Rémy Martin 1738 Accord Royal: Koníak með leyfi konungs

Þegar hefur verið talsvert rætt og ritað um franska koníaksframleiðandann Rémy Martin á þessum vettvangi og er það vel; Rémy Martin XO er öndvegiskoníak sem á skilið að rækilega sé um það rætt og reifað. En hér er annað og ekkí síður spennandi uppi á teningnum; koníak frá Rémy Martin sem ber hið volduga og sögulega heiti 1738 Accord Royal. En hvað er með ártalið 1738? Og til hvaða konunglega samþykkis er verið að vísa í nafninu?

Þegar kóngur gaf tvo þumla upp

Það er út af fyrir sig fljótgert að segja frá því. Rémy Martin 1738 Accord Royal ber þetta virðulega nafn til að fagna afskaplega merkum áfanga í sögu þessa nafntogaða koníaksframleiðanda. Á því herrans ári 1738 bar það nefnilega til að Rémy Martin sjálfur fékk sérstakt samþykki Loðvíks 15. Frakkakonungs til að plægja út nýjar vínekrur og planta þar vínviði svo hægt væri að auka við framleiðsluna. Um sjaldgæft, konunglegt einkaleyfi var að ræða og var það eingöngu tilkomið af því konungurinn var svo yfir sig hrifinn af koníakinu sem Rémy bjó til. Það má sannalega telja talsvert afrek því á þessum tímapunkti hafði Rémy karlinn aðeins framleitt koníak í um 14 ár. Betri staðfestingu á góðum árangri í sinni grein var ekki hægt að fá á sínum tíma. Það er svo árið 1997 sem Georges Clot, kjallarameistari Rémy Martin, ákvað að skapa nýtt koníak til heiðurs þessum merka áfanga og um leið merkisári í sögu fyrirtækisins. Óhætt er að segja að útkoman hafi verið Rémy Martin til sóma; árið 2014 fékk Rémy Martin 1738 Accord Royal tvöföld gullverðlaun í San Francisco World Spirits keppninni.

 

Aðgengilegt koníak með ótal möguleika

Ímynd koníaks hefur ekki breyst ýkja mikið gegnum árin (eða áratugina) og hugtakið „koníak“ framkallar líklega hjá flestum eitthvað í áttina að virðulegu fólki, nokkuð við aldur, sem situr makindalega í Chesterfield-sófasetti í viðarklæddri setustofu (þess vegna eru þær iðulega kallaðar koníaksstofur) og dreypir makindalega á koníakistári eftir dýrindis máltíð. Vindill og vandað kaffi líklega ekki langt undan. Þetta er út af fyrir sig ekki svo galin tilhugsun, en setur þó koníaki svolítið einhæfar skorður. Með 1738 Accord Royal gæti aftur á móti verið komið útspil frá Rémy Martin sem slær á þessa gömlu klisju. Hér er nefnilega á ferðinni ljúft og einkar aðgengilegt koníak með margslungnu bragði sem býður upp á að njóta veiganna með margvíslegum hætti. Lögg í snifter-glasi er alls ekki eina leiðin til að upplifa 1738 Accord Royal – hér takmarkast möguleikarnir bara við nálgun hvers og eins. Skoðum aðeins helstu smakkpunkta 1738 Accord Royal:

Í nefi:

Ríkulegur keimur af plómum og fíkjumarmelaði, ásamt skörpum eikartónum sem minna á toffísykur og ristað brauð.

Í munni:

Einstök bragðmýkt rjómakaramellu ásamt glóðuðum kryddum og suðusúkkulaði.

Fylling:

Framúrskarandi mýkt með flauelsmjúku, næstum rjómakenndu eftirbragði með hnetukeim, þökk sé þroskun á glóðuðum frönskum eikarámum.

Njóttu þess eins og þú vilt!

Þegar koníak býður upp á svona magnaðan bragðprófíl er ekki hægt að segja annað en að manni sé boðið upp í dans; möguleikarnir eru óendanlegir. Að sjálfsögðu er 1738 Accord Royal dýrðlegt eitt og sér, í belgvíðum snifter eins og við þekkjum það helst, en það væri glapræði að prófa það ekki út á ís til að finna hvaða galdrar í bragðinu leysast þá úr læðingi, og sérstaklega væri það mikil synd að missa af 1738 Accord Royal sem burðardrykkur í hanastéli. Þetta úrvalskoníak gengur frábærlega upp í kokteilum, og alveg sérstaklega ef sítrusbragð kemur einhvern veginn við sögu. Sagði einhver Old Fashioned? Þá hefur sá hinn sami hárrétt fyrir sér. Við mælum einnig með hinum klassísku og sögufægu kokteilum Sazerac og Sidecar – prófið þá með 1738 Accord Royal og sannfærist.

Hvað með smá matarbita?

Já, hví ekki það? Það er út af fyrir sig ekkert flókið að para saman koníak og smá „möns“, þó koníak sé vitaskuld ekki hugsað sem matvín í sjálfu sér. En smá snarl með koníaki getur verið hrein snilld ef vel er valið. Fyrst er að telja ostana, ef þeir eru þroskaðir og bragðmiklir, svosem vel þroskaður parmesan eða góður Roquefort. Súkkulaði fer einstaklega vel með koníaki, ekki síst hágæða dökkt súkkulaði með háu kakóinnihaldi, 70% eða meira.

Það er lykilatriði að njóta Rémy Martin 1738 Accord Royal nákvæmlega eins og hver og einn vill, og það ætti ekki að vera vandamál með jafn bragðljúft og aðgengilegt koníak og hér um ræðir.

Njótið vel!