5 daga kokteilhátíð í Reykjavík

Miðvikudaginn 31. janúar, hefst árlega kokteilhátíðin, Reykjavík Cocktail Weekend og stendur hún í heila fimm daga, til og með 4. febrúar. Það er því löng helgi framundan og nóg um að vera eins og Tómas Kristjánsson, forseti Barþjónaklúbbsins, segir frá.

 

„Það var gríðarlega mikil kokteilmenning í Reykjavík á árunum frá 1970 og fram yfir 1980;” útskýrir Tómas þegar hann er spurður út í kokteilsenuna hér í borg fyrr og nú, en það er kunnara en frá þurfi að segja að hanastélin hafa hreinlega sprungið út á betri börum bæjarins síðustu fimm árin eða svo. „Í þá daga voru staðir eins og Astra Bar á Hótel Sögu, gamla Hótel Esja [nú Reykjavík Hilton Nordica] og síðast en ekki síst Símonarbar eins og hann kallaðist á Naustinu gamla. En hvað orsakaði lægðina sem kokteilarnir lentu í þarna í millitíðinni?

Bjórinn breytti öllu

„Það sem gerðist var að bjórinn kom til sögunnar,” svarar Tómas. Þegar bjórinn kom, eftir áratuga bann, beindust sjónir allra skiljanlega að honum og fátt annað komst að um allnokkurt skeið. „Auk þess fóru áfengisframleiðendur að búa til áfenga gosdrykki á flöskum, Breezer og þessháttar, og þetta ásamt bjórnum þá varð þetta til þess að kokteilarnir lentu í harkalegum samdrætti og sáust varla um skeið. En fyrir um það bil 5-6 árum sneri hann aftur og hefur verið í sókn síðan, eins og Tómas bætir við.

Vínmenningin að breytast

Þegar Tómas er inntur eftir ástæður þess að kokteillinn á nú aftur upp á pallborðið – eða réttara sagt barborðið – segir hann ýmislegt koma til. „Fólk er orðið miklu forvitnara um allt áfengi. Í stað þess að hella bara hugsunarlaust í sig þá spáir fólk og spekúlerar í drykkjunum og það á jafnt við um léttvín, bjór og kokteila.” Tómas útskýrir að landinn sé sífellt á ferðalögum erlendis og uppgötvi þar eitthvað nýtt, erlendir einstaklingar komi í síauknum mæli hingað til lands til að vinna og barþjónar séu þar á meðal, fólk með nýjar hugmyndir í kollinum sem komi með áhrifin hingað til lands. „Barþjónar eru duglegir að fylgjast með nýjust straumum og stefnum og leggja metnað sinn í að gera eitthvað nýtt og spennandi fyrir viðskiptavini.

Barirnir batna með veitingastöðunum

Tómas bendir ennfremur á að í Reykjavík séu í dag mjög margir virkilega flottir veitingastaðir og í takt við klassann þar verði barirnir sífellt betri. „Kröfurnar aukast og barirnir verða einskonar framlenging af eldhúsinu. Hluti af þessu sýnir sig í því að víða á veitingastöðum tíðkast núorðið að para kokteila saman við matinn í stað léttvína eða bjórs.” Þróunin endurspeglast að sögn Tómasar í því að kokteilamenningin hefur blómstrað undanfarin ár. „Þetta má sjá í þeirri staðreynd að þegar við héldum Reykjavík Cocktail Weekend fyrst fyrir þremur árum voru 8 staðir sem tóku þátt. Í ár eru þeir á fjórða tuginn.”


Dægurmenningin hefur áhrif

Þegar talið berst að fyrirferðamestu trendunum í kokteilum um þessar mundir er Tómas fljótur til svars. „Mezcal-drykkir, og Tequila-drykkir eru mjög vinsælir. Einnig kokteilar með viskí og hvers kyns sour-drykkir.”

Eru þessir síðastnefndu ekki bein afleiðing af sjónvarpsþáttunum Mad Men, þar sem menn eru viðstöðulaust með Old Fashioned eða Whiskey Sour í hendi? Tómas hlær við

„Allt hefur þetta áhrif. Líttu bara á þættina Sex & The City. Ímyndaðu þér hvað þeir þættir gerðu fyrir kokteilmenningu heimsins með því að halda Cosmopolitan á lofti eins og gert var í þáttunum. Vissulega telur þetta allt saman. Það er ekki verið að finna upp hjólið í þessum fræðum heldur verða barþjónar fyrir margs konar áhrifum og reyna að finna nýtt tvist á hlutina með því að taka mið af tíðarandum hverju sinni.

Drykkir á draumaverði

Framundan eru svo fimm kvöld með alls konar uppákomum og þemakvöldum á rúmlega þrjátíu stöðum víðsvegar um miðborg Reykjavíkur. „Við mælum með því að fólk labbi á milli, tékki á stemningunni og fái sér eins og einn kokteil – jafnvel þó þeir væru tveir. Þeir verða nefnilega á mjög sanngjörnu verði meðan á hátíðinni stendur.”

 

Áhugasömum skal bent á Facebook-síðu Reykjavík Coctail Weekend til að afla sér frekari upplýsinga um staðina og viðburðina.

Share Post