Sumar samsetningar matar og drykkjar eru borðleggjandi í huga okkar og hafa því skapað sér sess í matarhefðum okkar og venjum. Þar má nefna rauðvín og nautasteik, hvítvín og humar og hamborgari og bjór. Svo mætti lengi telja. En í upptalningunni hér að framan leynist þó samsetning sem ekki allir hafa í sínum matar- og veisluvenjum, nefnilega hamborgarar og vín.
Það getur við fyrstu sýn virst svolítil kúnst að para borgarann saman við vín, enda áleggið oft margvíslegt og úr öllum áttum en borgari er í eðli sínu matur sem virkar með allskonar drykkjum og því er merkilega lítið mál að láta samsetninguna virka og það vel. Hafðu heldur ekki of miklar áhyggjur af því að hitta á hina fullkomnu samsetningu – við erum jú að tala um hamborgara, sem er frekar afslappaður réttur þegar allt kemur til alls, og pressan því ekki mikil.
Eins og vanalega eru þó fáeinar þumalputtareglur til hér sem annars staðar sem ágætt er að hafa til hliðsjónar þegar lagt er upp í fyrsta sinn. Þeirra helst er sú að því sætara sem áleggið er á hamborgararnum, þeim mun meiri sýrni þarf vínið að hafa til að bera. En sannaður til – um leið og reynslan fer að segja til sín og hefðin tekur við sér máttu vera viss um að þér mun þykja sönn ánægja að brjóta allar þumalputtareglur og setja þínar eigin. Hér er samt sem áður smá inngangur í pörun hamborgara og vína.
Hamborgari með fersku grænmeti + Pinot Noir
Það er eftirlæti margra íslendinga að hafa nóg af grænmeti á borgaranum, svo sem kálblöð, tómatsneiðar og ferskan lauk. Hér er ekki mikil sæta á ferð hvað áleggið varðar og þá passar að hafa ávaxtaríkt vín með enda engin þörf á mikilli sýrni. Pinot Noir í léttari kantinum ætti að smellpassa hér.
Vino mælir með : Adobe Reserva Pinot Noir
Beikonborgari með gráðosti, sveppum og lauk + Cabernet Sauvignon
Hér kveður aftur á móti við annan tón, og áleggið er ekki bara orðið orðið margslungið á bragðið heldur býsna sætt! Þá er best að grípa til Cabernet-Sauvignon eða Zinfandel víns, því þau hafa fyllingu og tannín sem ráða við margslungin álegg eins og hér að ofan.
Vino mælir með: Canepa Famiglia Cabernet Sauvignon
Salsaborgari + Shiraz
Ef þú vilt hamborgarann með sterkri sósu, jafnvel salsa eða niðurskornum jalapeno, þá gefst yfirleitt best að velja vín með ekki of hátt áfengismagn og helst svolitla sætu. Shiraz, bara ekki með of mikla fyllingu, virkar vel í þessu tilfelli.
Vino mælir með: Nottage Hill Cabernet Shiraz
Grillborgari + Tempranillo (Rioja)
Fyrir þá sem kjósa borgarann sinn eldsteiktan eða kolagrillaðan, svo ysta lag kjötsins er svartröndótt eftir grindina og eftir því verulega bragðmikið, þá er bara að hugsa: hvað myndi ég gera ef þetta væri nautasteik? Þú myndir sennilegast fara og finna þér eina þétta og góða Rioja. Og það væri hárrétt val fyrir þennan hamborgara sömuleiðis.
Vino mælir með: Cune Rioja Crianza
Ostborgari + Chardonnay (létt eikað)
Hér kemur svo pörun sem fær eflaust marga til að staldra við. Ef á borðum er einfaldur borgari með lítilli og mildri sósu, osti sem er hlutlaus á bragðið og lítið af öðrum áleggjum, prófið þá hæfilega eikaðan Chardonnay. Þessi uppástunga kann að koma á óvart en ekki eins mikið og bragðið kemur á óvart þegar vínið er drukkið með framangreindum hamborgara.
Vino mælir með: Hardys Nottage Hill Chardonnay
Hvernig væri að prófa?
Adobe Reserva Pinot Noir 2014
Passar vel með: Fiskur, kjúklingur, pasta og tapas.
Lýsing: Ljósjarðarberjarautt. Létt meðalfylling, mild sýra, mild tannín. Rauð ber, laufkrydd.
Vinotek segir;
Emiliana í Chile er umsvifamesta vínhús veraldar þegar kemur að lífrænt ræktuðum vínum og þrúgurnar í þetta Pinot Nor-vín eru ræktaðar í Colchagua-dalnum, einu besta ræktunarsvæði landsins. Þetta er ávaxtaríkur og aðgengilegur Pinot, rauð ber og skógarber í nefi, blóm og vottur af kryddum, kanilstöng, í munni er áferðin mjúk, ávöxturinn sætur og þægilegur, ágæt sýra. Mjög góð kaup.
Canepa Famiglia Cabernet Sauvignon 2014
Passar vel með: Nautakjöt, lambakjöt, grillkjöt og pottréttir.
Lýsing: Kirsuberjarautt. Meðalfylling, þurrt, mild sýra, miðlungstannín. Dökkur ávöxtur, sólber, kirsuber, plóma, eik.
Vinotek segir;
Vínin frá Canepa voru meðal þeirra fyrstu sem að komu hingað til Íslands frá Chile á sínum tíma og þau hafa verið fáanleg hér með, með einhverjum hléum þó, í eina tvo áratugi.
Cabernet-vínið í Reserva Famiglia-línunni er ungt, ávöxturinn bjartur, sólber, krækiber, smá innslag af myntu, ávaxtaríkt í munni með smá tannínbiti, sem sagt hið prýðilegasta vín. Mjög góð kaup.
Hardy‘s Nottage Hill Cabernet Shiraz 2013
Passar vel með: Nautakjöt, lambakjöt og grillkjöt.
Lýsing: Dökkrúbínrautt. Þétt meðalfylling, ósætt, fersk sýra, miðlungs tannín. Sólber, brómber, vanilla, minta
Vinotek segir;
Það fer að verða hálf öld frá því að ástralska vínhúsið Hardy’s kynnti vínlínuna Nottage Hill til sögunnar en hún er kennd við einn af fulltrúum Hardy’s-fjölskyldunnar, Thomas Hardy Nottage og fyrstu vínin komu af ekrunni Nottage Hill í McLaren Vale fyrir utan Adelaide. Þetta er hinn ágætasti Ástrali. Vínið dökkt með þykkum, feitum og krydduðum ávexti. Sultaðar plómur og sólber í bland við sæta vanillu, kókos og súkkulaði. Mjúkt og þykkt. 1.999 krónur. Frábær kaup á þessu verði.
Cune Rioja Crianza 2012
Passar vel með: Kjúkling, svínakjöti, ostum og pasta.
Lýsing: Kirsuberjarautt. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra, mjúk tannín. Létt eik, vanilla, rauð ber.
Vinotek segir;
Crianza-vínið frá Cune kemur nú með skrúfuðum tappa í fyrsta skipti, sem er ekki óvitlaust fyrir vín sem þessi þar sem við viljum halda í ferskleika ávaxtarins. Rauð ber, rifsber og trönuber, mild eik, vel uppbyggt, mjúk tannín. Þægilegt og flott. Mjög góð kaup.
Hardy‘s Nottage Hill Chardonnay 2014
Passar vel með: Kjúkling, svínakjöti, fisk og pasta.
Lýsing: Ljóssítrónugult. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Suðrænir ávextir, sítrus, vanilla, kókos.
Vinotek segir;
Nottage Hill er lína suður-ástralskra vína frá vínhúsinu Hardy’s. Þetta er suðrænn og ljúfur Chardonnay, nokkuð gulur litur, þarna er eik á ferðinni og fullt af suðrænum hitabeltisávöxtum í nefinu, ananas, mangó og melónur. Sætur ávöxtur í munni, eikin gefur fína fyllingu, þurrt og ferskt. Mjög góð kaup.