Chateau Lamothe Vincent Bordeaux Heritage 2014
Víngarðurinn og fleira segir;
Fyrir all nokkru síðan skrifaði ég um árganginn 2010 af þessu víni (****) og þótt þessi hér sé kannski ekki alveg jafn glæsilegur og sá frábæri árgangur er hann flottur Bordeaux á góðu verði.
Það býr yfir mjög þéttum rauðfjólubláum lit og dæmigerða angan í nefinu af dökkum sultuðum berjum, plómu, vanillu, heybagga, sedrusvið (sem minnir smá á yddaðan blýant, ef einhver skyldi ennþá nota slíkan forngrip) og málmkennda tóna sem minna á blek. Í munni er það dökkt, þurrt og þétt með flotta tanníngrind (sem er að mestu mjúk), fína sýru og góða lengd. Þarna má finna krækiber, brómber, sólber, plómu, lakkrís og rykuga jarðartóna. Þetta er létt-eikað vín sem skilar bæði mýkt og kryddi og það ætti að hafa með lambi eða nauti, villbráð eða hörðum og þroskuðum ostum.
Verð kr. 2.799.- Mjög góð kaup.