Nikka Days
Masataka Taketsuru er maður merkilegur en þó kannski ekki á allra vörum. Hann er í raun einn ábyrgur fyrir upphafi viskíframleiðslu í Japan. Þessi merki maður fluttist til Skotlands árið 1918 og nam þar efnafræði við Glasgowháskóla auk þess að læra maltviskíframleiðslu í Longmorn verksmiðjunni í Spey-héraði og viskíblöndun í Hazelburn viskíbólinu í Campbeltown, undan norð-vesturströnd Skotlands. Með þá þekkingu er hann hafði viðað að sér fluttist hann örfáum árum síðar aftur heim til Japan þar sem hann hafði yfirumsjón með upphafi viskíframleiðslu í Suntory fyrirtækinu (sem þá hét Kotobukiya). Eftir að hafa komið japanskri viskíframleiðslu á koppinn þar ákvað hann að láta drauminn rætast og stofna sína eigin viskíverksmiðju. Það gerði hann árið 1934 í Yoichi, norðarlega í Japan. Þá staðsetningu valdi hann vegna þess að lands- og loftslagið þar líkist því sem gengur og gerist í Skotlandi. Svipað veðurfar og aðstæður til viskíframleiðslu.
Í dag á Nikka fyrirtækið tvær mjög fjölhæfar viskíverksmiðjur. Sú upphaflega er í Yoichi og þar er framleitt ýmiskonar maltviskí. Hin verksmiðjan er í Miyagikyo (stofnuð 1969) á meginlandi Japan og þar er framleitt bæði maltviskí úr potteimurum og kornviskí úr síeimurum.
Gegnum árin hafa komið alls kyns viskí frá þessum verksmiðjum, einmöltungar (nefndir eftir verksmiðjunum tveimur) sem og blöndur með maltviskíi frá þeim báðum auk kornviskís frá Miyagykio.
Nýverið kom á markað ný blanda sem nefnist Nikka Days. Þar koma saman maltviskí frá bæði Yoichi og Miyagykio blönduð með kornviskíi frá þeirri síðarnefndu. Því má ekki kalla Nikka Days maltviskí, heldur blandað viskí.
Aðal munurinn milli þessara tveggja verksmiðja er sá að í Yoichi er notast örlítið magn af mó, sem gefur viskíinu nettan móreykjarkeim en í Miyagykio kemur mór hvergi við sögu.
Nikka Days er ofur létt og silkmjúkt viskí. Mikill sítruskeimur, vanilla, appelsínubörkur, hvítt súkkulaði og það örlar á örlitlum móreyk frá Yoichi.
Hvernig er best að njóta Nikka Days?
Virkar mjög vel í góðu viskíglasi, eitt og sér við stofuhita, afar létt og aðgengilegt. Auk þess í hvert það hanastél sem inniheldur viskí. Nefnum til dæmis High Ball, sem er einn einfaldasti kokteill sem völ er á.
Notist við hátt, mjótt glas. Tveir – þrír ísmolar. Fyllið glasið að einum þriðja með Nikka Days og toppið upp með góðu tónikvatni, sódavatni eða jafnvel engiferöli fyrir smá auka kikk. Einfalt og afar hressandi hanastél.