Laurent Miquel L‘Artisan Chardonnay 2015 

 

Laurent miquel hvítvín

Vinotek segir;

Laurent Miquel er fjölskyldurekið vínhús í Suður-Frakklandi sítrus og ferskjur sem framleiðir ágætlega traust og fín vín. Artisan-línan eru yfirleitt ung og sýna eiginlega hverrar þrúgu ágætlega. Þetta Chardonnay er fölgult á lit, það hefur komið í smá snertingu við eik en þó ekki mikla, töluverður sítrus í nefi, sítróna og sítrónubörkur, smá nýbökuð jólakaka, ferskt, létt og sumarlegt í munni. 2.199 krónur. Mjög góð kaup. Sem fordrykkur eða með t.d. silung eða skelfiski.

Víngarðurinn segir;

Það eru nokkur vínin frá Laurent Miquel sem hafa komið inn á hið stóra borð Víngarðsins. Þetta tiltekna vín var hér síðast frá árgangnum 2011 (***1/2) og svo allskonar vín önnur, hvít og rauð, meðal annars úr L’Artisan-seríunni en líka Vendanges Nocturnes og svo þau vín sem kallast Clacson. Allt saman vel gerð en tiltölulega ópersónuleg vín frá Languedoc. En verðið er fínt svo það eru nánast alltaf góð kaup í þessum vínum.

Þessi Chardonnay er ljós-gullin að lit með meðalopna angan af soðnum eplum, sætri sítrónu, hunangi, melónu, peru og niðursoðnum ávaxtakokteil. Dæmigert og ekki mjög flókið í nefi. Í munni er það meðalbragðmikið með ferska sýru, gott jafnvægi og lifir ágætlega þótt það sé hvorki flókið né mikið um sig. Þarna eru bragðglefsur af soðnum grænum eplum, sætri sítrónu, læm, hunangi, peru, melónu og hunangi. Það er betra að bera það ekki fram beint úr ísskápnum (það á reyndar við um öll hvítvín). Hafið með forréttum, meðalfeitum fiskréttum og þetta vín er bara fínt eitt og sér.

Verð kr. 2.199.- Mjög góð kaup.

Share Post