Bestu vínin með hátíðarmatnum

Jæja, þá er alveg að bresta á jólahátíðinni í öllu sínu veldi. Ef að líkum lætur er undirbúningur á lokastigi, jólatréð skreytt, gjafir komnar í jólapappír og maturinn ákveðinn, ef ekki keyptur nú þegar. Veislurétturinn á aðfangadag er oftast bundinn hefð á hverju heimili, enda er það stór hluti hinnar hátíðlegu stemningar. Öðru máli gegnir með vínið fyrir veisluna – hvað eigum við að bera fram með steikinni í ár? Það fer alveg eftir því hver steikin er. Stundum er valið borðleggjandi og blasir við, og stundum er hin mesta ráðgáta að velja vínið.

 

Hvernig væri að prófa?

Willm Pinot Gris Reserva 2017

Fallega ljósgullið á lit með aðlaðandi ávaxtakeim í nefi. Vottur af hunangi, melónum og keimur af reyktum við kemur við sögu. Vín með mikla fyllingu og hunangskennt með ríkulegan ávöxt sem samsvarar sér frábærlega með hamborgarahryggnum.

Saint Clair Vicar‘s Choice Sauvignon Blanc 2018

Fallega föllímónugrænt á lit með létta meðalfyllingu, ósætt og ferska sýru. Þarna er limebörkur og stikilber og jafnvel smá grænn aspas. Milt og ferskt. Vín með rækjukokteilnum.

Saint Clair Omaka Chardonnay Reserve 2016

Afskaplega vandað vín og mikið vín úr chardonnay þrúgunni, það er fölsítrónugyllt að lit, meðal fyllt og þurrt með fínlegt bragð af ferskju, greip, vanillu og svolítill tertubotn með vott af eik. Vínið parast sérstaklega vel með kúlkúni og einnig með smjörsteiktum humar.

Willm Clos Gaensbrænnel Grand Cru Kirchberg de Barr Gewurztraminer 2014

Sítrónugult. Þétt fylling, smásætt, sýruríkt. Apríkósa, sveppir, hunang, tunna, blómlegt. Flott vín með forréttunum við veisluborðið á þessum árstíma. Með graflaxi, hreindýrapate eða grafinni gæs.

Chateau Lamothe Vincent Heritage 2017

Fallega rúbínrautt á lit með þétt tannín, ferska sýru og ósætt. Eftirbragðið einkennist af dökkum berjum svo sem kirsuberjum, brómberjum og sólberjum, nokkuð áberandi lyngbragði og vottur er af eik. Einstaklega gott vín með léttri villibráð svo sem rjúpu og gæs en einnig hentar það vel með önd.

Muga Reserva 2015 

Ekta jólavín frá Rioja. Vínið er fallega dökkrúbínrautt að lit með þétta fyllingu og ilm af eik og svolitlu spritti. Tannínríkt og ósætt vín með ferska sýru. Í bragði má greina kirsuber, sólber, eik og keim af negul og súkkulaði og vott af tóbaki. Þetta vín parast einstaklega vel með villibráð svo sem rjúpu og hreindýri en það er líka sérstaklega gott með lambi og nautasteik.

Emiliana Coyam 2016

Eðallífrænt ræktað vín frá Síle. Vínið er í góðu jafnvægi með þétta fyllingu og mjúk tannín og nokkuð ferska sýru. Rúbínrautt að lit og ósætt. Í munni má greina bragð af dökkum berjum svo sem bláberjum og plómum en einnig er keimur af jarðarberjum og sætu tóbaki. Frábært vín sem hentar vel með hreindýri.

Imperial Reserva 2015

Eðalvín frá Rioja. Fallega dökkkirsuberjarautt á lit með brúnum tónum, afar milt vín í góðu jafnvægi með þétta fyllingu. Fersk og lifandi sýra, þétt tannín en þroskuð. Langt eftirbragð þar sem greina má þroskuð ber eins og kirsuber og hindber, örlítil eik og tóbak í eftirbragði. Vín sem passar með hreindýri, lambi og nauti og bragðmiklum ostum.

Post Tags
Share Post