Það er kunnara en frá þurfi að segja að G&T er í senn einn sígildasti og vinsælasti kokteill veraldar og það á heldur betur líka við hér á landi. Ekki nóg með að hann sé tiltölulega auðveldur að útbúa, heldur er hann sérlega frískandi og svalandi, nokkuð sem er vel þegar aðrir eins sumarhitar og sólskin leikur við landsmenn. Gin, gott tónikvatn, nóg af klökum, sneið af sítrusávexti og málið er klárt.
Eða hvað?! Þarna þarf samt sem áður að staldra aðeins við, því viti menn – gin er ekki bara gin. Kokteill verður aldrei betri en hráefnið sem í hann fer og eigi G&T að vera framúrskarandi þarf aðalatriðið, sjálft ginið, að vera það líka og það er ginið frá Martin Miller’s svo sannarlega. Ekki bara af því við segjum það heldur af því ekkert gin í veröldinni hefur hlotið jafnmargar alþjóðlegar viðurkenningar síðustu 10 árin og Martin Miller’s.
Það er í þessu sambandi gaman að geta þess að umrætt gin væri ekki til ef ekki væri fyrir landið okkar, Ísland. Ástæðan er sú að frumkvöðullinn og lífskúnstnerinn sem setti ginið á markað árið 1999, sjálfur Martin Miller, var alveg gallharður á því að eina leiðin til að búa til besta gin í heimi væri að nota íslenskt vatn. Martin benti á að vatnið sem væri notað í annað gin væri afjónað (e. demineralised), þ.e. fullhreinsað af steinefnum, og slíkt vatn væri dautt vatn. Íslenska vatnið væri einstakt í veröldinni sakir hreinleika og steinefnainnihalds. Ef meiningin væri að búa til besta gin í heimi væri grundvallaratriði að nota besta vatn í heimi. Vatnið sem notað er í Martin Miller’s kemur frá uppsprettu í Borgarfirðinum, og þegar spurt er hvort hr. Miller hafi haft rétt fyrir sér þarf ekki annað en að líta yfir alla þá tugi alþjóðlegra verðlauna sem ginið hefur hlotið undanfarinn áratug.
Þessi íslenski vinkill vakti áhuga okkar svo við ákvaðum að spjalla aðeins við höfðingjana hjá Martin Miller’s og fræðast aðeins um þetta afburða gin. Fyrir svörum varð Robert Stephen Eastham, eða Bob eins og hann er kallaður, og það kom á daginn að hin íslenska tenging lifir góðu lífi hjá fyrirtækinu. Bob er mjög meðvitaður um nauðsyn þess að nota eingöngu íslenskt vatn í Martin Miller’s Gin.
Ruddi brautina fyrir handverksbylgjuna
Með stofnun fyrirtækisins árið 1999 má kannski segja að Martin Miller’s Gin hafi verið á undan handverksbylgjunni sem hefur tröllriðið heimi sterks áfengis síðustu 20 árin eða svo. Þannig hafi hið ósveigjanlega skilyrði fyrirtækisins að stefna ávallt á bestu mögulegu gæði við framleiðsluna á sinn hátt ef til vill orðið öðrum gintegundum innblástur, jafnvel öðrum tegundum sterks áfengis. Bob tekur heilshugar undir þetta.
„Algerlega. Það má segja að Martin Miller’s Gin hafi verið upphafið að endurreisn ginsins sem við höfum verið að sjá hin seinni ár því við hittum stöðugt handverksframleiðendur gins sem segjast fyrst hafa uppgötvað nútíma hágæða gin gegnum okkur. Martin Miller’s Gin veitir fólki greinilega innblástur til að gera það sem áður var talið ómögulegt, reyna nýjar aðferðir og fara ótroðnar slóðir.“
Enginn afsláttur – íslenskt skal það vera!
Martin Miller sjálfur – sem féll frá árið 2013 – var augljóslega lífskúnstner af lífi og sál, knúinn af þrá eftir því að njóta hins besta í hvívetna. Ákvörðun hans, að nota íslenskt vatn í ginið, rímar greinilega við karakterinn og þá nálgun að gera aldrei málamiðlanir í leit að fullkomnun. Hitt er svo annað mál að það er hægt að gera hlutina með ódýrari hætti en að sækja vatnið til Borgarness og eflaust freistar það einhverra innan fyrirtækisins að draga úr kostnaði við framleiðsluna og nota bara vatn frá Englandi. Ætli þessi þáttur við framleiðsluna aldrei komið til tals hjá þeim sem sjá um fjármálin hjá Martin Miller’s Gin? Bob kímir við og kannast greinilega við þessar pælingar.
„Þessi spurning hefur komið upp allt frá fyrsta degi og gerir það alltaf þegar einhver nýr kemur til starfa hjá fyrirtækinu. En við svörum þessu ávallt á sömu leið. Við gefum smakk af gini sem framleitt er með íslensku vatni og annað sýnishorn með afjónuðu vatni. Munurinn fer ekki á milli mála, það taka allir eftir því hve mikill hann er. Án íslenska vatnsins hefði Martin Miller’s Gin ekki hinn fínlega ilm í nefi né heldur hina óviðjafnanlegu mýkt í munni.“
Bob bætir því við að Martin hafi sjálfur ráðið hvað mestu um endanlega uppskrift ginsins og að næmt auga hans fyrir smáatriðum og endalaus leit að fullkomnun hafi haft úrslitaáhrif við gerð þess. „Andi Martins og arfleifð hans endurspeglast í vörunni sem við framleiðum og meðan við breytum hvorki uppskriftinni né framleiðsluaðferðunum mun hann halda áfram að veita hverjum einasta starfsmanni nauðsynlegan innblástur á hverjum einasta degi. Minning hans minnir okkur stöðugt á að mikilvægi fullkomnunar, og að alúð við hvert smáatriði er leiðin þangað.“
Nálægð huldufólksins áþreifanleg í Borgarnesi
Sem fyrr segir gerði Martin Miller sér grein fyrir mikilvægi vatnsins og varð honum tíðrætt um þá útbreiddu trú Íslendinga að huldufólk byggi í stokkum og steinum, jafnvel í vatninu. Hann hafði á orði að íslenska vatnið væri „lifandi“ og það gerði það að verkum að það væri einstakt. Þegar Bob er spurður út í þennan þátt vatnsins í gininu er svarið kannski ekki eins gamansamt og ætla mætti; það er auðheyrt að hjá Martin Miller’s Gin taka menn íslensku þjóðtrúnni nokkuð alvarlega.
Það er eiginlega ekki hægt að heimsækja Borgarnes og nágrenni án þess að finna fyrir návist huldufólksins, þegar gengið er um hæðir og dali í nágrenninu,“ útskýrir hann. „Það er, þegar allt kemur til alls, þeim að þakka hve vatnið er einstakt sem við notum í Martin Miller’s Gin því huldufólkið býr í náttúrunni allt um kring. Þau eru hinir ósýnilegu verndarar ginsins okkar frábæra.
Í kokteil eða óblandað? Bæði betra!
Eins og nautnaseggir nær og fjær vita þá er gin í langflestum tilfellum drukkið sem hanastél, og þar er G&T vitaskuld langvinsælastur, þó Negroni verði sífellt vinsælli og klassískir kokteilar sæki sífellt í sig veðrið; nægir þar að nefna Tom Collins, Gin Martini og Gimlet, að ógleymdum Vesper, drykknum sem Daniel Craig gerði ódauðlegan sem James Bond í hinni frábæru Casino Royale. Gin þykir fáum sérstaklega gott eitt og sér. En viti menn, það kveður við annan tón hjá Martin Miller’s Gin. Hr Miller var nefnilega ekki í rónni fyrr en tekist hafði að gera uppskriftina svo vel úr garði að hægt væri að drekka ginið „straight“ ef menn vildu. Hvernig má það eiginlega vera, kunna margir að spyrja. Bob er hinsvegar fljótur til svars.
Í stuttu máli sagt þá snýst þetta enn og aftur um íslenska vatnið, sem gerir það að verkum að í munni er ginið okkar rúnnað og mjúkt, um leið og skarpt eftirbragðið eða beiskjan sem margir tengja við aðrar tegundir gins er hér ekki til staðar. Hinar sérvöldu jurtir sem saman mynda bragðið og hágæða vínandinn eru einnig lykilatriði sem þurfa að vera til staðar ef hægt á að vera að dreypa á gininu með góðu móti.
Gott gin gulli betra – í hanastélið
Það breytir því þó ekki að gott gin getur af sér góðan kokteil, og afburða gin getur af sér framúrskarandi kokteila. Það fer því vel á því að síðustu 20 ár – þann tíma sem Martin Miller’s Gin hefur verið á markaðnum – hefur orðið alger bylting í barmenningu og kokteilagerð um heim allan. Þar er öndvegisgin á algerum heimavelli, eins og Bob bendir á. „Martin Miller’s Gin er fullkomið í G&T sem og aðra sígilda kokteila þar sem gin er í aðalhlutverki.“
Í framhaldinu er rifjað upp hvernig Martin Miller sjálfur vildi helst hafa ginið sitt. Hann hafði nefnilega mest dálæti á Martin Miller’s Martini, með 3 hlutum Martin Miller’s Gin, ½ parti af Noilly Prat Vermút, skvettu af appelsínubitter, skreytt með sítrónutvisti og einni grænni ólífu. En hvað með Bob – hvernig vill hann helst ginið sitt? „Persónulega er ég hrifnastur af Negroni, samkvæmt klassísku uppskriftinni með hágæða Vermút á borð við Cocci.“
Að lokum verður að spyrja Bob að því hvernig hægt sé að halda eldmóðnum gangandi eftir alla þessu halarófu af viðurkenningum á heimsvísu. Hvert er hægt að stenfa þegar maður hefur þegar unnið allt?
„Það er ein mesta ástríðan fyrir okkur hjá Martin Miller’s Gin að veita öðrum í greininni innblástur og hvetja aðra til að setja markið jafn hátt og við höfum gert frá fyrsta degi. Eitt það skemmtilegasta sem við gerum er að fara og hitta fólk í bransanum, ekki síst barþjóna sem eru að gera hreint frábæra hluti með Martin Miller’s Gin. Sköpunargleðin og nýjungagirnin þeirra á meðal er eitt af því sem gleður okkur hvað mest í starfi okkar, ásamt því vitaskuld að fá að smakka á því sem þau eru að gera,“ bætir Bob kankvís við að endingu.