Margarita – Drottning samkvæmislífsins
Þessi fyrirsögn gæti sem best átt við sjálfan kokteilinn sem hér er til umfjöllunar, enda er Margarita þekkt sem hið besta eldsneyti fyrir hvers kyns mannfagnaði. Í reynd er þó verið að vísa til konunnar sem drykkurinn heitir eftir, því hún var sannarlega til. Hún hét Margaret Sames, kölluð Margarita, og var það sem kallast á ensku socialite. Þar er átt við samkvæmisljón sem þekkti fræga fólkið, hélt veislur í heimaborg sinni, Acapulco, sem voru goðsagnakenndar fyrir lúxus og glamúr og var stöðugt á síðum dagblaða og tímarita sem gerðu lífsstíl hinna ríku og frægu skil. Í þá daga var Kyrrahafsströnd Mexíkó fastur viðkomustaður þotuliðsins (það nafn kom reyndar seinna, enda farþegarþotur ekki enn komnar í almenna notkun) og Acapulco var miðstöð ljúfa lífsins. Árið 1948 hóf frú Sames að bjóða gestum sínum upp á ómótstæðilega bragðgóðan drykk, sem hún kallaði einfaldlega „The Drink“ en drykkurinn sá átti fljótlega eftir að fá nýtt og betra nafn.
Leyndarmálið kvisast út
Drykkurinn í veislum Margaret Sames sló í gegn og gestir hennar fengu bara ekki nóg af þessum framúrsskarandi bragðgóða kokteil sem fór svo dásamlega vel við safírbláan sæinn og heiðan himinn. Þegar Bill, eiginmaður Margaret, færði henni kampavínsglasasett að gjöf með gælunafninu Margarita grafið í kristalinn, tók það nafnið ekki langan tíma að festast við drykkinn. Gestirnir dreyptu á, urðu dreymnir á svip af vellíðan, litu á glasið og sögðu hver við annan, „ég er að elska þessa Margaritu!“. Til að byrja með stóð alls ekki til af hálfu Margaret Sames að dreifa húskokteilnum út fyrir höllina hennar, en frægir gestir – þeirra á meðal Hollywood-stjarnan John Wayne – tóku leyndarmálið með sér heim til Bandaríkjanna og skiljanlega sló drykkurinn í gegn, hvarvetna sem hann var hristur fyrir hressa gesti. Nú skildi fólk víða um lönd loksins hvernig partýin hennar Margaret Sames gátu staðið yfir dögum saman. Margarita hélt þeim gangandi.
Verður að vera Cointreau
Uppskriftin að hinni dásamlegu Margaritu reyndist einfaldari en flesta grunaði og var það ekki minnsta ástæðan fyrir því hve vinsæll drykkurinn varð og hefur verið síðan. Ótal útfærslur eru til þar sem bragðið er tekið í hinar og þessar áttir, en eitt eiga alvöru Margaritur sameiginlegt: Cointreau. Hin þrjú innihaldsefnin – ljóst tequila, lime-safi og salt á glasabarminn – eru hlutir sem hægt er að leika sér með og útfæra á ýmsa vegu, en enginn skyldi hrófla við kjarna málsins, hinum víðfræga franska appelsínulíkjör. Cointreau hefur ótvíræð áhrif á þau hanastél sem hann er blandaður í, og Margarita verður í senn ferskari á bragðið, bragðmeiri og í betra jafnvægi milli sætu og sýrni. Hinn frískandi appelsínukeimur Cointreau gefur ávaxtatón sem engin leið er að fá annars staðar frá. Frú Margaret Sames áttaði sig fljótlega á þessu lykilatriði og til er fræg tilvitnun þar sem hún segir: „Margarita án Cointreau er ekki saltsins virði.“
Upprunalega Margaritan
Sem fyrr segir eru ótal spennandi leiðir til að galdra fram Margaritu og á heimasíðu Cointreau er að finna um 30 mismunandi uppskriftir. En upphaf alls þessa er hin upprunalega Margarita, drykkurinn sem drottning samkvæmislífsins í Acapulco, Margaret Sames, hóf að bjóða gestum sínum við sundlaugarbakkann sumarið 1948. Hér gefur að líta uppskriftina að drykknum sem er í dag vinsælasti kokteill Bandaríkjanna.
Margarita
30 ml Cointreau
60 ml tequila blanco
20 ml ferskur limesafi
vandað flögusalt
limesneið
1. Setjið vökvana þrjá í kokteilhristara
2. Bætið við ísmolum og hristið þangað til vel kalt
3. Hellið gegnum sigti í martini-glas með salti á barminum