Fínlegt og elegant hvítvín frá Chablis

Flestir sem þekkja til franskra vína vita að mörg rómuðustu hvítvín veraldar koma frá Chablis í Frakklandi.  En þaðan koma hvítvín með alveg sérstakan karakter, reyndar einstakan á heimsvísu.  Vínin eru öll úr Chardonnay þrúgunni en vegna staðbundinna aðstæðna búa þau yfir eiginleikum sem önnur hvítvín hafa ekki.  Chardonnay er mjög móttækileg þrúga fyrir staðbundnum áhrifum og karakterinn sem býr í svæðisáhrifum (terroir) Chablis skilar sér með afgerandi hætti í vínin sem þaðan koma.  Nánar um Chablis og leyndardóma jarðvegsins má lesa um hér.

 

Domaine de Malandes er meðalstórt vínhús í Chablis undir stjórn kvenskörungsins Lyne Marchive. En hún hefur rekið víngarðinn sinn allt frá árinu 1972. Lyne er mörgum íslendingum kunngóð enda haldið fjölmargar vínkynningar hér á landi í gegnum tíðina. Vínin hennar eru mjög einkennandi fyrir svæðið, míneralísk, fínleg og elegant í uppbyggingu.

 

Vín vikunnar er að þessu sinni Malandes Petit Chablis en Petit Chablis eru vín úr þrúgum af ytri ekrum héraðsins sem eru jafnframt ódýrari en Chablis og að maður tali nú ekki um Premier Cru og Grand Cru vínin. Frá húsum eins og Malandes eru þetta hins vegar afbragðs vín.

 

Petit Chablis 2013

4star

Domaine de Malandes Petit Chablis 2013 – 4 stjörnur

 

Passar vel með: Skelfiskur, fiskur, kjúklingur og ostar.

Lýsing: Fölgrænt. Létt meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Sítrus, epli, steinefni.

Vinotek segir;

Fölgult og ljóst á lit, tær og skörp angan, sítrusmikil og fersk, sætar ferskjur. Skarpt, fókuserað með góðri, ferskri sýru og seltu í lokin. Mjög góð kaup.

Share Post