Fjölbreytt og firnagóð – vínin frá Glen Carlou
Sú var tíðin að það þótti viss áhætta að kaupa vín frá þeim löndum sem kölluðust einu nafni “nýi heimurinn”. Þau lönd voru – eðli máls samkvæmt – þau sem ekki tilheyrðu gömlu, rótgrónu vínræktarlöndunum. Frakkland bar Ægishjálm yfir önnur þegar öndvegisvín voru annars vegar, á eftir komu Ítalía, einkum fyrir rauðvín og Þýskaland, fyrir hvítvín. Spánn og Portúgal fylgdu á eftir. Annað þótti ekki eins fínt og spennublandin ánægja að prófa eitthvað annars staðar frá; fékk maður eitthvað nýtt og spennandi eða köttinn í sekknum, eða réttara sagt flöskunni?
Víngerð í Suður-Afríku kemst á legg
Í dag er öldin önnur og úrvalsvín má fá frá öllum þeim löndum sem í eina tíð töldust eftirbátar hinna hefðbundnu framleiðslulanda frá Evrópu. Hvort heldur um ræðir lönd í Suður-Ameríku, Ástralíu og Nýja Sjálandi, Kaliforníu og síðast en ekki síst – Suður Afríku – þá má finna þar framúrskarandi vín sem standa gamla heiminum fyllilega á sporði. Við ætlum að líta við á síðasttalda svæðinu, nánar tiltekið hjá framleiðanda að nafni Glen Carlou. Eins og margir aðrir framleiðendur hágæðavína þar í landi er fyrirtækið tiltölulega ungt, stofnað árið 1985. Helgast það af því að framan af 20 öld átti víngerð ákaflega erfitt uppdráttar í Suður-Afríku, einkum og sér í lagi vegna aðskilnaðarstefnunnar. Hún varð þess valdandi að fjölmörg ríki kusu að eiga ekki í viðskiptum við landið, vínframleiðendur þar með talda. En þegar aðskilnaðarstefnan leið undir lok fór hagur víngerðar í Suður-Afríku heldur betur að vænkast. Helstu víngerðarsvæðin í dag eru staðsett í námunda við Höfðaborg og nefnast það Paarl, Worcester og Stellenbosch. Glen Carlou er einmitt staðsett í því fyrstnefnda, nánar tiltekið á besta stað við rætur Simonsberg-fjalls.
Kjöraðstæður fyrir klassavín
Í Paarl-dalnum eru sannkallaður kjöaðstæður til víngerðar, enda má lýsa veðurfarinu sem Miðjarðarhafsloftslagi, hlýtt og milt, þar sem sumrin eru heit og þurr, veturnir kaldir og votviðrasamir. Í ofanálag nýtur dalurinn skjóls frá fjöllunum í kring ásamt því að jarðvegurinn er ríkur af næringarefnum. Úr verða fádæma góðar aðstæður til víngerðar þar sem afraksturinn er bragðmikið vín sem endurspegla sterk sérkenni héraðsins. Vínekrur Glen Carlou gefa af sér bæði rauðvín og hvítvín, auk rósavíns og sætvíns, og meðal þrúgna sem þar er að finna eru hvítar Sauvignon Blanc, Chardonnay, Chenin Blanc og Viognier, og svo rauðar Shiraz, Mourvèdre, Cabernet Sauvignon, Pinot Noir og Merlot. Framleiðendur Glen Carlou skipta vínum sínum í fjóra mismunandi flokka: Classic Collection er stærsti flokkurinn og inniheldur margs konar vín sem seld eru víða um heim;
The Curator’s Collection er sérflokkur vína sem aðeins eru fáanleg til kaups á vínekrunni sjálfri, á veitingastaðnum sem þar er rekinn og í gegnum vínklúbb Glen Carlou; Haven er svo sérflokkur vína sem aðeins eru fáanleg í Evrópu og loks er Prestige Collection úrvalsflokkur allra bestu vínanna sem aðeins eru búin til handtíndum þrúgum þau árin þegar aðstæður eru algerlega framúrskarandi.
Samfélagleg ábyrgð og umhverfisvitund
Yfirmenn og eigendur Glen Carlou hafa um langt árabil lagt áherslu á það að leyfa starfsfólki sínu og nærumhverfi að njóta velgengni fyrirtækisins. Þannig styrkir fyrirtækið starfsfólk til að eignast sitt eigið húsnæði í bænum Klapmuts, sem er í nágrenni við Paarl-dalinn. Þar starfrækir Glen Carlou einnig sérstakan styrktarsjóð sem sér til þess að öll skólabörn bæjarins fái eina staðgóða máltíð í skólanum dag hvern. Þá styður fyrirtækið myndarlega við barnaverndarverkefnið Streetsmart sem styður við börn sem eiga ekki í örugg hús að venda.
Þá líta eigendur Glen Carlou svo á að vera ekki eigendur í eigilegri merkingu heldur aðeins gæsluaðilar landsins uns næsta kynslóð tekur við því. Fyrirtækið skartar þar af leiðandi vottuninni The Integrity & Sustainability Seal síðan 2009, enda sjálfbærni og virðing fyrir umhverfinu í hvívetna fyrirtækinu að leiðarljósi.
Opið fyrir heimsóknir – kíktu við!
Glen Carlou leggur ríka áherslu á góðar móttökur fyrir áhugasama gesti, og býður bæði upp á skoðunarferðir, vínsmökkun og svo heimsóknir á veitingastaðinn sem rekinn er í móttökuhúsi aðalstöðvanna, en veitingastaðurinn er opinn sjö daga vikunnar.
Þá er gríðarmikið listasafn til húsa í aðalbyggingunni þar sem gefur að líta nútímalist sem og klassískari verk eftir nokkra helstu listamenn Suður Afríku, bæði ljósmyndir, leirlist, innsetningar og höggmyndir.
Fyrir þá sem vilja slaka almennilega á meðan á heimsókninni stendur skal bent á að við aðalbygginguna er að finna svokallað kyrrðargarð eða Zen Garden. Þar má fá sér stuttan göngutúr án nokkurs ónæðis eða tengsla við umheiminn. Ekkert nema fullkomin slökun. Allar nánari upplýsingar um þá gestrisni sem í boði er hjá Glen Carlou má finna á heimasíðu fyrirtækisins.
Hvernig væri að prófa?
Glen Carlou Haven Chardonnay 2014
Ljóssítrónugult. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Sítrus, hýði, eik. Passar vel með skelfisk, pasta- og grænmetisréttum. Verð. 2.199 kr.
Glen Carlou Haven Cabernet Sauvignon 2014
Kirsuberjarautt. Mjúk meðalfylling, ósætt, fersk sýra, mild tannín. Sólber, kirsuber, jörð, tunna. Passar vel með nautakjöti, lambi og grilluðu kjöti. Verð 2.199 kr.