Vín með krydduðum mat

Rétt eins og það er hrein unun að hitta á góða pörun víns og matar, þá getur mikið kryddaður matur gert góðu víni óleik og hreinlega breytt því hvernig bragðlaukarnir skynja vínið. Sterk krydd draga úr sætunni og draga um leið fram tannínið í víninu svo það verður allt að því beiskt á bragðið, ekki ósvipað því þegar steinarnir úr vínberjum eru tuggðir. Það er nokkuð sem fæstum hugnast. En ef sterk krydd draga úr sætunni, hvað er þá til ráða? Jú, fyrst og fremst er að leita uppi vín vel búin sætu í munni, helst lítið eikuð og ef þau eru ávaxtarík þá spillir það ekki nema síður sé. Þessa eiginleika er mun líklegra að finna í hvítvíni en rauðvíni og þar af leiðandi eru þau hvítu jafnan betri kostur með krydduðum mat. Frönsk Pinot Gris hvítvín eru þessum kostum búin og eru með allra fjölhæfustu matvínum, einnig franskur Gerwürztraminer frá Alsace. Sauvignon Blanc vín frá Nýja Sjálandi eru einnig góður kostur í þessu sambandi. Mest er þó um vert að prófa sig áfram og þegar vín og bragð smellur saman er komin rétt sametning – því þegar allt kemur til alls hefur þú rétt fyrir þér.

Hvernig væri að prófa?

 

Willm Pinot Gris Reserve 2.499 kr.  

Víngarðurinn Vín og Fleira segir;

Síðast þegar þetta vín var til umfjöllunar hér í Víngarðinum þá var það árgangurinn 2014 (****) og það virðist vera lítil breyting á gæðunum á þessu fína víni frá Willm, einsog reynsla mín hefur reyndar verið í gegnum tíðina. Það hefur gylltan lit með grábleikum tónum og meðalopna angan sem er býsna sæt og búttuð. Þar má greina niðursoðinn ávaxtakokteil, lyche, rósir, sítrus, fresíur, ananasbúðing og rjóma. Í munni er það tæplega meðalþurrt en er sem betur fer með ágæta sýru og, einsog vant er, endar það í frísklegum og bitrum tónum sem forða vínu frá því að verða yfirþyrmandi og væmið. Það má finna niðursoðna ávexti, peru, sítrus, sítrus, fita, lyche og eitthvað óskilgreint nammi. Þetta er ekki, frekar en venjulega, flókið hvítvín en afskaplega vel gert og matarvænt að auki. Hafið með allskonar mat, forréttum, ljósu fuglakjöti, kæfum (sem má kalla pâté uppá frönsku), bragðmiklum fiski og asískum mat. Svo spillir ekki að vínið hefur lækkað um 200 krónur frá síðasta árgangi. Guð blessi krónuna. Verð kr. 2.499.- Mjög góð kaup”

Willm Gewurztraminer Reserve 2.499 kr 

Vinotek segir;

“Vínhúsið Willm er á vínleiðinni eða Route du vin á milli Strassborgar og Colmar í Alsace í Frakklandi, nánar tiltekið í smábænum Barr. Willm-fjölskyldan, sem þá rak veitingahús í Barr, stofnaði víngerðina 1896 og náði fljótt undraverðum árangri í útflutningi. Gewurztraminer er ein af eðalþrúgum Alsace-héraðsins og eins og nafnið gefur til kynna á hún það til að vera arómatísk og krydduð. Í nefinu sæt og krydduð angan af blóðappelsínum og greipávöxtum, rósum og reykelsi. Þykkt og nokkuð feitt, með sætum, krydduðum ávexti, þurrt með góðri .lifandi sýru. 2499 krónur. Mjög góð kaup. Afbragðsvín með t.d. reyktum lax, austurlenskum mat og fleiru.”

Vicar‘s Choice Sauvignon Blanc 2.499 kr 

Víngarðurinn Vín og Fleira segir;

„Þarna er komið afar dæmigert Sauvignon Blanc frá Nýja-Sjálandi, stútfullt af krydduðum ávexti og sjarmerandi framkomu. Það er ljós-gulgrænt að lit með ríflega meðalopna angan af sítrusávöxtum, stikilsberjum, blautu mjöli, krömdu sólberjalaufi, hvítum blómum og ögn af austurlenskum ávöxtum og aspas. Flott og ferskt. Í munni er það þurrt og sýrurikt með mjög gott jafnvægi og ferskan bragðprófíl þar sem finna má sítrónu, sti…kilsber, greipaldin, læm aspas, peru og austurlenska ávexti. Það endist vel og þótt það sé ekki flókið hefur það skýr upprunaeinkenni og framliggjandi ávöxt sem ég kann vel að meta. Hafið með allskonar bragðmeiri grænmetisréttum, krydduðum fiskréttum og asíska eldhúsinu. Verð kr. 2.499.- Mjög góð kaup.“

Share Post