Koníak hefur um langan aldur verið sá drykkur sem flestir tengja við gæðastundina að lokinni góðri máltíð. Að láta fara vel um sig og slaka á þegar staðið hefur verið upp frá veisluborðum og tylla sér í betra sæti er athöfn sem hefur getið af sér tvö hugtök; “kaffi og koníak” og “koníaksstofa” – því svart kaffi og lögg af koníaki í belgvíðu glasi er samsetning sem á einkar vel við þegar mýkja á meltinguna á veisluföngunum, og afdrepið til slíkrar iðju er iðulega setustofa samkvæmt hefðinni, með bókahillum og barskáp.
Er koníak tegund af brandý – eða er það öfugt?
En hvað er svo þetta koníak? Það sem við Íslendingar köllum einu nafni koníak er sterkt, eimað áfengi búið til úr hvítum þrúgum sem fær að þroskast á eikartunnum uns það er klárt til áfyllingar á flösku. Slíkur vökvi heitir með réttu “brandý” en uppruni hans þarf að vera frá nærsveitum frönsku borgarinnar Cognac [les. konjak] til að mega heita einmitt það. Brandý er semsé heiti breiðs flokks brennivíns sem framleiddur er samkvæmt því sem líst er í upphafi málsgreinarinnar, en aðeins smáhluti brandýs er með réttu koníak. Annars er íslenska tökuorðið brandý komið frá enska orðinu brandywine, sem aftur á sinn uppruna í hollenska orðinu brandewijn, sem merkir einfaldlega brennt vín.
Cognac og hvíta þrúgan ódrekkandi
Borgin Cognac er í Suð-vestur Frakklandi, um 130 km norður af Bordeaux. Eins og gefur að skilja er borgin langfrægust fyrir koníaksgerð sem nær aftur um nokkur árhundruð. Þrúgan sem er að langmestu leyti notuð við gerð koníaks nefnist Ugni Blanc (sú sama og Ítalir kalla Trebbiano) og merkilegt nokk er hún svo þurr á bragðið og sýrurík að hún þykir jafnan með öllu ódrekkandi. En á hinn bóginn er hún einkar heppileg til eimunar og þroskast hún auk þess ævintýralega vel á eik. Fyrir bragðið blasir við að hún steinliggur til koníaksgerðar og má gera sér í hugarlund að endur fyrir löngu hafi menn gefist upp á að reyna að búa til boðlegt hvítvín úr þrúgunni og afráðið þess í stað að eima gerjað vínið og geyma. Restin er – eins og sagt er – kafli í sælkerasögu heimsins.
Rémy Martin – tæplega 300 ára og enn í fullu fjöri
Langt er um liðið síðan hinn franski Rémy Martin hóf að búa til brandý í nágrenni áðurnefndrar borgar, Cognac, en hann setti fyrirtæki sitt á laggirnar árið 1724 og fagnar þessi frægasti koníaksframleiðandi heims 300 ára afmæli sínu eftir átta ár. Mikið hefur vatn runnið til sjávar á þessum langa tíma hvað neyslu koníaks áhrærir. Í eina tíð hvarflaði ekki að neinum að hella neinu saman við þetta sparilega öndvegisáfengi, en í dag eru alvanalegt að kokteilar séu blandaðir úr koníaki og þykir jafn eðlilegt eins og að drekka það úr hinu belgvíða “snifter”-glasi með svörtu kaffi eftir matinn. Ýmsar útfærslur eru til af koníaki sem of langt og flókið mál er að þylja hér, en aðalatriðið er að kunna skil á eftirfarandi gerðum koníaks:
V.S.O.P. – Very Superior Old Pale, einnig nefnt Reserve. Blanda þar sem yngsta brandýið á að baki minnst 4 ár á eikartunnu.
Napoleon, blanda þar sem yngsta brandýið er yngst 6 ára.
X.O. – Extra Old, blanda þar sem yngsta brandýið á að minnsta kosti 10 ár að baki á eikartunnu.
Hvernig væri að prófa?
Remy Martin Fine Champagne VSOP Mature Cask Finish
Remy Martin VSOP Mature Cask Finish samanstendur af Eaux-de-Vie sem koma eingöngu frá bestu víngörðum Cognac héraðsins, Grand– og Petit Champagne. Slík Eaux-de-Vie bjóða uppá framúskarandi öldrunar möguleika og eru þekkt sem Cognac Fine Champagne.
Lýsing: Rafgullið. Þurrt, frekar létt með fínlegan blóma- og tunnutón, barkarkeim og löngu, ágengu eftirbragði. Heitt sprittbragð.
Styrkleiki: 40%
Verð: 9.999 kr.
Remy Martin XO Excellence Fine Champagne
Rémy Martin XO samanstendur af 400 mismunandi Eaux-de-Vie blöndum sem koma eingöngu frá bestu víngörðum Cognac héraðsins, Grand– og Petit Champagne. Slík Eaux-de-Vie bjóða uppá framúskarandi öldrunar möguleika og eru þekkt sem Cognac Fine Champagne.
Lýsing: Dökkrafgullið. Þétt fylling, ósætt. Þurrkaðir ávextir, rjómakaramella, fjólur, eik. Heitt margslungið, eftirbragð.
Styrkleiki: 40%
Verð: 24.999 kr.