Náttúruvín – hrein framleiðsla, náttúruleg gæði
Fyrir aðeins fáeinum árum taldist það til algerra undantekningartilfella að vínframleiðendur legðu sig eftir því að framleiða og bjóða upp á náttúruvín í sínu vöruvali. Tvennt kom þar til; í fyrsta lagi var eftirspurning einfaldlega nánast engin, og í annan stað báru framleiðendur því við að aukin kostnaður væri fólginn í lífrænni og náttúrulegri framleiðslu. Hví að kasta peningum á glæ við framleiðslu á vöru sem varla nokkur hefði áhuga á?
Náttúruleg vitundarvakning og eftirspurnin fylgir
En á skömmum tíma hefur almenningur – sælkerar og vínáhugafólk þar með talið – kynnt sér málin hvað náttúrulega framleiðslu varðar, og áhuginn eykst stöðugt á lífrænum framleiðsluháttum og náttúrulegum vöru. Gagnsæi og rekjanleiki vega sífellt þyngra eftir því sem neytendur verða meðvitaðri um mikilvægi þess að vita meira um það sem þeir láta ofan í sig. Þar með eykst eftirspurnin og ávinningur framleiðenda við að halda í við tíðarandann blasir við. Vöruúrval náttúrulegra vara eykst um leið og skapar aukna meðvitund neytenda og þannig skapar þróunin almennilegan grundvöll fyrir náttúrulega framleiðslu.
Saga náttúruvína
Vín eru ekki undanskilin hér og áhuginn á náttúruvínum er sívaxandi um veröld víða. Náttúruvín komu fyrst fram á sjónarsviðið á árunum upp úr 1980 en náðu ekki neinni fótfestu sem heitið gat fyrst um sinn. Aðeins örlítið brot neytenda höfðu hugmynd um hvað málið snerist, hinir létu sér fátt um finnast svo framleiðsla náttúruvína náði engri fótfestu fyrst um sinn. Um fjórum áratugum síðar hefur umræðan um náttúruleg matvæli náð miklu víðtækari skírskotun og nógu margir horfa til þess að matur og drykkur hafi lífræna vottun til að framleiðendur sjái sér hag í að sinna sinni starfsemi með náttúrulegum hætti.
Hvað telst vera náttúruvín?
En þó áhuginn sé á stöðugri uppleið vantar oft nokkuð upp á að neytendur geri sér almennilega grein fyrir því hvað nákvæmlega er átt við. Hugtakið „náttúruvín“ hljómar nógu vel, það vantar ekki, en hvað skilgreinir náttúruvín?
Til að vín geti talist náttúruvín má ekki nota áburð við framleiðsluna (nema áburðurinn sé með öllu lífrænn sömuleiðis), né heldur má nota illgresiseyði, skordýraeitur, sveppaeitur eða annað álíka sem framleiðendur hafa vanið sig á að nota gegnum tíðina til að tryggja vöxt sinnar uppskeru.
Náttúruvín – engin súlfít
En í dag er ekki nóg, að flestra mati, að vínviðurinn sjálfur sé uppræktaður samkvæmt náttúrulegum viðmiðum til að endanlega vínið teljist náttúruvín. Þar á ofan er gerð krafa um að vínið sé með öllu laust við viðbætt súlfít, og það taka margir framleiðendur nú þegar til greina. Súlfít er það sem einnig nefnist brennisteins-díoxíð og er víða notað sem geymsluefni í víni, enda felur það í sér öfluga vörn gegn örverum sem gætu annars spillt víninu, og auk þess spornar það við oxun sem slær með tímanum á fagurrauðan lit vínsins og gerir það rauðbrúnt. Núorðið eru hins vegar ýmsir framleiðendur komnir upp á lag með að takmarka súlfít í víninu við þau sem verða náttúrulega til við gerjunina, og bæta þar af leiðandi engum frekari súlfítum við.
Hvaða máli skipta þessir framleiðsluhættir í raun og veru?
Sé að gáð kemur í ljós að merkilega hátt hlutfall þeirra léttvína sem framleidd eru samkvæmt náttúrlegum viðmiðum eru hágæðavín eða það sem kallast “premium” vín. Fyrir þessu eru allnokkrar ástæður, góðar og gildar.
Til að byrja með má benda á að margir ræktendur náttúruvína láta handtína þrúgurnar á uppskerutímanum í stað þess að láta vélbúnað safna berjaklösunum af vínviðnum. Þetta þýðir að einungis bestu klasarnir rata í vínframleiðsluna. Einnig má nefna að þegar vínekrurnar eru ekki baðaðar í kemískum áburði eða skordýraeitri verður vínviðurinn einfaldlega sterkari og sjálfbærari, bæði við að halda góðum vexti og skila góðum þrúgum, en ekki síður við að standast ásókn skordýra, sveppa og illgresis. Náttúrulega ræktaður vínviður stendur slíka ásókn einfaldlega betur af sér því hann hefur ekki fengið utanaðkomandi hjálp við slíkt. Að sama skapi hefur verið sýnt fram á að lífrænt ræktaður vínviður stendur betur af sér óhagstæð veðrabrigði, sem geta hreinlega eyðilagt viðkvæmari vínvið eða í það minnsta stórskaðað uppskeruna. Það virðist því til margs að vinna að temja sér náttúrleg vinnubrögð við ræktun vínviðar.
Salvaje: hið villta vín frá Chile
Þetta hafa framleiðendurnir í víngerðinni Emiliana í Chile tamið sér við framleiðsluna, og nægir í því sambandi að nefna eitt af öndvegisvínum þeirra, COYAM, en það vín valdi hinn annálaði sælkeri og vínsérfræðingur, Steingrímur Sigurgeirsson, síðuhaldari Vínótek.is, vín ársins 2016. Það kom fáum á óvart því vínið er hreint framúrskarandi. Sama er að segja um vínið Salvaje (nafnið merkir „villt“ á spænsku) en við framleiðslu þess er öll áhersla á fullkomlega náttúrulega umönnun og ræktun vínviðarins, og vinnslu þrúgnanna þegar kemur að uppskerunni. Með þeim hætti næst hámörkun á þeim einkennum jarðvegs og umhverfis sem mest áhrif hafa á vínið.
Umönnun sem skilar öndvegisvíni
Salvaje vínið kemur úr þrúgum sem vaxa í Casablanca-dalnum, vestur af höfuðborginni Santíagó. Þangað blær svalur vindur sem berst með Humboldt-hafstraumnum og inn í landið hægir á þroska þrúgnanna og jafnar hann út gegnum alla vínekruna. Þrúgurnar eru tíndar í höndum og kældar um leið og þær koma á hús. Eftir pressun fær svo vínið að þroskast á stáltönkum og útkoman er frábær. Salvaje vínið er djúp-fjólublátt á litinn, með þroskuð svört ber í nefi og keim af skógarbotni. Í munni koma fram pipar og múskat-nótur ásamt bláberja- og brómberjatónum. Hér er um ekta ljúffengt Suður-Amerískt Syrah-vín að ræða og með því að bæta við vínið um 7% af víni úr hvítum Roussane-þrúgum næst fram óviðjafnanleg fágun og jafnvægi.