Lamothe-Vincent: Undir handleiðslu verndardýrlings

Saga víngerðarinnar Lamothe-Vincent í Bordeaux-héraði Frakklands nær aftur til seinni hluta 19. aldar þegar langafi núverandi stjórnenda keypti sína fyrstu landspildu til að leggja undir vínrækt og víngerð. Það var árið 1873. Áratugum síðar, árið 1920, keypti svo langamman annan skika. Þau ræktuðu sitt land með sóma og gerðu sitt besta til að draga fram sérkenni vínsins sem var afrakstur ræktunarinnar, til að ljá víni sínu sérstöðu í augum neytenda. Ekki grunaði þau skötuhjúin að í fyllingu tímans myndi sameining á þrúgum af hvoru svæði fyrir sig leiða til enn betra víns, en það er einmitt það sem gerðist árið 1969.

 

Áhættusamt en árangursríkt

Kröfuharðir vínkaupmenn Bordeaux féllu þegar í stafi fyrir framúrskarandi víninu sem kom frá Lamothe-Vincent, og var afurð tveggja svæða, og síðan hefur víngerðin ekki litið um öxl; rétta formúlan var fundin. Mörgum þótti það hreint glapræði að rugga bátnum með þessum hætti, þ.e. að blanda saman tveimur afurðum mismunandi ræktunarsvæða sem ræktuð höfðu verið upp af alúð og umhyggju. En þegar hið nýja vín leit dags ljós árið 1969 settu menn í brýrnar og viðurkenndu svo að áhyggjur hefðu allar verið ástæðulausar; þetta nýja vín frá Lamothe-Vincent var dásamlegt. Stundum má víst segja sem svo að 1 + 1 = 3.

Er dýrlingur með í spilinu?

Nafn vínhússins vakti athygli sumra í þessu sambandi og haft var á orði að líklega væri fyrirtækið undir handleiðslu og blessun Heilags Vincents, sem er einmitt verndardýrðlingur vínbænda. Það skyldi þó aldrei vera? Það myndi að minnsta kosti útskýra velgengni fyrirtækisins og framúrskarandi gæði vínsins sem þar verður til.

Í dag eru það barna-barnabörn frumherjanna – nánar tiltekið þeir Christophe Vincent og Fabien Vincent – sem halda merki Lamothe-Vincent á lofti. Þeir eru hálærðir báðir tveir (Christophe hóf störf á vínekrunni 12 ára gamall og hefur numið nánast allt sem hægt er á sviði vínræktunar og víngerðar. Fabien er með meistaragráðu í lífefnafræði) og að þeirra sögn er lykillin að gæðum og velgengni vínhússins sá að flétta saman hefðir og verklag frá því á þar-síðustu öld, saman við nýjustu tækni og nútíma vísindi.

 

Ræktað í sátt við náttúru og land

Þeir Christophe og Fabien vita sem er að útilokað er að framleiða fyrsta flokks vín nema rækta fyrsta flokks þrúgur til að byrja með. Þar hafa þeir litið til aðferða sem forfeðurnir notuðu. Náttúrulegar aðgerðir eru í algeru öndvegi og Chateau Vincent-Lamothe var árið 2013 sæmd viðurkenningunni og heiðursnafnbótinni High Environmental Value Farm er það er æðsta viðurkenning sem hægt er að hljóta á sviðið umhverfisvænnar jarðræktar og er veitt af AFNOR (Association Française de Normalisation) sem er nokkurs konar staðlaráð Frakklands. Eingöngu lífrænn áburður, ófrávíkjanleg skrásetning og gagnsæi í gegnum allt framleiðsluferið og fleira í þeim dúr er hluti af verklaginu hjá Lamothe-Vincent, ásamt því að takmarka þéttleika ræktunarinnar við 4000  vínviðvarplöntur á hvern hvern hektara til að bæta ræktunarskilyrðin og fá betri uppskeru. Ný víngerðarhús voru reist á landareign fyrirtækisins árin 2000 og svo 2016 og þar er kjörorðin “hámarks hreinlæti, lágmarks inngrip.” Til marks um metnaðinn er að við uppskeru þarf hver klasi af vínberjum að vera kominn á víngerðartank innan klukkustundar frá því hann er skorinn af vínviðnum.

 

Mismunandi leiðir að frábærum árangri

Chateau Lamothe-Vincent framleiðir rautt, hvítt og rósavín (eða bleikvín, eins og það ætti með réttu að heita). Rauðvínin eru mismunandi samsett; rauðvínin í Tradition-línunni er framleitt úr 80% Merlot,  15% Cabernet-Sauvignon og 5% Cabernet-Franc. Intense-línan er 60% Merlot og 40% Cabernet-Sauvignon, og loks má telja flaggskipið, Les Crus Supérieur Red Le Grand Rossignol, sem 100% Merlot. Hvítvínin eru ýmist blöndur af Sauvignon-Blanc og Sémillon þrúgunum eða alfarið úr Sauvignon-Blanc. Öll eiga vínin það þó sameiginlegt að vera leyndardómsfull samkrull þrúgna af tveimur vínsvæðum í Bordeaux-héraði.

Það er því óhætt að halda því fram að þar sem tvö framúrskarandi vínræktarsvæði fara saman, þar er gaman.

 

Hvernig væri að prófa?

Chateau Lamothe Vincent Heritage

Rúbínrautt. Þétt fylling, ósætt, fersk sýra, þétt tannín. Dökk ber, barkarkrydd, kaffi, eik.

 

Passar vel með nautakjöti, lambakjöti, ostum og pottréttum.

 

Chateau Lamothe Vincent Sauvignon

Föllímónugrænt. Létt meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Sólberjalauf, sítrus. Grösugt.

 

 

Passar vel með Sushi, fiskréttum, grænmetisréttum og smáréttum.

Share Post