Château Lynch-Bages – Bordeaux-vín á besta stað

 

Frakkland er í huga margra heimaland öndvegisvínanna og það ekki að ósekju. Frá Frakklandi koma mörg af nafntoguðustu og goðsagnakenndustu vínum veraldar enda stendur vínrækt og víngerð þar á eldfornum merg. Vínræktarhéruð er að finna í Frakklandi landshorna á milli og þau frægustu eru að líkindum Búrgúnd, Champagne og Bordeaux. Við ætlum einmitt að beina sjónum okkar að því síðastnefnda að þessu sinni. Við þrengjum Frakklandskortið niður í Bordeaux-hérað, áfram niður í Médoc-hlutann og hættum ekki fyrr en við erum búin að “zoom-a” inn á vínræktarsvæði sem kallast Pauillac [pó-jak] og er við samnefnt þorp. Pauillac er heimavöllur ýmissa nafntogaðra vína í hæsta gæðaflokki og það er okkur ánægja að kynna nýjan birgja okkar frá Pauillac, Château Lynch-Bages. Við erum þess fullviss að þessi spennandi viðbót við flóruna hérlendis muni falla Íslendingum vel í geð.

 Öndvegisvín með írskar rætur

Það kemur ef til vill einhverjum það spánskt fyrir sjónir að þó umrætt vín sé franskt þá er upphaf þess írskt. Vínið heitir nefnilega eftir Íranum Thomas Lynch. Faðir hans, John Lynch, var semsé írskur innflytjandi og starfaði sem kaupmaður í Bordeaux. Sonurinn Thomas setti vínrækt á laggirnar árið 1749, gaf henni nafnið sem vísar til ættarnafnsins og svo til þorpsins Bages þar sem vínræktin stendur, og rak fyrirtækið af myndarskap. Víngerðin var blómleg og hélst fyrirtækið innan Lynch-fjölskyldunnar til ársins 1834 er það var selt. Það var svo árið 1939 sem bakari nokkur frá Pauillac, Jean-Charles Cazez, tók við sem eigandi og undir hans stjórn vakti vínið frá Château Lynch-Bages fljótt athygli fyrir framúrskarandi gæði og vinsældirnar jukust jafnt og þétt. Enn þann daga í dag er fyrirtækið í eigu Cazez-fjölskyldunnar sem stýrir víngerðinni af alúð, metnaði fyrir gæðum vínsins og virðingu fyrir umhverfinu.

 Hagstæður jarðvegur, hörkugott vín

Pauillac-svæðið stendur á bökkum Gironde-ósa, þar sem árnar Dordogne og Garonne mætast og renna svo saman út í Atlantshafið. Jarðvegur Pauillac er malarkenndur og þar af leiðandi ekki ýkja þéttur. Þetta tryggir gott gegnumstreymi vatns og því er vökvun ekki vandamál hjá Château Lynch-Bages því úrkoma rennur gegnum jarðveginn úr efri hlíðum og út í Garonne, með viðkomu í vínekrunum. Þessar aðstæður henta vel Cabernet Sauvignon en hún er lang-algengasta þrúga svæðisins, eða sem nemur um 73% vínviðar. Önnur afbrigði eru Merlot sem nema um 15%, 10% eru Cabernet Franc og loks eru lítil 2% undirlögð Petit Verdot. Til samanburðar má nefna sem dæmi um samsetningu víns frá Château Lynch-Bages að 2013 árgangurinn af þeirra helsta víni, sem er samnefnt húsinu, er 72% Cabernet Sauvignon, 20% Merlot, 6% Cabernet Franc, og 2% Petit Verdot. Rétt eins og algengt er með vín frá Pauillac þá eru vínin frá Château Lynch-Bages mjúk og þétt í sér, með mikla fyllingu og þroskast einkar vel, bæði í nefi og munni. Margir eru því þeirrar skoðunar og hágæða rauðvín frá Bordeaux þurfi helst áratug áður en það hefur náð sínu hámarki en hágæðavínin geymast jafnvel í áratugi. Bragðið er margslungið og tannínin með fínlegri áferð. Þá er jafnan til staðar hinn alþekkti keimur af sólberjum og sedrusviði sem einkennir eikaðan Cabernet Sauvignon.

Þegar góða veislu gjöra skal

Rauð öndvegisvín frá Pauillac fara einna best með steiktu eða grilluðu lambakjöti og þá má einna fyrst nefna hryggvöðvann, eldaðan á beini. Ofnbakað rótargrænmeti (prófið kartöflur, sætar kartöflur, gulrætur, rauðlauk og papriku með olíu, salti og pipar) og eldið kjötið með fáeinum sprotum af fersku rósmaríni. Villibráð nýtur ennfremur mjög góðs af stefnumóti við rauðan Pauillac sem og eldgrillað, rautt nautakjöt. Hvers konar kraftmiklar kjötkássur og veiðimannaréttir eru einnig fyrirtak með góðum Pauillac á borð við Château Lynch-Bages. Í ljósi þess hversu framúrskarandi matarvín um er að ræða kemur ekki á óvart að eitt af virtari flugfélögum heims, Cathay Pacific frá Hong Kong, hefur boðið farþegum sínum á 1. farrými vínin frá Château Lynch-Bages síðustu 25 ár.


Hvernig væri að prófa þessi hágæðavín frá Pauillac-svæðinu í Médoc?

 

 

Michel Lynch Réserve Medoc 2013

Vinotek segir;

Michel Lynch eru vín sem framleidd eru af Cazes-fjölskyldunni sem er ein af rótgrónu vínfjölskyldunum í Bordeaux. Þekktasta vínhús þeirra er Chateau Lynch Bages á Bages-hæðinni í Pauillac sem einnig er kennt við Thomas-MIchel Lynch, sem stofnaði vínhúsið á nítjándu öld ásamt vínhúsum sem í dag eru þekkt undir nöfnunum Lynch-Moussas og Dauzac. Réserve-vínið er gert úr þrúgum af Médoc-skaganum, blanda af Cabernet Sauvignon og Merlot nokkurn veginn til helminga.  Ungt yfirbragð, þéttur, fjólublár litur. Klassísk Bordeaux-angan, sólber, viður, smá reykur og kaffitónar, míneralískt, í munni kröftugt, nokkuð tannískt, hefur mjög gott af því að standa í smá stund. Vín sem þarf góðan mat með, reynið t.d. með önd. 2.499 kr. Frábær kaup.

 Michel Lynch Merlot Cabernet Sauvignon 2014

 

Vinotek segir;

Michel Lynch eru vín sem framleidd eru af Cazes-fjölskyldunni sem er ein af rótgrónu vínfjölskyldunum í Bordeaux. Þekktasta vínhús þeirra er Chateau Lynch Bages á Bages-hæðinni í Pauillac sem einnig er kennt við Thomas-MIchel Lynch, sem stofnaði vínhúsið á nítjándu öld ásamt vínhúsum sem í dag eru þekkt undir nöfnunum Lynch-Moussas og Dauzac.

Þetta er byrjunarvínið í línunni, vel gert og  traust Bordeau-vín, blanda úr Cabernet og Merlot. Það er Merlot sem er ríkjandi í blöndunni, dökkrauður ávöxtur, rifs út í sólber, stífur strúktúr, tannískt og Bordeaux-legt. 2.299 krónur. Mjög góð kaup.

 

 

Michel Lynch Bordeaux Sauvignon blanc 2015

Víngarðurinn, Vín og Fleira segir;

Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég um Michel Lynch Réserve Médoc (***1/2) og þessi hvíti Bordeaux, sem er 100% Sauvignon Blanc er af svipuðum meiði, ferskur, dæmigerður og flottur og munar litlu að fá fjórðu stjörnuna.Það hefur ljósan strágulan lit og ferska, dæmigerða angan af sítrus, hvítum blómum, stikilsberjum, peru, perubrjóssykri og einhverri exótískri ávaxtablöndu. Þetta er brakandi og ungur ilmur sem fær munnvatnið til a…ð streyma fram. Í munni er það þurrt, sýruríkt og dæmigert en mætti gjarnan endast lengur. Það er þó í fínu jafnvægi meðan það staldrar við. Þarna eru sítrónur, læm, stikilsber, greipaldin og exótískir ávextir. Ekki flókið en flott matarvín sem er fínt með allskonar fiskréttum þar sem sítróna kemur við sögu, bökum og auðvitað geitaosti. Eða bökum með geitaosti. Verð kr. 2.499.- Mjög góð kaup.

 

Share Post