Mörg af bestu hvítvínum veraldar koma frá Bordeaux-héraði í Vestur-Frakklandi og undantekningarlítið eru þau komin af þrúgunni Sauvignon Blanc. Vín af þessari þrúgu hafa oftast skarpt, frísklegt og grösugt, svo að segja “grænt” bragð. Þar af leiðir að vínin eru oftast best ný og batna ekki tiltakanlega af því að eldast; í stað þess að þroskast og fá margslungnara bragð, þá kemur stundum hálfgerður grænmetiskeimur í vínið, í átt að aspas eða baunum. Þá er betra að njóta þess strax og þá svíkur það ekki. Hugsið þetta eins og IPA-bjóra – semsagt ferskvara sem toppar nánast strax. Hvað matinn varðar þá er Sauvignon Blanc eitt allra besta hvítvínið með sushi, fer fullkomlega með hverskonar fiskréttum og passar betur með geitaosti en nokkuð annað vín, rautt eða hvítt. Loks er Sauvignon Blanc þrúgan á bakvið hin dásamlegu Sauternes sætvín sem eru flestum betri þegar kemur að eftirréttavínum.