Vinnuvélarnar voru ræstar á landareign Pol Roger vínhússins í ársbyrjun 2018. Fyrirhugaðar framkvæmdir við nýja átöppunarverksmiðju fyrirtækisins kölluðu á nokkuð jarðrask. Og þar sem jarðvinnan var komin af stað uppgötvuðu verktakar á staðnum einskonar holrúm í jarðveginum. Og í jarðveginum sem upp kom með gröfuskóflunum sem unnu sitt verk nokkuð fumlaust fylgdi brotið flöskugler. Og það var gamalt.

Framkvæmdirnar áttu sér stað á svæði þar sem hamfarir höfðu orðið einn votviðrisdag í febrúar, aldamótaárið 1900. Þeir atburðir eru varðveittir í samtímalýsingu blaðsins Le Vigneron Champenois:

„Um klukkan tvö um nóttina vaknaði Maurice Roger og umsjónarmaður vínkjallaranna, M. Leclerc, við lágt hljóð sem svipaði mjög til þrumu. Hljóðið olli þeim þó engum áhyggjum. Tveimur tímum síðar hrukku þeir upp við mun meiri hávaða. Þeir hröðuðu sér á fætur til að kanna hvað hafði gerst og þeim til mikillar undrunar sáu þeir hvaða hörmungar höfðu valdið hljóðinu. Hluti hinna gríðarmiklu kjallara hafði fallið saman, með þeim afleiðingum að tengdar byggingar höfðu hrunið og gjöreyðilagt fullar víntunnur og vínflöskur og búnað ýmiss konar sem þar var geymdur.“

 

Gríðarlegt tjón

Fljótlega varð ljóst að tjónið af völdum hrunsins var gríðarlegt. Ekki aðeins tengt þeim mannvirkjum sem eyddust heldur ekki síður öll sú framleiðsla sem hvarf undir fargið. Þannig var talið að 500 víntunnur og 1,5 milljónir kampavínsflaskna hefðu horfið undir rústir húsanna.

Enn í dag er nokkuð örugg vissa fyrir því að framleiðslan sem þarna hvarf í jörðu hafi í raun og sann eyðilagst. Og glerbrotin sem komu upp með skóflum beltagröfunnar í fyrra voru vitnisburður þar um.

En eftir því sem gröfturinn hélt áfram gerðist það sem enginn hafði séð fyrir. Í ljós kom óbrotin flaska og hún hlaut að vera að minnsta kosti 118 ára gömul. Dagarnir sem á eftir komu urðu nokkuð spennuþrungnari en verktakar og eigendur vínhússins höfðu gert ráð fyrir. Í ljós komu 26 heilar flöskur og þótt enn eigi eftir að „korka“ þær (ná gertappa úr hálsi þeirra og koma korktappa fyrir í flöskuopinu), er ljóst að vínið er drykkjarhæft og um leið einstakt sökum aldurs síns.

Ljóst er að forsvarsmenn fyrirtækisins hafa ekki getað stillt sig alveg um að kanna innihald flasknanna. Þannig sagði Dominique Demarville, kjallarameistari Veuve Clicquot vínshússins, sem fékk að dreypa á víninu, að sætleiki þess og ferskleiki hefði komið honum skemmtilega á óvart. Þá ilmaði vínið af dýrum, sveppum og osti við fyrstu kynni en eftir nokkra snertingu við súrefni hefði vínið tekið sig vel og blómailmur mikill stigið af því.

 

 

Getur varðveist ótrúlega vel

Fleiri dæmi eru til um að fornar flöskur af þessu tagi finnist og séu í drykkjarhæfu ástandi. Það átti t.d. við um 145 flöskur sem fundust á hafsbotni úti fyrir Álandseyjum árið 2010. Sumar þeirra voru nærri 200 ára gamlar en sökum þrýstings og kulda höfðu þær, ásamt innihaldi, varðveist ótrúlega vel.

Hversu gamlar eru þær?

Flöskurnar sem gröfumennirnir höfðu upp úr krafsinu eru eðli máls samkvæmt ómerktar enda voru þær aðeins komnar hálfa leið í framleiðsluferlinu þegar allt keyrði um koll aldamótaárið 1900. Sérfræðingar vínhússins segja hins vegar að þær geti verið afsprengi framleiðslu fyrirtækisins frá 1887 og allt til 1898. Úr því verður aldrei skorið og dregur í raun ekki úr sérstöðu flaskanna.

Enn skal leitað

Örðugt reyndist að halda leit að fleiri flöskum áfram á síðasta ári og töldu sérfræðingar ekki hættulaust að senda menn dýpra ofan í jörðina. Þannig var síðasta ár nýtt til þess að hafa uppi á sérfræðingum sem leyst gátu öryggisvandann og þannig tryggt áframhaldandi leit að hinum verðmætu veigum. Laurent d’Harcourt, stjórnarformaður Pol Roger, sagði í samtali við fréttaveituna The Drinks Business að líkur væru á að fleiri heilar flöskur myndu koma í ljós ef leitinni yrði haldið áfram. Og þannig hefur fyrirtækið á síðustu mánuðum unnið að því að tryggja betur veggi bygginga á svæðinu, einkum vínkjallaranna, og í kjölfarið er stefnt að því að beina fjarstýrðum róbótum inn í þau rými sem í ljós koma og láta þá „grafast fyrir um“ hvort vonir forsvarsmanna vínhússins séu á rökum reistar eða ekki.

Með níu milljón flöskur í kjöllurum sínum

Pol Roger er meðal þekktustu kampavínsframleiðenda heims og vínið nýtur gríðarlegra vinsælda í Bretlandi. Því ræður meðal annars sú staðreynd að vínið var í miklu uppáhaldi hjá Winston Churchill. Hann pantaði fyrstu flöskuna frá húsinu árið 1908 og segir sagan að það hafi reynst ást við fyrstu sýn. Þegar hann lést í ársbyrjun 1965 tóku forsvarsmenn vínhússins, sem voru persónulegir vinir forsætisráðherrans fyrrverandi, ákvörðun um að allir kassar sem geymdu árgangsframleiðslu þeirra og fluttir voru til Bretlands það ár skyldu sveipaðir sorgarböndum.

 

 

Í dag framleiðir fyrirtækið um 1,6 milljónir flaskna á ári hverju og á hverjum tíma eru um 9 milljónir flaskna í geymslum fyrirtækisins. Af heildarsölu fyrirtækisins fara um 300 þúsund flöskur til Bretlands ár hvert en aðrir sterkir markaðir eru m.a. ríki Norðurlanda. Enn hefur ekki verið gefið upp hvað verður um hinar endurheimtu flöskur en ósennilegt má telja að verðið á þeim verði viðráðanlegt venjulegu fólki. Flestir munu aðeins láta sig dreyma um hvernig ríflega aldar gamalt kampavín smakkast í raun og veru.

 

 

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Höfundur: Stefán Einar Stefánsson