Hoegaarden – Bjórinn, upprisan og lífið

Ekki er vitað hvað blessuðum klausturmunkunum í belgíska þorpinu Hoegaarden (borið fram „-garden“) gekk til þegar þeir tóku til við að föndra með hveiti við bjórgerð á fimmtándu öld. Var uppátækjasemin afleiðing of mikils frítíma og dauflegrar vistar í klaustrinu? Voru þeir búnir að fá sig fullsadda af messuvíninu? Eða laust þá einhver guðleg uppljómun sem gerði það að verkum að þeir hófu þessa nýstárlegu bruggun, heimildir eru til um hveitibjórgerð þar í bæ allt aftur til ársins 1445 – með þessum líka sallafína árangri? Það er ómögulegt að segja en ljóst má vera að þeir gerðu sér ekki grein fyrir því að þeir ýttu af stað bjórstíl sem nýtur mikilla vinsælda enn þann dag í dag. Hoegaarden var sumsé fyrsti „wit“-bjórinn.

Heimildir herma að fyrstu laganir umrædds hveitibjórs hafi verið skollanum beiskari og súrari, en þegar munkarnir afréðu að reyna að milda bragðið með bragðgjöfum úr jurtaríkinu, aðallega kóríander og appelsínuberki, vænkaðist hagur þeirra heldur betur og úr varð framúrskarandi bragðgóður og svalandi bjór. Kóríander og appelsínur voru í meira lagi exótísk innihaldsefni í þá daga og munkunum aðeins aðgengileg gegnum innflutning frá einni af nýlendum Hollendinga (Belgía var í þá daga hluti af Hollandi), nánar tiltekið frá eyjunni Curacao sem liggur rétt norðan við Venesúela. Svo rækilega féll hinn nýi bjór í kramið að brugghús spruttu upp í kjölfarið uns næstum var hægt að segja að þorpið Hoegaarden væri orðið eitt allsherjar hveitibjórbrugghús. Þegar komið var fram á 18. öld voru 36 brugghús í litla bænum og allir kepptust við að brugga hinn svalandi og bragðgóða hveitibjór.

 

vino_2

 

En í byrjun 20. aldar fór að halla undan fæti og nýir bjórstílar, ekki síst hinn ljóstæri lager ruddu sér til rúms á kostnað flóknari bjórstíla. Eitt af öðru söfnuðust brugghúsin Í Hoegaarden til feðranna uns hið síðasta lokaði dyrum sínum fyrir fullt og allt árið 1957. Um hríð leit því út fyrir að þessi aldagamla hefð væri endanlega liðin undir lok. En það voru í búar Hoegaarden ekki tilbúnir að kvitta fyrir og undir forystu mjólkurbílstjórans Pierre Celis var hafist handa við að brugga bjórinn góða á ný, eftir aldagamalli uppskrift, og enn er bjórinn tvígerjaður en ósíaður sem gefur honum hálfskýjaðan lit og silkimjúka áferð. Þessu framtaki, undir nafni Hoegaarden, óx fiskur um hrygg og bjórsamsteypan Interbrew, sem í dag heitir InBev, fjárfesti í fyrirtækinu og tryggði þar sem framtíð Hoegaarden. Í dag er nafn Hoegaarden á 9 af hverjum tíu hveitibjórum sem seldir eru í Belgíu, og öll vitum við að Belgar eru óviðjafnanlegir sælkerar og vita því hvað þeir syngja í þessum efnum.

Eins og gengur með bragðmikla hveitibjóra er best að njóta Hoegaarden þegar hann er ískaldur. Vitaskuld fer best á því að hella bjórnum í ekta Hoegaarden-glas, sem er úr sérstaklega þykku gleri til að bjórinn haldist lengur kaldur og helst er mælt með því að geyma glasið í frysti um stund áður en bjórnum er hellt í glasið. Þegar flaskan hefur verið opnuð er eftirfarandi háttur hafður á hellingunni: hellið 2/3 af bjórnum í glasið og hallið því í 45° til að halda froðunni í skefjum. Veltið síðasta þriðjungnum af bjór sem eftir er í flöskunni í nokkra hringi til að losa um botnfallið sem sest hefur meðan bjórinn stóð á hillu og hellið svo í glasið. Aðeins þannig fær maður notið bragðsins af Hoegaarden til fullnustu. Skál!

 

vino_1

 

Að lokum má benda á mat sem fer sérstaklega vel með hrímköldu glasi af Hoegaarden. Þar sem kryddin í bjórnum lækka vel rostann í sterkum pipar og öðru álíka þá fer hann sérlega vel með sterkum indverskum og tælenskum mat, en hentar líka með mildari mat á borð við kjúklingasalöt, fisk, skelfisk og hvers konar létta rétti. Hoegaarden á eiginlega alltaf við.

Share Post