Flestir sem á annað borð þekkja sæmilega til franskra vína vita að mörg rómuðustu vínin koma frá Búrgúndarhéraði og þar eru fremst í flokki rauðvín úr Pinot Noir-þrúgunni og hvítvín úr Chardonnay. Þó eru ýmsir sem þekkja í þessu sambandi ekki til Chablis (lesist “sjablí”), en svo nefnist nyrsti hlutinn í Búrgúnd. Þaðan koma hvítvín með alveg sérstakan karakter, reyndar einstakan á heimsvísu. Vínin eru öll úr Chardonnay en vegna staðbundinna aðstæðna búa þau yfir eiginleikum sem önnur hvítvín hafa einfaldlega ekki.
Tölum aðeins um “terroir”
Þrúgan í umræddum hvítvínum eru semsé Chardonnay en vínin gerólík? Jamm, það er einmitt svo og það skrifast á það sem Frakkar kalla “terroir” eða það sem gæti útlagst sem “svæðisáhrif”; það á við jarðveginn, loftslagið, hæð ræktunarlands yfir sjávarmáli og halla þess á móti sólu. Chardonnay er mjög móttækileg þrúga fyrir staðbundnum áhrifum og karakterinn sem býr í svæðisáhrifum Chablis skilar sér með afgerandi hætti í vínin sem þaðan koma.
Hinn eldforni hafsbotn
Jarðvegurinn í Chablis er svokallaður Kimmeridge-jarðvegur. Án þess að fara of djúpt í vísindin að baki nafngiftinni þá merkir það að hann samanstendur af kalksteini, leir og leifum af steingerðum skeljum og þess lags sjávardýrum. Svæðið var nefnilega hafsbotn á forsögulegum tíma og enn þann dag í dag gerist það af og til að við jarðvegsvinnslu skila sér steingervingar upp á yfirborðið. Þetta gerir það að verkum að Chablis er að flestra mati sérstæðasta afbrigðið af Chardonnay og bragðtónar sem finnast þar, finnast einfaldlega ekki í þrúgunni staðar annars.
Loftslagið segir líka sitt
Chablis gefur því uppruna sinn til kynna með afgerandi hætti. Vínin þaðan hafa til að bera steinefnakeim, kalktóna og ávæning af seltu – allt saman beint úr hinum ævagömlu skeljum sem gefa jarðveginum sinn sérstæða karakter. En fleira kemur til. Eins og framar sagði er Chablis-svæðið nyrst í Búrgúnd og því er þar svalara loftslag en víða annars staðar þar sem Chardonnay er ræktað. Það gerir það að verkum að vínin eru léttari og þurrari, þau innihalda yfirleitt meiri sýrni um leið og ávaxtatónarnir sem eru ríkjandi í Chardonny frá hlýjari svæðum láta minna fara fyrir sér. Sítrus-nótur eru algengasti ávaxtakeimurinn í Chablis.
Aðeins toppvínin fara á eik
Auk framangreinds er ástæðan fyrir sérstöðu Chablis-hvítvínanna líka fólgin í vinnslu þeirra. Þar er mest um vert að hvítvínin frá Chablis eru almennt ekki látin gerjast á eikartunnum heldur á stáltönkum. Þar af leiðandi eru vínin ekki eikuð á bragðið, en undantekningarnar eru vönduðustu og bestu vínin, sem fylla svokallaðan Grand Cru-flokk. Þau þykja nægilega margslungin og öflug á bragðið að þau þoli að vera geymd á eikartunnum.
Frábær með ýmsum mat – bara ekki of kalt!
Chablis-hvítvínin eru öðru fremur framúrskarandi skelfiskvín, enda rímar bragðið við þess háttar sjávarfang. Ostrur, hörpudiskur og rækjur fara frábærlega með Chablis, einnig krabbi og annars konar fiskur. Vínið er fínt með kjúklingi og salati sömuleiðis en gætið þess bara að best er Chablis þegar það er borið fram svalt en ekki ískalt. Eftirfarandi eru svo fáeinar tillögur að Chablis sem gaman er að prófa, helst í góðum félagsskap og með góðan mat á borðum.
Hvernig væri að prófa?
Domaine de Malandes Petit Chablis 2013
Passar vel með: Skelfiskur, fiskur, kjúklingur og ostar.
Lýsing: Fölgrænt. Létt meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Sítrus, epli, steinefni.
Vinótek segir:
„Fölgult og ljóst á lit, tær og skörp angan, sítrusmikil og fersk, sætar ferskjur. Skarpt, fókuserað með góðri, ferskri sýru og seltu í lokin. Mjög góð kaup.“
Domaine de Malandes Chablis Premier Cru Vau de Vey 2014
Passar vel með: Skelfiskur, fiskur og grænmetisréttir.
Lýsing: Fölgult. Létt meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Ljós ávöxtur, steinefni, epli.
Vinótek segir:
„Domaine de Malandes er meðalstórt (á mælikvarða svæðisins) vínhús í Chablis undir stjórn kvenskörungsins Lyne Marchive. Vau de Vey er ein af „Premier Cru“-ekrunum í Chablis, þetta er austurhlíð með mjög kalkríkum jarðvegi, ein sú brattasta af Chablis-ekrunum. 2014 var erfiður árgangur víða í Frakklandi, tíðarfarið gerði vínbændum víða erfitt fyrir og haglél eyðilögðu til að mynda uppskeru að stórum hluta á svæðum í Búrgund. Bændurnir í Chablis prísa sig hins vegar sæla því að þeir sluppu vel og náðu flottri uppskeru í hús, árgangurinn flokkast sem hinn prýðilegasti þegar Chablis-vínin eru annars vegar.
Þetta er flott vín frá henni Lyne Marchive, enn ungt, angan vínsins svolítið stíf, sítursmikil, míneralísk, lime og sítrónubörkur í bland við örlítin vott af apríkósu, þarna má líka greina smá reykjarvott enda hefur vínið að hluta legið á tunnu. Fínlegt í allri uppbyggingu, þétt sýra, elegant og flott vín. 3.999 krónur. Mjög góð kaup. Vín fyrir t.d. humar eða góðan þorsk.“