Þegar vínáhugafólk ber saman bækur sínar og fer yfir helstu upprunalönd vínsins sem þau kunna helst að meta er líklegt að umræðan fléttist eitthvað á þessa leið; Frakkland er í dálæti, Þýskaland, Spánn og Ítalía koma þar á eftir og svo eiga allir sér eftirlætislönd í þeim samnefnara sem í daglegu tali kallast „nýi heimurinn“ – Bandaríkin, Ástralía, Argentína og Chile, og svo má ekki gleyma Suður-Afríku. En fæstir nefna að líkindum Austurríki. Hvers vegna?
Það er von að fólk spyrji. Austurríki liggur að mörgu leyti á fínasta stað á meginlandi Evrópu og aðstæður til vínræktar og víngerðar kjörnar. Það þarf því ekki að koma á óvart að víngerðarlistin í Austurríki stendur á 4000 ára gömlum merg, sé mið tekið af fornminjum sem þar hafa fundist. Austurríkismenn eru því engir nýgræðingar í gerð vína – sér í lagi eru þeir slyngir við gerð þurra hvítvína – en ýmsar ástæður liggja fyrir því að landið er ekki nefnt í sömu andrá og önnur Evrópulönd. Að minnsta kosti ekki ennþá.
Stærsta ástæðan er sú að í upphafi 20. aldar mörkuðu Austurrískir vínbændur sér þá stefnu að einblína á magnið í framleiðslu sinni en ekki gæðin. Afköstin voru að sönnu töluverð í lítrum talið en fæstum þótti afraksturinn tiltakanlega spennandi enda fór megnið af framleiðslunni til Þýskalands þar sem víninu var blandað við þarlenda framleiðslu. Hélt svo áfram alla öldina uns vatnaskil urðu árið 1985.
Vínin frá Austurríki sem komu á markað upp úr 1980 voru með eindæmum dræm að fyllingu og súr á bragðið. Þá afréðu nokkrir dreifingaraðilar að blanda út í þau efnasambandinu díetýlene glýkól, til að gera þau mildari og sætari á bragðið. Efnasambandið er iðulega að finna í frostlegi og þegar einn íblandarinn sótti um að geta dregið allt íblöndunarefnið frá skatti komst hneykslið upp. Það var fyrir réttum 30 árum síðan, árið 1985. Efnasambandið var í svo litlu magni að það var allsendið meinlaust en það skipti engu – „frostlagarhneykslið“ skók austurríska víngerð svo hrikalega að minnstu munaði að hún legðist af; markaðurinn hrundi gersamlega og margar þjóðir lögðu blátt innflutningsbann á austurrísk vín.
En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott, og reiðarslagið var tímabær ísköld vatnsgusa – eða frostlagargusa, eftir því hvernig á er litið – í andlit víngerðarbransans í Austurríki. Viðbrögðin létu heldur ekki á sér standa. Reglur um víngerð og framleiðslu voru snarhertar og fókusinn fluttist alfarið af magninu og yfir á gæðin, eins og vera ber. Afraksturinn er að finna í mörgum framúrskarandi vínum sem unnendur góðra vína ættu ekki að láta fram hjá sér fara.
Langalgengasta þrúgan í Austurríki er hvítvínsþrúgan Grüner Veltliner en auk hennar ber helst að nefna Welschriesling, Müller-Thurgau og svo Pinot Blanc og Chardonnay. Af rauðum þrúgum er Zweigelt atkvæðamest. Eins og glöggir lesendur kveikja strax á eru þetta ekki þekktustu þrúgunöfnin og það er til marks um hversu margt margir eiga ólært um öndvegisvínin frá Austuríki. Það er alltaf gaman að uppgötva nýtt ræktarland þegar gæðavín eru annars vegar og því rétt að óska áhugasömum til hamingju með tækifærið og um leið óska þeim góðrar skemmtunar við uppgötvunina sem óhjákvæmilegar bíður þeirra framundar.
Fischer Classic Grüner Veltliner 2014
Passar vel með: Skelfiskur, fiskur og grænmetisréttir.
Lýsing: Fölgrænt. Létt fylling, ósætt, fersk sýra. Sítrus, epli.
Vínótek segir:
Vínhús Fischer-fjölskyldunnar er með þeim þekktari í Thermenregion suður af Vínarborg og framleiðir jafnt hin ágætustu hvítvín sem rauðvín. Austurrísk hvítvín eiga sér vaxandi hóp aðdáenda sem hafa uppgötvað ferskleika þeirra og þokka og er þar ekki síst hinni einstöku þrúgu Gruner Veltliner um að þakka. Létt peruangan í nefi, perubrjóstykur og smá lyché, þægilega ferskt, örlítið piprað í lokin. Tilvalið sumarvín með grilluðum fiski eða sem fordrykkur. Mjög góð kaup.
Fischer Classic Blauer Portugieser 2011
Passar vel með: Fiskur, kjúklingur, pasta og grænmetisréttir.
Lýsing: Ljóskirsuberjarautt. Létt fylling, Þurrt, fersk sýra, miðlungstannín. Rauð ber, skógarber, lyng.
Þetta fallega rúbínrauða vín hefur til að bera ákaflega berjaríkt og gott bragð sem gerir það að einkar fjölhæfu matvíni. Það er frábært með pastaréttum og pizzum en hentar einnig einstaklega vel með bragðsterkum fiskréttum og nautapottréttum. Þar sem bragðið er höfugt og margslungið en um leið milt, er kjörið að drekka vínið lítillega kælt í góða veðrinu í sumar.
Vínótek segir:
Austurríki er þekktast fyrir hvítvínin sín en austurrískir víngerðarmenn hafa á undanförnum áratugum verið að færa sig rækilega upp á skaptið í framleiðslu rauðvína. Hér er það þrúgan Blauer Portugieser sem er notuð en hún er aðallega ræktuð í Þýskalandi, Austurríki og Ungverjalandi en upphaflega er talið að hún hafi, líkt og nafið bendir til, komið frá Portúgal. Í Austurríki hefur hún verið ræktuð frá því á átjándu öld. Fischer Blauer Portugieser er vín frá Thermenregion þar sem þrúgan hefur verið ræktuð hvað lengst. Það er fjólublátt á lit, angan af bláberjum, fjólum og kanilstöng, frekar létt og ávaxtaríkt í munni, en leynir á sér í margslunginni bragðdýpt, kryddað, nokkuð tannískt, sem gerir það að góðu matarvíni. Mjög góð kaup.