Ítölsk matargerð er með þeim vinsælli á heimsvísu og óþarfi að fjölyrða um útbreiðslu pizzunnar og ótal afbrigða af pastaréttum – og er þá fátt eitt upptalið. Stór hluti aðdráttaraflsins sem hið ítalska eldhús hefur á sælkera um víða veröld eru vínin, en ítölsk vín eru geysivinsæl enda heilt yfir aðgengileg á bragðið og mörg hver framúrskarandi matvín.
Ein mesta vínþjóð heims
Fyrir bragðið er Ítalía stærsta útflutningsland veraldar þegar vín eru annars vegar, í öðru sæti yfir magn framleidds víns ásamt því að Ítalir eru í fimmta sæti yfir þær þjóðir sem mest drekka af léttvínum, með 42 lítra á hvern íbúa árlega. Ekki að furða að vín er ræktað nærfellt í hverju einasta héraði landsins.
Saga sem nær aftur til Rómverja
Rómverjar til forna voru slyngir víngerðarmenn og voru frumherjar á ýmsa lund þegar þeir fengust við víngerðarlistina. Þeir þróuðu vínekrur til magnframleiðslu og voru í fararbroddi við að finna geymsluaðferðir. Bæði tunnugerðin og geymsla á flöskum er að miklu leyti eignuð þeim. Það er því ekki að furða að Ítalir vita hvað þeir syngja þegar víngerð er annars vegar; landið er bókstaflega hokið af reynslu á þessu sviði.
Vínflokkarnir fjórir
Fyrir næstum 55 árum síðan, árið 1963, var svo loks komið á sérstöku flokkunarkerfi yfir ítölsk vín til að aðgreina þau með tilliti til gæða. Flokkarnir eru sem hér segir:
Vino di Tavola – almennur flokkur sem mega vera framleidd hvar sem er innan Evrópusambandsins. Ekkert sérstakt upprunaland er tilgreint, né heldur tegund þrúgna eða árgangur. Merkimiðinn tilgreinir eingöngu lit vínsins. Borðvín.
Vini Varietali – almennur flokkur þar sem vínin eru þó því skilyrði háð að samanstanda að minnsta kosti að 85% úr ýmist Cabernet Franc, Cabernet Sauvignon, Chardonnay, Merlot, Sauvignon Blanc eða Syrah, eða þá samanstanda að öllu leyti úr tveimur eða fleiri framangreindra þrúgna. Ekki má tilgreina framleiðsluland en vínið þarf að vera framleitt innan Evrópusambandsins.
Vini IGT – sértækur flokkur vína sem framleidd eru í tilteknu héraði samkvæmt ákveðnum reglum varðandi þrúgur, ræktun þeirra, framleiðslu vínsins, merkingar á miða og svo framvegis.
Vini DOP – úrvalsflokkur vína sem skiptist í Vini DOC og Vini DOCG. Þessi vín koma yfirleitt frá litlu héraði sem býr að sérlega hagstæðum jarðvegi og veðurfari og er rómað fyrir gæði. Í þennan flokk komast vín ekki nema þau hafi verið Vini IPG í minnst 5 ár fyrst. Vín þarf svo að vera í minnst 10 ár DOG flokki til að komast í DOCG flokkinn, en til að komast þangað þarf meðal annars að standast bragðprófun hjá sérstaklega skipaðri nefnd. Það er til marks um kröfurnar að árið 2016 voru 332 DOC vín framleidd á Ítalíu og aðeins 73 DOCG.
Frá norðri til suðurs
Eins og gefur að skilja rækta vínbændur á Ítalíu mismunandi þrúgur í mismunandi héruðum. Hvað rauðvín varðar er í norðri mikið ræktað úr Barbera, Barolo og Nebbiolo, í Toscana er Sangiovese allsráðandi og gefur hún af sér hin heimsfrægu Chianti-vín. Suður á Sikiley má finna úrvalsvín úr Nero d-Avola þrúgunni. Af öðrum má nefna Montepulciano og Primitivo, en sú síðastnefnda er systurþrúga Zinfandel og nánast eins. Af hvítvínsþrúgum er Pinot Grigio einna þekktust en Chardonnay er einnig ræktuð víða um landið.
Hvernig væri að prófa þessi gæðavín frá Ítalíu?
Lamberti Pinot Grigio 2015
Víngarðurinn Vín og fleira segir;
Þessi Pinot Grigio kemur frá Norður-Ítalíu, nánar tiltekið innan þess svæðis sem við þekkjum sem Veneto (svæðið frá Garda-vatninu að Feneyjum), en þar sem Pinot Grigio er ekki leyfð í Veneto-vín verður að skilgreina þetta vín sem IGT Delle Venezia. Sem breytir í sjálfu sér afar litlu fyrir okkur neytendur. Það hefur strágulan lit með grænni slikju og meðalopna angan sem er bæði fersk og ungleg. Þarna eru perur, sætir sítrustónar, hv…ít blóm, nektarína og feitlagnir vax-tónar. Það er meðalbragðmikið með góða sýru og fremur einfaldan ávöxt og lengdin er ekkert til að hrópa húrra fyrir þótt það sé bara ágætt meðan það staldrar við. Það má finna í því peru, sítrusávexti, nektarínu og einhverja mjólkurfitu. Vel gert en ekkert gríðarlega persónulegt hvítvín sem er ágætt eitt og sér en er líka fínt með ýmsum forréttum, léttum fiskréttum, ljósu pasta og svoleiðis. Svona vín verða að vera eins ung og hægt er og ekki láta ykkur dreyma um að velja vín sem er orðið meira en 3 ára gamalt. Verð kr. 1.799.- Góð kaup.
Melini Governo All’uso Toscano Chianti 2013
Víngarðurinn Vín og Fleira segir;
Það er alltaf gaman að fá gott Chianti-vín og sérstaklega þegar þau eru vel prísuð en þetta hér fær eiginlega hálfa stjörnu í viðbót fyrir frábært verð á svona góðu víni. Það hefur meðaldjúpan rúbínrauðan lit og meðalopna og dæmigerða angan af kirsuberjum, leðri, beiskum möndlum, lakkrís, sultuðum krækiberjum, þurrkuðum appelsínuberki, og jörð. Það er meðalbragðmikið og þurrt með góða sýru og ágæta fyllingu en tannínin eru ögn hrjúf sem dregur það pínulítið niður. Þarna eru kirsuber, krækiberjahlaup, lakkrís, kakó, þurrkaðar fíkjur og jörð. Dæmigert og fínt vín þótt það sé kannski ekki það flóknasta og þykkasta sem hægt er að finna, en þessvegna er kannski auðveldara að finna mat sem stendur með því. Allskonar ítalskur matur klikkar ekki td dökkt pasta, hægeldað svínakjöt og lamb. Verð kr. 2.299.- Frábær kaup.
Rivetto Barbera d’Alba Nemes 2013
Víngarðurinn og fleira segir;
Þótt þrúgan Nebbiolo sé stolt Piemonte (úr henni eru td gerð Barolo og Barbaresco-vínin) þá er þrúgan Barbera útbreiddari á þessum slóðum og jafnvel þótt vínin sem úr henni eru brugguð séu alla jafna ekki eins glæsileg og hin fyrrnefndu vín, þá hafa þau mikla persónutöfra, eru matarvæn og auðskilin og þroskast auðvitað miklu fyrr en vín úr Nebbiolo.
Fá, ef nokkur vín á jarðarkringlunni, geta sameinað svona vel í einni flösku rauðan og bjartan ávöxt, djúpa kryddtóna og frískandi sýru einsog vín úr Barbera. Vissulega geta vín úr þrúgu einsog Montepulciano d’Abruzzo haft viðlíka matarmikla og munnvatnslosandi eiginleika, en Barbera er, þegar hún er í toppformi, einhver skemmtilegasta ítalska þrúgan að mínu mati.
Og þetta vín svíkur engan. Það hefur meðaldjúpan, fjólurauðan lit og meðalopinn og margslunginn ilm sem gaman er að bera uppað nefinu. Þarna má greina hindber, kirsuber, negul, pipar, beiskar möndlur, sultuð dökk ber, plómu, þurrkaðan appelsínubörk og píputóbak.
Í munni er það sýruríkt með fullt af flottum tannínum og langan hala. Þarna eru hindber, kirsuber, plóma, lakkrís, Mon-Chéri molar, mild eik og þurrkaðir ávextir. Sýran minnir að mörgu leiti á appelsínur eða sítrónur og undirstrikar þennan skemmtilega súr-sæta ávöxt sem er svo óviðjafnanlega frískandi. Hafið þetta með allskonar dökku pasta, rauðu kjöti og það þolir vel kryddaðan mat.
Verð kr. 3.499.- Mjög góð kaup.
Vinotek segir;
Nemes er eitt af toppvínunum frá Rivetto-fjölskyldunni í Piemont á Ítalíu. Vínhúsið er til húsa í þorpinu Serralunga d’Alba hátt uppi á hæð sem horfir yfir hjarta Barolo-svæðisins í Langhe í Piemont. Fallega fjólublátt. Í nefi fjólur, kröftug kirsuberjaangan, krækiber, vottur af menthol, þurrt og kryddað í munni, þykkt, þægilega tannískt. 3.490 krónur. Frábær kaup. Yndislegt matarvín. Reynið með bragðmiklu svepparisotto eða mildri villibráð.
Dievole Chianti Classico 2014
Víngarðurinn Vín Og Fleira segir;
Rúmlega 10 kílómetrum fyrir norðan Siena, í hjarta Chianti Classico-svæðisins er víngerðin Dievole til húsa. Þar gera menn allskonar vín og meðal annara þetta hér, Chianti Classico (það var einu sinni með öðrum flöskumiða en ég man ekki hvort hann breyttist 2012 eða 2013 og hét áður La Vendimia).Þetta er klassískur Chianti (nema hvað, þetta er Chianti Classico!) með rétt ríflega meðaldjúpan lit af svörtum kirsuberjum og dæmigert, meðalopi…ð nef þar sem finna má kirsuber, fjólur, leður, lakkrís, lyng, heybagga, eikartunnur og steinefni. Í munni er það þurrt, með góða sýru, fínt jafnvægi og tiltölulega mjúk tannín. Þarna má greina svört kirsuber, brómber, lakkrís, lyng, kakó og örlitíð af eikartunnum. Aðgengilegt og afar vel gert Chianti-vín sem slagar hátt í fjórar og hálfa stjörnu, enda árgangurinn alveg ágætur á þessum slóðum. Hafið með betra lambakjöti og öðru rauðu kjöti, fínni pastasósum og hörðum ostum. Verð kr. 2.999.- MJög góð kaup.