Ciacci Piccolomini d’Aragona Brunello di Montalcino 2011
Vinotek segir;
Ciacci Piccolomini er lítið vínhús í Montalcino í Toskana sem rekið er af Bianchini-fjölskyldunni. Fjölskyldunni voru arfleiddar að vínekrunum við andlát greifynjunnar Elda Ciacci Piccolomini d’Aragona árið 1985. Hún var barnlaus og taldi því best að fela eignina Guiseppe Bianchini, sem hafði um langt skeið séð um rekstur búgarðsins fyrir hana. Þar halda nú um taumana systkinin Paolo og Lucia sem tóku við er Guiseppe faðir þeirra lést árið 2004. Þau framleiða klassísk vín og eru aðilar að Lotto Integrati hreyfingunni sem leggur áherslu á sem náttúrulegasta ræktun. Þetta er líka mjög klassískur Brunello, farinn að sýna þroska í lit og nefi, sætur, dökkur kryddaður ávöxtur balsamviður, reykur og vottur af soja. Þétt, með góðri sýru og mildum en kröftugum tannínum, þroskaður sætur ávöxturinn blandast þar saman við lakkrís og önnur krydd. Unaðslegt.
5.999 krónur. Frábær kaup. Sérpöntun. Alveg tilbúið en má alveg geyma í einhvern tíma.