og sá besti sem ég man eftir í svipinn.

Víngerðarsvæðið North Coast er býsna víðfemt og inniheldur meðal annars þekktari og smærri svæði einsog Sonoma, Napa, Mendocino og Marin og innan þeirra auðvitað enn smærri og snobbaðri svæði einsog flestir vita. Þetta vín getur því komið frá mörgum víngörðum innan þeirra, en hin flauelsmjúka áferð þess undirstrikar upprunan vel.

Þetta vín býr yfir meðaldjúpum, plómurauðum lit og meðalopinni angan sem er afar mjúk og aðlaðandi en þarna má meðal annars greina dökk sultuð ber, aðallega bláber og sólber en svo eru þarna líka kirsuber, kremaðir vanillutónar úr eikinni, mjólkursúkkulaði, hindber og dass af grænni papriku. Það er meðalbragðmikið, verulega mjúkt en sýruríkt með fínpússuð tannín, afbragðs lengd og gott jafnvægi. Þarna eru sultuð bláber, sólberjalíkjör, kirsuber, hindber, toffí, vanilla og ögn af grænni papriku. Þetta er hættulega ljúffengt rauðvín, alþjóðlegt og áferðarfallegt en kannski ekkert sérlega persónulegt. Það er samt einsog flest vönduð rauðvín frá Kaliforníu ferlega gott og fer vel með allskonar mat, bæði hversdagslegum kjötréttum uppí sparisteik. Ég vil samt meina að það sé einna best með íslensku lambalæri.

Verð kr. 3.499.- Frábær kaup

Post Tags
Share Post