Saga víngerðar á sér djúpar rætur og merkar í Douro-dalnum, þar sem samnefnd á rennur gegnum Norður-Portúgal, frá austri þar sem hún á upptök sín á Spáni og í vesturátt að ósum sínum þar sem borgin Porto stendur við strönd Atlantshafsins. Dalurinn er með eindæmum frjósamur og þar er fyrir bragðið að finna marga aldagamla vínframleiðendur með mikla hefð á bakvið sig. Þeirra á meðal er vínhúsið Quinta do Crasto sem framleiðir ekki bara himneskar afurðir úr landsins gæðum heldur leggur áherslu á að taka vel á móti gestum. Sælkeraferðamennska er orðinn snar þáttur í starfseminni og enginn verður svikinn af heimsókn til Quinta do Crasto.
,,Rómverska virkið”
Þegar sagt er að hefðin standi á gömlum merg hjá þessari frægu portúgölsku víngerð þá er ekki verið að færa í stílinn; elstu heimildir um víngerð á staðnum eru dagsettar árið 1615 og víngerðin því ríflega 400 ára. Á það má benda í þessu sambandi að nafnið “Crasto” er dregið af latneska orðinu castrum sem merkir “rómverskt virki”. Snemma á sinni starfsævi var Quinta do Crasto sæmt gæðatitilinum Feitoria, sem þá var æðsta nafnbót sem vínhús í Portúgal gat öðlast. Síðan þá hefur hvergi verið slakað á kröfunum nema síður sé og í dag er staðurinn ekki bara framleiðandi fyrsta flokks rauðvíns, hvítvíns og púrtvíns, heldur framleiðir Quinta do Crasto hágæða ólífuolíu. Sú framleiðsla er orðin býsna umfangsmikil og telur í dag um 45.000 flöskur á ári af bestu extra virgin ólífuolíu sem unnin er úr hinum lífrænt vottuðu ólífulundum fyrirtækisins.
Á besta mögulega stað
Staðsetningin, í hjarta Cima Morgo svæðisins, mitt á milli Régua og Pinhão, er óviðjafnanleg og Quinta do Crasto er opinberlega vottuð sem vínekra í A-flokki. Fyrirtækið á alls 135 hektara lands sem snúa mestmegnis móti suðri og þar af eru 75 nýttir undir ræktun, þaðan sem landið nær frá árbökkum Douro-árinnar og upp eftir hlíðunum, allt í 600 metra hæð. Vínviðurinn vex mestanpartinn á stöllum sem mótaðir hafa verið í hlíðarnar og þess má geta að Quinta do Crasto nýtir í senn háþróuðustu nútímatækni og aldagamlar aðferðir við víngerðina; má þar nefna að þrúgurnar eru fótum troðnar í svokölluðum lagares, sem eru granít-tankar að fornri gerð. Alls framleiðir fyrirtæki um 68.000 kassa af víni á ári – rauðvíni, hvítvíni og púrtvíni samtals – sem gerir um 816.000 flöskur. Víngerðin ræktar tugi afbrigða af þrúgum og meðal þeirra atkvæðamestu eru Touriga Nacional, Tinta Roriz, Touriga Franca, Tinta Barroca, Tinto Cão, Tinta Amarela, Tinta Francisca, Sousão, Rufete, Arinto og Rabigato. Því má svo bæta við að Quinta do Crasto er í þann mund að fá lífræna vottun af tvö af vínum sínum, Vinha Maria Teresa og Vinha da Ponte. Fjórðungur vínsins fer á heimamarkað en restin til rúmlega 40 landa um allan heim.
Gestrisni og góðar aðstæður
Sem fyrr sagði eru húsráðendur, þau Jorge og Leonor Roquette, ekki bara í meira lagi metnaðarfullir framleiðendur heldur framúrskarandi gestgjafar. Þau sáu tækifæri í síaukinni aðsókn ferðamanna og ákváðu að gera hlutina í þeim efnum með sama hætti og þau búa til vín og olífuolíu: með 100% metnaði. Douro dalurinn er einstaklega fallegt og veðursælt svæði sem hefur dregið til sín gesti í leit að óviðjafnanlega fallegu landslagi og rólegu andrúmslofti. Sælkeraferðamennska verður sífellt vinsælli og Roquette-hjónin kunna að taka á móti fólki. Þessu til stuðnings má nefna að árið 2015 komu fleiri en 3500 manns í heimsókn, skoðunarferðir jafnt sem gistingu, og svo góður er aðbúnaðurinn að TripAdvisor veitt Quinta do Crasto sína bestu vottun byggða á umsögnum gesta. Hvorki sannir sælkerar né vínáhugamenn mega láta hjá líða að kíkja við hjá þeim Jorge og Leonor, eigi þeir leið um Douro-dalinn.
Ekki má gleyma sundlauginni!
Einn frægasti þátturinn í hinu frábæru aðstæðum sem eru til að taka við gestum í Quinta do Crasto sundlaug sem verður frægari með hverju árinu. Laugin situr á óviðjafnalegum stað með útsýni yfir Douro-ána og var hönnuð af hinum fræga arkitekt Eduardo Souto de Moura. Laugin dregur ekki bara að sér sífellt fleiri gesti heldur hefur oft og ítarlega verið fjallað um hana í hinum ýmsu fjölmiðlum.
Hjónin í Quinta do Crasto og samstarfsfólk þeirra bjóða áhugsasömum sælkeraferðalöngum upp á margs konar upplifanir, mótaðar eftir smekk hvers og eins. Skoðunarferðir með vínsmökkun, hvort heldur er í hádeginu eða á kvöldmatartíma, eru geysivinsælar og sama er að segja um siglingar niður Douro-ána.
Hægt er að kynna sér vínin og heimsóknir til Quinta do Crasto nánar á heimasíðunni þeirra, www.quintadocrasto.pt og með því að senda svo línu á þau gegnum tölvupóstfangið enoturismo@quintadocrasto.pt
Hvernig væri að prófa þessi hágæða vín frá Quinta do Crasto?
Flor De Crasto 2017
Rúbínrautt. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra, miðlungstannín. Dökk ber, kirsuber, lyng.
Passar vel með saltfisk, kjúkling, svínakjöti og pottréttum. Verð 2.399 kr. Fæst í Vínbúðinni.
Flor De Crasto Blanco 2017
Ljóssítrónugult. Létt meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Epli, stjörnuávöxtur, sítrus, apríkósa, blómlegt. Passar vel með grilluðum fisk, skelfiskréttum eins og kræklingi og hörpuskel og grilluðum rækjum.
Verð 2.299 kr. Fæst í Vínbúðinni.
Crasto Superior Syrah 2015
Dökkrúbínrautt. Þétt fylling, ósætt, fersk sýra, þétt tannín. Dökk kirsuber, eik, sveskja, kaffi. Passar vel með lambakjöti, nautakjöti, villibráð og pottréttum. Verð 3.799 kr. fæst í Vínbúðinni.
Quinta Do Crasto Tinta Roriz 2015
Dökkrúbínrautt. Þétt fylling, ósætt, fersks sýra, þurrkandi tannín. Sólber, eik, barkarkrydd, kaffi. Mjög elegant vín, parið með dökku kjöti, lambi, nauti og frábært með villibráð. Verð 5.999 kr. Fæst í Vínbúðinni.